Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Faðir Katrínar Leu var skotinn til bana

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Katrín Lea Elenudóttir hlaut nýverið titilinn Miss Universe Iceland en keppnin var haldin fyrr í mánuðinum.

Tíu ár eru síðan Katrín Lea fluttist hingað til lands en hún fæddist í Síberíu. Hún segir úrslitin síður en svo hafa komið sér á óvart en hún hafi stefnt að þátttöku síðastliðin tvö ár og loks öðlast þátttökurétt í ár en hún er yngsti keppandinn sem borið hefur sigur úr bítum.

Eftir flutningana frá Rússlandi tóku við miklar áskoranir þar sem Katrín Lea talaði enga íslensku og litla ensku. Hún hélt þó fast í móðurmálið og mætti í tungumálatíma hvern laugardag þar sem innflytjendabörn bæði frá Rússlandi og Lettlandi hittust og báru saman bækur sínar. „Þetta reyndist mér mjög erfitt því í Rússlandi átti ég marga vini en hér á Íslandi vildi enginn vera með mér en ég vildi bara fylgja mömmu minni hingað til lands.“

„Mér leið á köflum eins og ég væri eitthvað fötluð því börnin höguðu sér stundum þannig, eins og það væri eitthvað að mér af því ég kunni ekki tungumálið.“

„Þau vildu ekki tala við mig og um tíma þurfti ég að byggja öll samskipti á handahreyfingum. Ég vissi samt strax að hér væri betra líf þrátt fyrir að enginn hafi beinlínis sagt mér það. Einhvern veginn fékk ég það á tilfinninguna.“

Þremur árum eftir komuna til Íslands sáu Katrín Lea og móðir hennar fréttir í rússneska sjónvarpinu þar sem greint var frá andláti föður hennar. Hann hafði verið skotinn til bana.

„Ég þekkti pabba minn aldrei neitt en mamma sagði skilið við hann fljótlega eftir að ég kom í heiminn. Hann reyndi aldrei að hafa samband en hann var um tíma tengdur inn í rússnesku mafíuna sem við teljum að sé ástæða þess að honum var síðar ráðinn bani.“

„Fjölskylda hans hafði aldrei neitt samband við mig heldur en það voru miklir átakatímar í Rússlandi á þessum tímum, eftir fall Sovétríkjanna.”

Ástæða þess að Katrín ákvað að taka þátt er vegna þess að hún vissi hversu stór vettvangur fegurðarsamkeppni gæti verið fyrir stelpur til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri.

„Mig langar að stofna samtök hér á landi fyrir innflytjendabörn og hjálpa þeim enda stendur málefnið mér nærri.“

- Auglýsing -

„Ég myndi jafnframt vilja að íslensk börn gætu tekið þátt því aðstoð þeirra er svo mikilvæg í tungumálakunnáttunni. Sjálf eyddi ég óteljandi laugardögum í einkakennslu til þess að viðhalda rússneskunni minni enda tala ættingjar mínir í Síberíu bara rússnesku. Ég hefði aldrei viljað gleyma rússneskunni en þrír klukkutímar í viku utan skólatíma er langur tími fyrir barn. Ég myndi vilja sjá þeim tíma eytt innan hefðbundinnar skólakennslu.

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Hallur Karlsson.
Förðun / Sara Dögg Johansen.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -