Hvaða ráðstafanir þarf að gera þegar köttur er tekinn inn á heimilið?
Bólusetning
Við fæðingu eru kettlingar verndaðir gegn mörgum smitsjúkdómum með mótefnum, sem þeir fá í gegnum broddmjólk móðurinnar fyrstu klukkutímana eftir fæðingu. Mótefnin frá móðurinni lækka smám saman í blóði kettlingsins uns eigin mótefnamyndun hans tekur alfarið yfir. Við 8-12 vikna aldur hafa mótefnin lækkað það mikið að kominn er tími fyrir fyrstu bólusetningu. Til að örva mótefnamyndun kettlingsins eins mikið og hægt er skal endurtaka bólusetninguna 3-4 vikum síðar. Bólusett er við kattafári, kattainflúensu og klamidíu.
Örmerking
Í kattasamþykkt höfuðborgarinnar er ákvæði um að allir kettir skulu merktir með örmerki. Örmerki er örlítill kubbur sem er settur undir húð og virkar líkt og strikamerki. Örmerking er ávallt gerð af dýralæknum og best er að láta framkvæma hana um leið og gelding eða ófrjósemisaðgerð er gerð.
Ormahreinsun
Nauðsynlegt er að ormhreinsa ketti reglulega, helst tvisvar á ári, því ormar geta smitast í önnur gæludýr á heimilinu og jafnvel heimilisfólk. Kettlinga þarf skilyrðislaust að ormahreinsa jafnvel með styttra millibili en fullorðna ketti. Einnig er vert að benda á að mikla veiðiketti þarf að ormahreinsa með skemmra millibili heldur en ketti sem eru friðarsinnar eða innikisar. Best er að hafa samráð við dýralækni um skipulagningu ormahreinsunar fyrir köttinn þinn.
Ófrjósemisaðgerð
Þeir sem eiga læður þurfa að láta framkvæma slíka aðgerð á henni ef þeir vilja ekki að hún verði óvænt kettlingafull. Með nútímatækni og -deyfingaraðferðum við skurðaðgerðir eru ófrjósemisaðgerðir yfirleitt öruggar og án vandkvæða. Nokkrum dögum eftir aðgerðina eru flestir kettir farnir að hegða sér eins og ekkert hafi í skorist. Þó að það sé ekki jafnbrýnt þá er líka mælst til þess að gerðar séu ófrjósemisaðgerðir á fressum.
Texti / Hildur Friðriksdóttir