Ellen Björnsdóttir segir frá uppáhaldsstöðum sínum á svæðinu Shanghai.
Ellen Björnsdóttir er heimavinnandi húsmóðir í Shanghai en hún er í starfsleyfi hjá Volvo Truck þar sem hún vinnur í innkaupum. Hún hefur búið í Shanghai í næstum fjögur ár ásamt fjölskyldu sinni og hundinum Barney. Við fengum hana til að segja okkur frá uppáhaldsstöðum sínum á svæðinu.
„Margir kostir fylgja því að búa í Shanghai ekki síst að upplifa menningu sem er ólík öllu sem við erum vön. Við búum í hverfi þar sem fólk allsstaðar að úr heiminum býr svo núna eigum við vini frá öllum heimshornum. Við höfum ferðast mikið síðan við fluttum hingað, svolítið um Kína en mest um alla Asíu,“ segir Ellen. Eiginmaður hennar heitir Styrmir og þau eiga dæturnar Leu, 20 ára, og Sögu, 19 ára og Styrmir á soninn Davíð, 24 ára.
The Bund
Uppáhaldsstaður minn í Shanghai er The Bund sem liggur við ána Huangpu sem skiptir Shanghai í tvo hluta; Pudong í austri og Puxi í vestri. Ég fæ aldrei nóg af útsýninu frá Puxi yfir Huangpu-ána til nýja hverfisins í Pudong og skýjakljúfanna. Gaman að ganga að degi til í mannfjöldanum sem safnast saman með fram ánni og enn betra er að njóta útsýnisins þegar dimmir og ljósin kvikna á turnunum hinum megin við ána. Á Vue-bar á 32.-33. hæð á Grand Hyatt-hótelinu er útsýnið best yfir The Bund á meðan ljósin kvikna.
Yuyuan Garden
Í gamla hverfinu í Shanghai er Yuyuan Garden, því litla sem enn er til, og er yfirleitt fullt af ferðamönnum, mest kínverskum annars staðar frá Kína en líka vestrænum. Þar er brúin sem byggð er í sikk sakk til að illir andar nái ekki til þín, en talið er að þeir geti ekki beygt, og svo fallegir steinagarðar. Ég mæli með því að þið fáið ykkur dumplings að borða í garðinum og þó að raðirnar séu oftast langar er það vel þess virði. Verið viðbúin því að teknar séu myndir af ykkur, gjarnan með Kínverjum. Skemmtilegast er að fara í kvöldhjólatúr um gamla hverfið, múta verðinum með sígarettupakka og fá þar af leiðandi að hjóla einn í gegnum mannlausan garðinn.
Zhujiajiao Ancient Town
Þessi fallegi vatnabær er í um það vil 40 mínútna akstursfjarlægð frá Shanghai. Þar eru síki og fallegar brýr en síkin voru hér áður fyrr notuð til að koma varningi á milli staða. Fallegasta brúin heitir Fangsheng Bridge og hægt er að fara í bátsferðir um síkin. Gaman er að ganga um gömlu göturnar, þarna eru mörg kósí kaffihús, barir, ekta kínverskir veitingastaðir og skemmtileg lítil listagallerí ásamt verslunum sem selja silkiklúta, silkisængur og kínverska minjagripi svo eitthvað sem nefnt. Einnig eru nokkur söfn og skemmtilegir garðar sem gaman er að skoða. Hægt er að komast þangað með rútu frá nokkrum stöðum í Shanghai eða taka leigubíl ef maður er tilbúinn í fjörtíu mínútna spennandi ferðalag.
Shanghai World Financial Center
Ein af hæstu byggingunum í Kína, Shanghai World Financial Center, er í nýja hverfinu í Pudong nálægt Huangpu-ánni. Í þessum skýjakljúfi eru hótel, skrifstofur, veitingastaðir, skemmtistaðir og verslanir. Hægt er að fara með lyftu upp á 97. hæð og njóta þess sem fyrir augum ber frá útsýnispalli í 474 metra hæð. Skemmtilegast finnst mér að fara á 96. hæðina og njóta þess að borða hádegismat með þessu frábæra útsýni. Vanda þarf val á degi því útsýnið er ekki alltaf jafngott vegna loftmengunar. Þetta er ekki fyrir lofthrædda.
Sichuan Citizen
Veitingastaðurinn Sichuan Citizen er einn af mínum uppáhalds í Shanghai. Maturinn er frá Sichuan-héraðinu og er ekta kínverskur sterkur matur. Þar er alltaf góð blanda af Kínverjum og ferðamönnum og góð stemning. Einkennisdrykkur staðarins heitir Basil Drops og þið megið alls ekki láta hann fram hjá ykkur fara. Fólk kemur á þennan stað bara til að fá þennan drykk. Flestir þjónarnir tala ensku og ef ekki þá sækja þeir enskumælandi þjón. Staðurinn er í franska hverfinu svo það er ekki langt í næsta skemmtilega bar eða kaffihús ef fólk vill eiga gott kvöld í Shanghai.
Aðalmynd: Ellen við The Bund.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir