„Okkur fannst kominn tími á rödd hins almenna lesanda,“ segir Bryndís Loftsdóttir, starfsmaður Félags íslenskra bókaútgefenda en félagið hefur auglýst eftir fólki til að sitja í dómnefndum Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Opnað var fyrir skráningar á Facebook-síðu félagsins í vikunni og viðbrögðin hafa, að sögn Bryndísar, verið mikil.
Launin fyrir nefndarsetuna nema 125.000 krónum en að auki fær nefndarfólk að eiga bækurnar sem það les. „Þetta eru ekki há laun en ég held að mesti ávinningurinn sé sá fróðleikur og þekking sem fólk aflar sér,“ segir Bryndís í samtali við Fréttablaðið.
Hún segir jafnframt að allt stefni í geysigóð viðbrögð almennra lesenda við auglýsingunni og það geti orðið erfitt að velja úr hópi umsækjenda til að skipa í nefndirnar. „Það stefnir í að það verði mun meiri hausverkur að velja einstaklinga í dómnefndir heldur en að velja hvaða bækur og höfundar hljóta verðlaunin,“ segir Bryndís.
Félag íslenskra bókaútgefenda veitir Íslensku bókmenntaverðlaunin í janúar ár hvert. Verðlaun eru veitt í flokki fagurbókmennta, flokki fræðibóka og flokki barna- og unglingabóka. Þrjár þriggja manna tilnefningarnefndir eru skipaðar af Félagi íslenskra bókaútgefenda, þær velja fimm bækur í hverjum flokki sem helst þykja skara fram úr. Formenn nefndanna þriggja mynda þá dómnefnd ásamt forsetaskipuðum nefndarformanni og velur sú nefnd eina bók í hverjum flokki sem hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin.