Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Óvæntir endurfundir  

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég kynntist Sigrúnu þegar ég var 17 ára. Við vorum jafnöldrur, en ástæðan fyrir því að við kynntumst var sú að hún fór að vera með yngri bróður mínum. Sigrún varð strax góð vinkona mín og við urðum mjög nánar.

Við áttum mörg sameiginleg áhugamál, eitt af þeim var söngurinn. Við sungum báðar í kór á þessum tíma og seinna meir sungum við í sama kórnum. Okkur þótti mjög vænt hvor um aðra og við vörðum öllum stundum saman nema þegar hún var ein með bróður mínum. Oft fór ég þó með þeim í bíó þar sem við vorum öll með bíódellu og tvisvar ferðuðumst við þrjú saman innanlands.

„Í fyrstu skrifuðumst við mikið á, en eftir að ég gifti mig og varð ólétt og hún fór að vera með dönskum manni fækkaði bréfunum.“

Samband þeirra entist ekki lengi, þau hættu að vera saman þegar við vinkonurnar vorum nítján ára, eða eftir tæp tvö ár. Þrátt fyrir það héldum við Sigrún okkar vináttu, hún minnkaði ekkert þó að Sigrún hætti fyrst um sinn að koma jafnmikið heim til okkar og áður var. Vinátta okkar dýpkaði frekar en hitt, því eftir þetta fór Sigrún að tala meira um sjálfa sig við mig.

Þegar við vorum tvítugar kynntist ég tilvonandi eiginmanni mínum og skömmu síðar ákvað Sigrún að fara í nám til Kaupmannahafnar einn vetur þannig að samband okkar minnkaði töluvert. Í fyrstu skrifuðumst við mikið á, en eftir að ég gifti mig og varð ólétt og hún fór að vera með dönskum manni fækkaði bréfunum. Sigrún heimsótti mig sumarið sem elsta barnið mitt var á fyrsta ári, en veturinn eftir flutti Sigrún til Parísar í eitt ár og eftir það má heita að ég hafi ekki heyrt af henni. Ég vissi að vísu að hún giftist Dananum og þau fluttu til Jótlands, en þar með var líka öll sagan sögð. Oft hefur mér verið hugsað til Sigrúnar öll þessi ár síðan hún flutti til Danmerkur og minningarnar sem ég átti um hana og vináttu okkar hafa oft yljað mér. Það hafði hvarflað að mér oftar en einu sinni að reyna að hafa uppi á henni, en einhvern veginn varð aldrei neitt úr því.

Út í bláinn

- Auglýsing -

En það fór samt svo að ég hitti Sigrúnu aftur en þá var næstum 21 ár liðið síðan við sáumst síðast. Það var vægast sagt undarleg tilviljun sem réði því.

Við hjónin ferðuðumst ekki mikið á fyrstu búskaparárum okkar. Okkur langaði svo sannarlega til þess, en við vorum auðvitað blönk og upptekin af barnauppeldi og höfðum hvorki tíma né peninga til ferðalaga. Eftir að börnin uxu úr grasi breyttist þetta og undanfarin sjö ár höfum við farið til útlanda á hverju ári. Fyrst fórum við reglulega í einhvers konar hópferðir. Fyrir tveim árum ákváðum við svo að gera eitthvað „öðruvísi“ og í stað þess að fara í hefðbundnar sólarlandaferðir langaði okkur að fara ein út í bláinn, fá okkur bílaleigubíl og ferðast frjáls. Við flugum til London og tókum bíl á leigu þar og ókum í suður. Við gistum oftast á einkaheimilum í svokallaðri „Bed and Breakfast“-gistingu og líkaði það einstaklega vel. Bretarnir eru svo elskulegir heim að sækja og okkur fannst næstum eins og við værum fósturbörn heimamanna á flestum stöðunum. Við ókum gegnum litla, vinalega bæi, versluðum í „kaupfélögunum“ þeirra, fórum á pöbbana og veifuðum til gömlu kvennanna sem hjóluðu um með hundana sína í bastkörfum. Þetta var yndislegt.

Einn af þeim bæjum sem við nánast villtumst inn í heitir Rye og er gamall, sérstaklega rómantískur og fallegur. Þar fundum við fallegt, lítið hús með skilti í glugga þar sem boðið var upp á gistingu. Á móti okkur tók afskaplega smágerð, gömul kona sem umvafði okkur hlýju og bauð okkur te úti í rósagarðinum sínum. Hún sagði að okkur væri velkomið að setjast þar hvenær sem okkur lysti. Okkur líkaði svo vel í húsinu hjá ekkjunni, frú Jenkins, að við ákváðum að vera þar í þrjá daga til að ná úr okkur vegaþreytunni í rólegheitunum áður en við snerum til baka til London. Við sáum ekki eftir þeirri ákvörðun því það fór einstaklega vel um okkur, við gengum um bæinn og létum eins og við værum heima hjá okkur – og þar hitti ég Sigrúnu!

- Auglýsing -

Magnaður morgunverður

Þriðja og síðasta morguninn okkar hjá frú Jenkins fórum við snemma fram í morgunverðinn í sólstofunni. Þar voru þrjú kringlótt borð fyrir gestina og við settumst alltaf við borðið sem sneri út í garðinn. Við vorum rétt að fá okkur sæti með kaffibollana okkar og heimabökuðu bollurnar þegar önnur hjón komu inn í stofuna. Mér varð litið á þau og konan vakti strax athygli mína, mér fannst ég hafa séð hana áður!

Ég settist hjá manninum mínum og sneri vinstri hliðinni að fólkinu sem var að fá sér á diskana. Eins og sönnum Íslendingi fannst mér auðvitað allt í lagi að tala frjálslega við manninn minn, maður heldur jú alltaf að enginn skilji mann. Ég sagði honum skýrt og skilmerkilega að mér hefði ég fundist þekkja þetta fólk; ég hefði örugglega séð þessa konu áður. Í því leit konan upp og þá þekkti ég Sigrúnu. Við gripum báðar andann á lofti og hún fleygði frá sér diskinum og hljóp til mín. Við féllumst í faðma og hvorug trúði eigin augum. Sigrún hafði litið á okkur þegar hún heyrði íslenskuna og þekkti mig eins og skot. Þarna urðu miklir fagnaðarfundir og aumingja karlarnir okkar urðu hálfvandræðalegir. Sigrún og maður hennar settust hjá okkur og það var lítill morgunmatur sem fór ofan í okkur stöllurnar. Við töluðum og töluðum á íslensku, auðvitað um sjálfar okkur og á endanum fóru þeir eiginmenn okkar að tala saman á ensku því maðurinn minn talar ekki dönsku og hennar ekki íslensku.

„Eins og sönnum Íslendingi fannst mér auðvitað allt í lagi að tala frjálslega við manninn minn, maður heldur jú alltaf að enginn skilji mann. Ég sagði honum skýrt og skilmerkilega að mér hefði ég fundist þekkja þetta fólk; ég hefði örugglega séð þessa konu áður.“

Þetta var vægast sagt sérkennilegt borðhald. Frú Jenkins varð auðvitað vör við að eitthvað merkilegt var á seyði og þegar hún fékk alla sólarsöguna varð hún svo kát að hún krafðist þess að við yrðum einn dag í viðbót í hennar boði en Sigrún og hennar maður áttu pantað fram á næsta dag. Við þáðum boðið og þennan dag notuðum við til að fara í lautarferð út fyrir bæinn með nesti sem frú Jenkins útbjó handa okkur.

Þetta er einhver eftirminnilegasti dagur sem ég hef lifað. Við töluðum ensku þennan dag og svo skemmtilega vildi til að mennirnir okkar höfðu mjög gaman af þessu líka og við vorum öll mjög hamingjusöm og glöð eftir þessa ferð. Við Sigrún ákváðum að nú skyldum við ekki missa hvor af annarri aftur. Við fundum strax að vinátta okkar var enn til staðar, það var rétt eins og við hefðum hist síðast í gær. Við sungum báðar enn í kór – hún á dönsku! og við vorum báðar enn með bíó- og ferðadellu. Við gátum strax talað saman og við höfðum svo margt að segja hvor annarri að einn dagur nægði engan veginn. Við skiptumst á heimilisföngum og Sigrún gaf mér netfangið sitt ef ég gæti hugsanlega notað það seinna. Við hjónin áttum að vísu heimilistölvu þegar þetta var, en við höfðum ekki haft aðgang að pósti fram að þessu. Eitt af því fyrsta sem við komum í framkvæmd eftir að við komum heim úr þessari ferð var að fá okkur netfang.

Þessi ágæti dagur leið allt of hratt og við Sigrún hétum því að hittast oft eftir þetta. Við gáfum hvor annarri loforð um að heimsækja hvor aðra sem fyrst og skrifast á.

Við höfum staðið við þetta því við Sigrún erum mikið í sambandi á tölvunni og í sumar koma þau hjónin til Íslands. Auðvitað eru þau ekki bara að koma til að heimsækja okkur, en í þetta skipti munu þau gista á heimili mínu. Ég hlakka mikið til að fá þau hingað, og bróður mínum sem nú er giftur og tveggja barna faðir finnst þetta líka skemmtilegt.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -