Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Nýtt ár, ný markmið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í upphafi árs langar marga að huga betur að heilsunni og kannski snerist áramótaheitið einmitt um það. Hvort sem markmiðið er að bæta líkamlegt form eða taka markviss skref í átt að hamingjuríkara lífi er gott að fara ekki of geyst af stað. Hugsaðu um lífsstílsbreytingu sem langferð og þá ertu líklegri til að ná markmiðum þínum. Það þarf heldur ekki mikið til, nokkrar smáar breytingar geta gert kraftaverk.

Mataræði

Ekki hætta að borða, það er með því versta sem þú getur gert líkama þínum. Borðaðu helst oft á dag, t.d. fimm sinnum, hollan mat í hæfilega smáum skömmtum. Þannig helst brennslan virk.

Grænt te er sagt stuðla að betri heilsu á margan hátt, hvort sem það er tekið í hylkja- eða drykkjarformi. Talið er að það geti dregið úr líkum á krabbameini, hjartaáföllum, heilablóðföllum, tannholdssjúkdómum og tannskemmdum auk þess að gefa mikla orku, vera vatnslosandi og hjálpa til við hreinsun líkamans.

Borðaðu minna af sælgæti, gosi, kökum o.s.frv. Þú þarft ekkert að hætta því en settu þér reglur. Nammidagar, eins og börnin eru með, er ágæt hugmynd. Ef þú „svindlar“ munu himinn og jörð samt ekki farast, þú heldur bara áfram á beinu brautinni eins og ekkert hafi í skorist.

Ekki borða seint á kvöldin.

- Auglýsing -

Ekki hunsa að borða ávexti og grænmeti. Þeir eru hollir og næringarríkir og innihalda fáar hitaeiningar.

Gefðu líkama þínum nóg af vatni og drekktu u.þ.b. tvo lítra af því á dag. Vatn hreinsar líkamann og hjálpar til við flutning nauðsynlegra efna um hann auk þess að vera frískandi og slá á hungurtilfinningu.

Þegar þú kemur svangur/svöng heim skaltu fá þér ávöxt, grænmeti, harðfisk eða hnetur frekar en að æða beint í snakkið eða kexið. Þetta eru líka tilvaldir bitar á milli mála ef svengd lætur á sér kræla.

- Auglýsing -

Ekki fá þér bara brauðsneið og ávaxtasafa í hádeginu. Kolvetni veita skammvinna orku en prótín endist betur yfir daginn.

Ef þú ákveður að borða óhollustu … njóttu þess þá!

Hreyfing

Finndu þér skemmtilega hreyfingu og ekki hræðast að prófa þig áfram. Þú þarft ekki að vera best(ur) til að geta fundist eitthvað skemmtilegt og það er aldrei of seint að byrja á einhverju nýju. Enginn getur allt en allir geta eitthvað.

Ef þér hentar ekki að fara í líkamsræktarstöð má gera ýmislegt annað. Nýttu litlu tækifærin daglega til að hreyfa þig og stundaðu göngur, sund eða hjólreiðar. Þú getur líka fengið þér æfingamyndband eða hlustað á morgunleikfimina í útvarpinu og æft heima í stofu.

Drekktu vatn á meðan á æfingu stendur, þó ekki meira en líkaminn biður um, þ.e. ekki sturta því í þig. Vatn dregur úr hættu á vöðvakrampa og sinadrætti. Ekki hafa vatnið endilega ískalt.

Gott er:

… að vakna og fara að sofa á svipuðum tíma alla daga. Þannig helst líkamsklukkan í jafnvægi.

… að vera dugleg(ur) að segja jákvæða hluti við sjálfa(n) sig; þeir síast inn og skila auknu sjálfstrausti og vellíðan.

… að ná um átta klukkustunda svefni allar nætur. Sumir þurfa reyndar minna og aðrir meira; finndu þinn tíma og reyndu að halda þig við hann.

… að skrifa heilsudagbók. Skráðu hjá þér raunhæf markmið og fylgstu með líðan þinni eftir því hvað þú borðar, hvernig þú sefur og hvernig þú hreyfir þig. Þannig lærir þú á líkamann og veitir þér visst aðhald. Sniðugt er líka að skrifa niður áætluð verðlaun þegar vissu takmarki er náð.

… að hafa markmiðasetningu þrepaskipta. Ekki ákveða að missa 20 kíló eða lækka fituprósentuna um tíu prósent … settu fleiri og smærri markmið, þannig verður mun auðveldara að ná þeim og hægt er að gleðjast yfir hverjum áfanga.

… að gefa sér tíma, helst daglega, til að slaka á. Það þarf ekki að vera merkilegra en að lesa nokkrar blaðsíður í góðri bók, fara í bað í ró og næði eða í stuttan göngutúr. Gefðu þér tíma til að anda og hugsa.

… að sinna félagslegu tengslunum vel. Ræktaðu vináttuna og fjölskyldutengslin.

… fyrir marga að hafa æfingafélaga í ræktinni. Það veitir stuðning og aðhald og minnkar líkur á að gefist sé upp. Svo er félagsskapurinn auðvitað skemmtilegur.

… að taka sig ekki of alvarlega og hlæja oft og mikið!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -