Ekki er óalgengt að listamenn eigi sér músur sem þeir sækja andagift sína í.
Fatahönnuðir eiga sér oftar en ekki fleiri en eina músu; sumar hafa tímabundin áhrif og veita innblástur að ákveðinni vörulínu eða tískusýningu á meðan aðrar rista dýpra og hafa mótað hönnuðina og sýn þeirra á tísku.
Tom Ford
Táningsárin eru mjög mótandi tími og það á ekki síst við um Tom Ford. Samkvæmt honum er allt tískuvit hans sprottið frá þeim tíma sem hann varði með hönnuðinum Halston þá aðeins sautján ára.
Halston klæddi allt fína og fræga fólkið á þessum tíma, Lizu Minnelli, Elizabeth Taylor og Angelicu Houston.
„Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“
„Ég fór kvöld eitt fullur heim til Halstons og hann eldaði egg handa okkur. Á þessum árum kynntist ég fólki, eins og Biöncu Jagger, sem ég þekki enn í dag og það segir stundum: „Bíddu hvenær kynntist ég þér fyrst?“ Ég var bara sautján ára krakki sem var með vini þeirra.
Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“
Maria Grazia Chiuri
Listrænn stjórnandi Dior, Maria Grazia Chiuri, fetar óhrædd í fótspor heimsfrægra hönnuða. Það kemur því ef til vill einhverjum á óvart að sú sem veitir henni helst innblástur er tvítug dóttir hennar, Rachele Regini. „Að sjálfsögðu er hún músan mín. Ég elska tísku af öllu hjarta og ég veit nákvæmlega hvað ég vil fá út úr henni fyrir sjálfa mig. En ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hugsa ég nær aldrei um sjálfa mig í hönnun minni, þú verður að hlusta á hvað yngri kynslóðin vill. Stundum eru það því börnin sem kenna móðurinni.“
Karl Lagerfeld
Það eru ekki aðeins lifandi einstaklingar sem eru hönnuðum músur. Einn frægasti fatahönnuður samtímans, Karl Lagerfeld, listrænn stjórnandi hjá Chanel og Fendi, sækir enn innblástur í fyrrum unnusta sinn, Jacques De Bascher, sem lést árið 1989 aðeins þrjátíu og sjö ára. „Ég er mikill fjölskyldumaður en hann var eins og fjölskylda án þeirra skyldna sem fylgja fjölskyldum. Hann hleypti birtu inn í líf mitt á hátt sem engum hefur tekist síðan. Kannski er bara ein slík manneskja á mann og svo ekki meir.“
Hubert de Givenchy
Ævilöng vinátta Huberts de Givenchy og Audrey Hepburn er vel þekkt innan tískubransans. Audrey Hepburn sagði að fötin hans væru þau einu sem henni liði sem sér sjálfri í. Hubert De Givenchy hannaði eina frægustu flík kvikmyndasögunnar á Audrey, eða svarta kjólinn sem hún klæddist í Breakfast at Tiffany’s. „Ég kann best við persónuleika hennar og sjarma. Stíll hennar skín í gegn í kvikmyndum og í þeim fötum sem hún klæðist. Hún er einstök,“ sagði hann. Enn þann dag í dag sækir tískuhúsið fræga innblástur í Audrey.
Alessandro Michele
Mömmur eru bestar og það veit Alessandro Michele, listrænn stjórnanadi Gucci, vel. Móðir hans er helsti innblásturinn í hönnun hans og hann lýsir henni sem algjörlega klikkaðri kerlingu sem lifir í stællegum heimi. „Okkur vantar fleiri sérvitringa eins og hana svo ég hef hannað vörulínur mínar og tískusýningar með tilliti til eintaklingsins. Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“
„Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“
Stella McCartney
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni segir máltækið en þó að foreldrar Stellu McCartney, tónlistarfólkið Paul og Linda McCartney, hafi svo sannarlega verið hæfileikaríkir og skapandi þá var fatasmekkur þeirra ekkert til að hrópa húrra fyrir. Stella segir þó að það hafi einmitt verið henni innblástur. „Foreldrar mínir höfðu lítinn áhuga á tísku sem gerði það að verkum að stíll þeirra var aldrei útpældur né ofhugsaður. Það var þeim svo eðlislægt að blanda saman nýju og gömlu, glamúr og klassík. Þau höfðu ómeðvitað mikil áhrif á mig og vörumerki mitt, mig langaði að gera eitthvað meira og stærra en bara að hanna fallega kjóla og sýna þá á tískupöllunum.“
Höfundur / Hildur Friðriksdóttir