Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

„Nú er Villi búinn að taka niður hringinn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Fyrir fimm árum réði ég mig í vinnu hjá litlu en stöndugu fyrirtæki. Ég kunni vel við mig að því undanskildu að næsti yfirmaður minn, Villi, var eiginlega óþolandi. Okkur gekk ágætlega að vinna saman en sjálfhverfur persónuleikinn og yfirgangur hans gagnvart mér og öðrum reyndi stundum á þolinmæðina. Svo komst ég að því hver konan hans var.

Strax fyrsta daginn minn varð ég var við að Villi átti sér uppáhaldsvinnufélaga. Í raun hafði hann safnað í kringum sig klíku manna er göptu upp í hann og hlógu að lélegu bröndurunum. Utan við þann hóp stóðu fjórir menn, að mínu mati einna bestu starfsmenn fyrirtækisins. Bráðduglegir og verklagnir en gáfu sér sjaldan tíma til að hlusta á frægðarsögur Villa af sjálfum sér. Ég komst líka fljótt að því að Villi gerði aldrei mistök. Ef honum brást bogalistin var hann fljótur að kenna öðrum um. Ég varð fyrir þessu og í raun allir í kringum mig. Eigandi fyrirtækisins kom lítið nálægt rekstri þess og ég efast um að hann hafi nokkurn tíma vitað fullkomlega hvernig því var stjórnað, þó veit ég að nokkrir menn höfðu kvartað undan Villa og áður en ég byrjaði hafði teymi rannsakenda verið kallað til og kannað ásakanir um einelti. Skýrsla þess lá ekki á lausu og enginn vissi hver niðurstaðan hafði orðið.

Þegar ég hafði unnið þarna í átta mánuði var ákveðið að fara út að borða saman, hressa upp á móralinn, eins og Villi sagði. Ég fór auðvitað með. Þegar líða tók á kvöldið fluttu menn sig milli staða, sumir fóru heim en aðrir eitthvert annað. Undir miðnætti sátum við fjórir saman á krá niðri í bæ þegar einn vék sér að mér og sagði brosandi: „Nú er Villi búinn að taka af sér hringinn.“ Ég leit upp og sá að Villi stóð við barinn og var að spjalla við unga konu. „Jæja,“ sagði ég, „er hann gjarn á þetta.?“ Vinnufélaginn skellihló og hóf að segja mér ótal sögur af framhjáhaldi Villa.

Hann hafði gaman af að boða til vinnustaðapartía sem öll voru honum vettvangur og tækifæri til að halda fram hjá. Af og til þurftu menn líka að fara utan á ráðstefnur og fleira og þá var Villi í essinu sínu. Ég heyrði utan af mér að hann hefði átt í langtímasambandi við konu í Kaupmannahöfn og tekið með sér viðhöld í utanlandsferðir. Genginu fannst auðvitað ekkert athugavert við þetta en tveir vinnufélagar mínir er stóðu utan þess sögðu mér að þeim liði oft rosalega illa þegar konan hans Villa væri að spyrja eftir honum og þeir vissu að hann væri á einhverju kvennafari.

Stúlkan sem ég var skotinn í

- Auglýsing -

Ég verð að segja að ekki jókst álit mitt á Villa við þessar fréttir. Nokkru síðar kom að árshátíð fyrirtækisins og þá voru makar með. Mér brá ekki lítið þegar ég sá konuna hans Villa. Þetta var gömul skólasystir mín, ein fallegasta og indælasta stúlka sem ég hef kynnst. Í mörg ár var ég skotinn í henni en var rosalega feiminn unglingur og þorði því ekkert að segja. Það var virkilega gaman að hitta hana þetta kvöld og við spjölluðum mikið saman. Hún var ekkert síður glæsileg fullorðin kona en unglingsstúlka og ég skildi ekkert af hverju Villi fann hjá sér þörf til að halda stöðugt fram hjá henni. Hann var hins vegar greinilega mjög afbrýðisamur eiginmaður og var augljóslega ekki vel við samtöl okkar og hversu vel fór á með okkur.

Árshátíðin var haldin á hóteli úti á landi og þetta kvöld drakk Villi ótæpilega. Undir miðnætti hjálpuðum, ég og einn annar úr hópnum, konunni hans að koma honum í rúmið. Ég stakk upp á að hún kæmi niður héldi áfram að skemmta sér með okkur. Hún neitaði því og kannski var það eins gott því ég veit ekki hvað ég hefði gert ef hún hefði samþykkt það. Á þessum tímapunkti var ég búinn að fá yfir mig nóg af Villa og fannst hegðun hans ekki gefa tilefni til að ég virti hann á nokkurn hátt.

„Sjálfur tók hann ekki beinlínis þátt í þessu en sat hjá og hló þegar nýja manninum varð fótaskortur á einhvern hátt.“

Eftir þetta gengu dagarnir sinn vanagang og ég hélt áfram að mæta í vinnuna og reyna að leiða yfirmanninn hjá mér eins og hægt var. Villi var hins vegar samur við sig og hélt áfram að níðast á sumum en hampa öðrum. Svo kom nýr starfsmaður. Sá var ósköp einföld sál, elskulegur og hörkuduglegur í vinnu en átti mjög erfitt með að skilja kaldhæðni og auðvelt var að flækja hann þannig í samræðum að hann léti eitthvað heimskulegt út úr sér. Þetta varð fljótlega helsta skemmtun gengisins hans Villa. Sjálfur tók hann ekki beinlínis þátt í þessu en sat hjá og hló þegar nýja manninum varð fótaskortur á einhvern hátt. Eitt sinn mætti nýliðinn í vinnuna á skínandi nýju mótorhjóli og allir hópuðust út og dáðust að gripnum. Daginn eftir kom hann hins vegar gangandi og þegar gengið var á hann kom í ljós að hann hafði keyrt upp á gangstéttarkant á heimleiðinni úr vinnunni, steypst um koll og hjólið skemmst mikið. Næstu mánuði varð þetta slys aðalumræðuefnið á kaffistofunni. Villagengið fann alltaf nýja og nýja hlið á brandaranum sem óhappið varð í þeirra meðförum.

- Auglýsing -

Fékk nóg og sagði upp

Þegar þarna var komið sögu var ég búinn að fá nóg. Ég sagði upp vinnunni og fékk fljótlega stöðu hjá fyrirtæki í sama geira. Þar komst ég að því að Villi var þekktur í bransanum og ekki af góðu. Sjálfsánægja hans og ofurtrú á sjálfum sér var þekkt sem og hæfileiki hans til að koma ávallt sök yfir á aðra þegar miður fór hjá honum. Ég var mjög feginn að komast að þessu því það sýndi mér svart á hvítu að ég hafði ekki dæmt Villa að ósekju. Lífið hélt áfram og ég leiddi sjaldan hugann að gamla vinnustaðnum mínum. Ég hafði hins vegar sent gömlu skólasystur minni vinabeiðni á Facebook og hún samþykkt. Ég sá því af og til myndir af henni og Villa, börnunum þeirra og stundum gömlu vinnufélögunum.

Fyrir tveimur mánuðum setti hún hins vegar status á síðuna sína og sagði að nú væri þau Villi skilin. Ég fann að það gladdi mig ósegjanlega en samt kunni ég ekki við að setja mig í samband við hana alveg strax. Ég beið því í þrjár vikur en sendi henni svo skilaboð. Við höfum verið að spjalla saman síðan og hist nokkrum sinnum í kaffi. Ekkert meira hefur gerst enn vegna þess að skólasystir mín er í sárum eftir skilnaðinn. Hún komst að framhjáhaldi Villa, raunar bara einu tilviki og ég hef ekki enn sagt henni að ég viti að þau hafi verið fleiri. Ég veit ekki hvernig ég á að koma orðum að því og efast stundum um að það sé mitt hlutverk. Villi er á hinn bóginn alls ekki sáttur við samband okkar og sendir mér reglulega hótanir í SMS eða á Netinu. Mér er alveg sama, hann má gapa eins og hann vill. Ég hef aðeins einu sinni svarað honum og sagði þá: „Þú áttir aldrei skilið að vera í sambúð með svona frábærri konu.“

„Hún komst að framhjáhaldi Villa, raunar bara einu tilviki og ég hef ekki enn sagt henni að ég viti að þau hafi verið fleiri.“

Vinkona mín er enn í sárum og á erfitt með að treysta. Börn hennar og Villa eru líka mjög reið út í pabba sinn og það hefur gengið á ýmsu vegna þess. Eldri börnin neita að hitta hann en hann hefur, í samræmi við kúgunareðli sitt, reynt að neyða þau til þess. Elsta barnið er sautján ára og hann getur því ekkert gert hvað það varðar en hin tvö eru yngri og Villi hefur hótað öllu illu komi þau ekki til hans aðra hverja helgi. Hann notar þau einnig miskunnarlaust til að kvelja fyrrverandi eiginkonu sína með andstyggilegum símtölum, alls konar ásökunum og tuði undir því yfirskini að hann sé umhyggjusamur faðir sem vilji vera hluti af lífi barnanna sinna. Hún hefur sagt  mér að hún hefði verið mjög þakklát ef hann hefði sýnt þótt ekki væri nema brot af þessum áhuga þegar þau bjuggu saman.

Ég veit að ég er ástfanginn af þessari konu og er tilbúinn að bíða þar til henni hentar að taka upp samband við mig. Hún veit það núna, því ég er ekki lengur feiminn unglingur og þorði þess vegna að segja henni það. Sjálfur á ég sömu reynslu að baki. Ég var í sambúð í sex ár með konu sem hélt fram hjá mér. Þegar upp komst um svikin vildi hún halda hjónabandinu áfram og fara í ráðgjöf. Við reyndum það en ég fann fljótt að ég gæti aldrei treyst henni aftur og þá var grundvöllur sambandsins í raun brostinn. Hún er ágæt manneskja en gerði mistök. Villi er aftur á móti lítils virði, að mínu mati, og ég vona sannarlega að þessi gamla skólasystir mín og vinkona sjái það sem allra fyrst.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -