Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Neyð konunnar gekk mér að hjarta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Fyrir nokkru var ég á leið heim frá sólarströnd í íslenskri flugvél. Skyndilega heyrðist rödd flugfreyjunnar í kallkerfinu og hún spurði hvort læknir væri um borð. Hjón gáfu sig fram og fljótlega var okkur öllum ljóst að í vélinni var kona haldin ofsahræðslu í alvarlegu kvíðakasti. Hún er greind með alzheimer á byrjunarstigi og var þarna ein á ferð og missti skyndilega allt veruleikaskyn og vissi ekki hvar hún var stödd.

Ég hafði verið í ferð með stórum hópi og við notið okkar til fulls í sólinni. Um var að ræða fólk sem í mörg ár hafði starfað saman að skemmtilegu áhugamáli og þessa ferð fórum við til að verðlauna okkur fyrir góðan árangur. Í flugvélinni var því mikið skrafað og skeggrætt og þess vegna farið fram hjá okkur hvernig ótti konunnar magnaðist eftir því sem leið á flugið. Við vorum hins vegar öll strax tilbúin að gera það sem við gátum til að hjálpa til.

Ég frétti síðar að konan hafði verið í fríi með vinkonum sínum á Spáni en hvers vegna þær sendu hana eina heim veit ég ekki. Hins vegar fann ég til djúprar samúðar með konunni því ég þekki sjúkdóminn sem hún er haldin. Síðustu sex árin sem maðurinn minn lifði missti hann smátt og smátt tökin á lífinu. Hann var mikill athafnamaður, sjálfstæður og félagslyndur en sjúkdómurinn rændi hann þessum eiginleikum.

Þessi tengslarof við raunveruleikann eru algeng á fyrstu stigum.

Undir það síðasta þorði hann ekki út og fór helst ekki í matarboð til barnanna okkar, svo óöruggur var hann orðinn. Margir halda að alzheimer-sjúklingar viti ekki og skynji ekki sjálfir hvernig komið er fyrir þeim en það er aðeins á lokastigum sjúkdómsins. Þessi tengslarof við raunveruleikann eru algeng á fyrstu stigum, fólk villist í götunni heima hjá sér, er statt úti í búð og veit skyndilega ekki hvar það er í heiminum eða hvað að gera, og það heldur kannski á greiðu og hefur ekki hugmynd um til hvers hún er notuð.

Missa tengsl við raunveruleikann

Ég vissi þess vegna vel hvað var að koma fyrir konuna í flugvélinni og fann óskaplega mikið til með henni. Læknarnir tveir gerðu sitt besta til að hlúa að henni en að lokum var ákveðið að snúa við og lenda í Dublin. Aftur kölluðu flugfreyjurnar eftir hjálp og nú spurðu þær hvort einhver um borð væri tilbúinn að yfirgefa flugvélina og fylgja konunni á sjúkrahús. Sá hinn sami myndi fá far sér að kostnaðarlausu með flugi næsta dag. Ein úr hópnum mínum bauð sig fram, kona sem unnið hefur sjálfboðavinnu víða og sinnt um fólk sem á þarf að halda. Mér leið strax betur þegar ég sá hver hafði stigið fram því ég vissi að konan var í góðum höndum þar.

- Auglýsing -

Þegar þær höfðu kvatt hélt flugið okkar áfram og við lentum í Keflavík, að vísu nokkuð seinna en áætlað hafði verið en ég gat ekki fundið annað en að allir farþegar væru sáttir.

Þessi saga finnst mér bæði falleg og ljót. Viðbrögð starfsfólks í fluginu voru til mikillar fyrirmyndar. Allir voru fullkomlega fumlausir og héldu ró sinni. Læknarnir tveir sýndu strax hversu miklir fagmenn þeir voru. Þetta voru hjón frá Kanada og annað þeirra með sérgrein í hjartasjúkdómum en hitt bæklunarlækningum. Þau voru einstaklega hlýleg og ljúf í framkomu og gættu þess vel að fylgjast með líkamlegu ástandi konunnar. Farþegar voru skilningsríkir og ég fann ekki óþolinmæði eða reiði hjá nokkrum manni. En ljót vegna þess að fólk sem haldið er jafngrimmum og erfiðum sjúkdómi og alzheimer er á alls ekki að ferðast eitt.

Ég veit að ekki er auðvelt að hugsa um sjúkling og líklega er það ekki fyrir alla. Maðurinn minn var svo lánsamur að eiga að fjölskyldu þar sem ríkir virðing og vinátta. Börnin okkar og aðrir ættingjar sýndu okkur því mikinn stuðning. Vinir hans voru líka afskaplega tryggir og góðir og fylktu sér um okkur þegar ljóst var að hann var veikur. Þetta létti okkur vissulega lífið og notalegt að vita að ef á þurfti að halda var hjálpin nærtæk. Þess vegna get ég ekki annað en velt fyrir mér hvernig manneskjur vinkonur konunnar í flugvélinu eru og hvers vegna hún var þarna ein á ferð.

- Auglýsing -

Hver þarf óvini?

Sú spurning læðist óneitanlega að mér að þær hafi verið orðnar þreyttar á að bera ábyrgð á henni og því ákveðið að senda hana heim. Engin þeirra sá hins vegar ástæðu til að fylgja henni. Líklega hafa þær ekki viljað eyðileggja eigin skemmtun. Auðvitað er ég að dæma eitthvað sem ég hef ekki fulla vitneskju um. Kannski lágu góðar ástæður að baki því að konan var ein á ferð. Ég hef velt því fyrir mér en veit ekki alveg hverjar þær ættu að vera. Dettur ekkert í hug sem mér finnst skýra þetta fyllilega. Venjulega þegar fólk fer saman út er það samferða heim líka.

Sú spurning læðist óneitanlega að mér að þær hafi verið orðnar þreyttar á að bera ábyrgð á henni.

Flestir kaupa viku-, hálfsmánaðar- eða þriggja vikna ferðir og eru allan tímann. Setningin, Sá sem á slíka vini þarf ekki óvini, virðist eiga við hér. En eins og ég segi er ég hugsanlega mjög óréttlát í garð þessara kvenna. Neyð konunnar í flugvélin gekk mér hins vegar að hjarta og ég hef ekki getað gleymt þessu atviki.

Það ásækir mig enn og þess vegna langaði mig að koma þessari frásögn á framfæri. Bæði til að þakka öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að hjálpa og sýna konunni að hún væri ekki ein í heiminum og starfsfólkinu sem stóð sig svo einstaklega vel. Ég held líka að upplýsingar og fræðsla um alzheimer-sjúkdóminn gæti nýst vel til að auka skilning fólks á því sem komið getur fyrir. Þetta eru alvarleg veikindi og meðan sjúklingar með hann geta notið lífsins er æskilegt að þeim sé gert það kleift en ekki er hægt að ætlast til að það sýni sama sjálfstæði og áður.

Daginn eftir kom svo vinkona mín heim frá Dublin. Hún hafði verið með konunni á sjúkrahúsinu í sólarhring. Þar undirgekkst hún ýmsar rannsóknir og var að þeim loknum send heim. Allan þennan tíma fékk konan hvorki vott né þurrt og einn koll til að sitja á. Vinkona mín sat stóran hluta tímans frammi á gangi og gat fengið sér að borða úr sjálfsala en sjúklingnum var fært eitt vatnsglas. Mikið hefur verið rætt og ritað um íslenskt heilbrigðiskerfi en ef marka má þessa sögu er víðar pottur brotinn í þeim efnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -