Sex sekúndur á dag geta gert kraftaverk. Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Samskiptastöðinni, gefur einfalt en afar gagnlegt ráð í sínum nýjasta pistli.
Hún segir að sex sekúndur á dag geta gert kraftaverk fyrir sambandið. Hún segir að í amstri dagsins geti oft reynst erfitt að finna tíma til að sinna makanum en nokkrar sekúndur er stundum allt sem þarf til að halda neistanum í sambandinu.
„En áttu sex sekúndur til aflögu daglega?“ spyr Sara. Hún segir svarið hjá flestum hljóta að vera já. Þessar umræddu sex sekúndur á að nýta í koss.
Sara segir kossa sem vara í sex sekúndur virka öðruvísi á okkur heldur en kossar sem endast í eina eða tvær sekúndur. „Það er eitthvað sem gerist í líkamanum með því að kyssast í sex sekúndur,“ skrifar hún. Hún vísar í niðurstöður rannsókna sérfræðingsins John Gottman sem hefur rannsakað parasambönd í áratugi.
Hún mælir með að fólk prófi að kyssa maka sinn í sex sekúndur á dag í mánuð til að byrja með og sjái hvaða áhrif það hefur. „Bara á þessum stutta tíma finnur þú betri og dýpri tengingu við maka þinn og líkami ykkar beggja slakar á.“
Lestu pistil Söru í heild sinni hérna