Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Opnar dyr inn í heim myrkraverka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margrét Björnsdóttir fjallar um íslenska glæpi og ýmis dularfull mál í hlaðvarpinu Icelandic True Crimes.

Margrét Björnsdóttir.

„Þótt ég hafi hvorki aðgang að lokuðum skjölum né öðrum heimildum sem íslensk upplýsingalög kveða á um aðgangstakmarkanir þá hef ég uppgötvað ýmislegt áhugavert,“ segir Margrét leyndardómsfull þegar blaðamaður spyr hvort hún hafi komist að einhverju nýju við gerð þáttanna, Icelandic True Crimes.

Margrét segir að málin sem hún hefur fjallað um og mun fjalla um í þáttunum, sem eru þegar orðnir nokkrir talsins, séu byggð á opinberum heimildum, eins og fréttagreinum, skjalasöfnum, dómskjölum, sögulegu efni og öðrum tiltækum gögnum, sem eru aðgengilegar almenningi. Þótt hún hafi komist að ýmsu áhugaverðu séu samt sumar upplýsingar betur geymdar.

„Það er mikilvægt að vanda til verka þegar verið er að fjalla um sakamál, sérstaklega á litla Íslandi þar sem allir þekkja alla. Ég reyni því að fjalla um málin með virðingu fyrir þeim sem tengjast þeim og með skilningi fyrir aðstæðum þeirra,“ segir hún. „Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“

Erfitt að gera upp á milli mála

Spurð hvernig hún velji efni þáttanna segist Margrét oft eiga erfitt með að gera upp á milli mála því það séu svo ótrúlega mörg áhugaverð sakamál og dularfull mál sem hafa komið upp á Íslandi.

- Auglýsing -

„Mestu skiptir að til sé nóg af heimildum til að vinna úr fyrir fullan þátt þar sem ég fer ítarlega í hvert mál og byggi á opinberum heimildum, en sumu þarf ég að bókstaflega liggja yfir, rekja sporin og grafa mig niður í „kanínuholu“ í heimildum, eins og í kirkjubókum og á skjala- og bókasöfnum,“ útskýrir hún og bætir við að síðasta ár hafi farið í að safna upplýsingum um öll morðmál á Íslandi, fíkniefnamál, rán, dulsmál, blóðskammir og fleira í „einn risastóran gagnagrunn“.

„Það er mikilvægt að vanda til verka þegar verið er að fjalla um sakamál, sérstaklega á litla Íslandi þar sem allir þekkja alla.“

„Ég hef líka safnað að mér upplýsingum um söguleg atriði, byggingar og einstaklinga í gegnum Íslandssöguna sem hafa spilað veigamikinn þátt í mörgum málanna, líkt og Stóridómur gerði.“

Mögulega eina „tvítyngda“ hlaðvarpið í heiminum

- Auglýsing -

Margrét tekur fram að það séu þegar til nokkur íslensk hlaðvörp sem fjalla um glæpi. „En þau taka nær eingöngu erlend mál fyrir og þess vegna fékk ég þá hugmynd fyrir ári síðan að taka eingöngu fyrir íslensk sakamál á bæði íslensku og ensku til að gera þau aðgengileg erlendum aðdáendum sannra sakamála. Hvert mál kemur því út í aðskildum þáttum á bæði íslensku og ensku. Ég er ekki frá því að ég sé með eina „tvítyngda“ hlaðvarpið í heiminum í dag.“

Gæði umfram magn

Upphaflega stóð til að Icelandic True Crimes yrðu vikulegir þættir en Margrét segir að þar sem hún sjái um alla vinnuna sjálf hafi reynst erfitt að halda því við. „Ég vil skila frá mér vönduðum þáttum með áreiðanlegum heimildum sem ég hef borið saman við aðrar heimildir frekar en að senda frá mér þætti byggða á einhverjum heimildum sem reynast svo ekki réttar.“

Spurð hvar hægt sé að nálgast Icelandic True Crimes segir Margrét að þættirnir komi út á öllum hlaðvarpsveitum eins og Apple Podcasts og Spotify, en einnig sé hægt að streyma þeim beint af vefsíðu hlaðvarpsins, www.icelandictruecrimes.com.

„Allt aukaefni þeirra mála sem ég tek fyrir, eins og ljósmyndir, hlekki og annað, set ég inn á vefsíðuna úr þeim heimildum sem ég vinn með. Svo er hlaðvarpið á Instagram og Facebook, þar sem einnig er umræðuhópur hlustenda.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -