Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Nístandi frá upphafi til enda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikritið Fólk, staðir, hlutir segir frá leikkonunni Emmu sem er alkahólisti og lyfjafíkill. Áhorfendur fylgjast svo með ferðalagi hennar í gegnum tólf sporin í leit að sátt við sjálfa sig.

Verkið er skrifað af hinu margverðlaunaða leikskáldi Duncan Macmillan en leikrit hans hafa notið gríðarlegra vinsælda um heim allan.

Þetta er þriðja leikverkið sem sett er upp eftir skáldið hér á landi en það fyrsta, Andaðu sló eftirminnilega í gegn þegar það var sett upp í Iðnó. Duncan skrifaði jafnframt leikgerð að verkinu 1984 sem sýnt var í Borgarleikhúsinu fyrr í vetur.

Titillinn, Fólk, staðir, hlutir vísar í það sem fíklum beri að forðast eftir að hafa leitað sér hjálpar. Þrennan sem triggerar fíknina. Það er óhætt að segja verkið tali beint inn í íslenskan samtíma því biðlistar hafa aldrei verið lengri eftir meðferðarúrræðum.

Fíknisjúkdómar fara ekki í manngreiningarálit en helmingur leikhópsins fer með fleira en eitt hlutverk. Þannig mynda sögupersónurnar hliðstæður af hinu fjölbreytta litrófi mannlífsins.

Vesturport hefur fyrir löngu skapað sér sérstöðu og þó umfjöllarefnið sé þungt og viðkvæmt í vöfum notar hópurinn húmor óspart til þess að koma sögunni skemmtilega frá sér. Leikstjórinn Gísli Örn Garðarson hefur fyrir löngu sannað snilli sína og bregst honum ekki bogalistinn fremur venju.

Hirðleikmyndahönnuður hópsins, Börkur Jónsson hannaði leikmyndina en hún er ílöng og vekur ósjálfrátt hugrenningartengsl við töfluhylki. Þórður Orri Pétursson sá um að flóðlýsa innantómt hylkið ásamt því að láta blikkljós og aðrar ljósalausnir endurspegla líðan fíkilsins hverju sinni. Tónlistin magnaði svo atburðarrásina og aðskildi snöggar skiptingar á milli atriða. Garðar Borgþórsson sá um hljóðmynd og búninga hannaði Katja Ebbel Fredriksen.

Mest mæðir á aðalleikkonunni Nínu Dögg Filippusdóttur en hún leikur fíkilinn Emmu sem neydd er í meðferð. Í afneitun sinni reynist Emma afar óþekkur sjúklingur en smám saman flysjast lygalögin af fjölbreyttum frásögnum hennar. Áhorfendur fylgjast með neyslunni, fráhvörfunum og meðferðardvölinni þar sem Emma líður vítiskvalir.

Leikur Nínu er hreint út sagt stórfenglegur en hún túlkar þessa margræðu og eldkláru konu af mikilli sannfæringu og öryggi.

- Auglýsing -

Samleikur þeirra Nínu og Björns Thors var töfrandi og trúverðugur en í upphafi kynna þeirra er hann fíkill sem neitar að yfirgefa meðferðarstofnunina en tekur við starfi meðferðarfulltrúa eftir því sem líður á leikritið.
Hannes Óli Ágústsson skapaði sömuleiðis eftirminnilegan karakter sem hinn kómíski meðferðarfulltrúi er annaðist Emmu í fyrstu innlögn sinni. Þær Edda Björg Eyjólfsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir leika bæði hjúkrunarfræðinga og fíkla og gera báðar vel. Jóhann Sigurðsson og Sigrún Edda Björnsdóttir fara með hlutverk foreldra Emmu en auk þess túlkar Jóhann tvo ólíka fíkla. Sigrún fer sömuleiðis með hlutverk læknis og meðferðarfulltrúans sem leiðir Emmu í gegnum sporin tólf. Sigrún var sannfærandi að venju og samtal mæðgnanna í lokin hreint út sagt ógleymanlegt.

Umfjöllunina er að finna í 17.tbl Vikunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -