Fimmtudagur 23. janúar, 2025
-0 C
Reykjavik

Pabbi vill ekkert með mig hafa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég átti hamingjusama æsku þótt ég hafi aldrei kynnst blóðföður mínum. Pabbi minn kom inn í líf okkar mömmu þegar ég var smábarn og hann ættleiddi mig. Ég vissi ætíð vel að við værum ekki blóðskyldir en velti því aldrei fyrir mér fyrr en ég átti sjálfur von á barni Þá reyndi ég að hafa samband við föður minn en fékk þannig viðbrögð að ég gerði mér ljóst að ég væri betur kominn án þess manns í lífi mínu.

Mamma varð ófrísk að mér eftir einnar nætur ævintýri með manni sem var gestkomandi í heimabæ hennar. Þegar hún uppgötvaði að ég var á leiðinni hafði hún samband við hann og lét hann vita. Blóðfaðir minn brást mjög illa við og tilkynnti mömmu að hann vildi að hún færi í fóstureyðingu. Hann sagðist ekki kæra sig um barn og alls ekki með henni einhverri stelpuskjátu sem hann vildi ekkert með hafa. Mamma svaraði strax að hún hefði engan áhuga á honum heldur en fóstureyðing kæmi ekki til greina en hann réði hvort hann hefði samband eða ekki. Allt þetta sagði mamma mér löngu seinna. Allan minn uppvöxt ólst ég upp við að blóðfaðir minn byggi langt í burtu og velti mér í sjálfu sér aldrei neitt upp úr því.

Ég man lítið eftir þeim tíma þegar mamma kynntist pabba. Hún sagði mér að ég hafi strax tekið honum vel og gott samband myndast milli okkar. Þegar hún var ófrísk af eldri systur minni spurði hann hana hvort hann mætti ættleiða mig þannig að börnin þeirra hefðu öll sama föðurnafn. Mamma samþykkti það strax og fyrir kurteisisakir lét hún blóðföður minn vita. Hún þurfti þess ekki því á þessum tíma var lögunum þannig háttað að mæður barna sem fæddust utan sambúðar eða hjónabands réðu alfarið slíku og þurftu ekki að ráðgast við feðurna. Hún fékk engin viðbrögð frá honum og ég fékk annað föðurnafn.

„Mikið er strákurinn líkur þér“

Við fluttum til Reykjavíkur skömmu seinna og ég ólst upp í einu úthverfa borgarinnar. Í dag finnst mér svolítið kaldhæðnislegt að blóðfaðir minn bjó í sama hverfi í göngufjarlægð frá okkur. Það getur því vel verið að ég hafi einhvern tíma séð hann á götu án þess að hafa hugmynd um hver hann var.

„Ég er sonur Guðrúnar Jónsdóttur og ég held að þú sért blóðfaðir minn.“ Það varð örstutt þögn síðan sagði hann: „Ég hef ekkert við þig að tala.“

- Auglýsing -

Ég hafði mjög gaman af íþróttum og stundaði þær af kappi þegar ég var barn. Pabbi var ánægður með það, enda íþróttamaður sjálfur og kom á alla kappleiki hjá mér og fylgdist vel með öllu því sem ég var að gera. Oft hafði fólk þá orð á því hve líkir við feðgar værum. Eitt sinn hitti pabbi gamlan félaga sinn úr fótboltanum en sá átti dreng liðinu sem keppti á móti mér. Við unnum leikinn og ég var í óvenjulega góðu stuði í það sinn og hafði skorað sex mörk. Maðurinn gekk til pabba þar sem við stóðum fyrir utan bílinn á bílastæðinu eftir leikinn og sagði: „Mikið er strákurinn líkur þér. Þið eruð bara alveg eins.“ Pabbi brást glaður við og sagði að ég hefði lipurðina með boltann frá honum. Síðan bætti hann við glaður og hreykinn: „Já, hann er mannsefni hann sonur minn.“

Á þessum árum fannst mér þetta sjálfsagt og leiddi aldrei hugann að því hversu óvenjulegur og góður maður hann var. Síðan hef ég heyrt frá fólki sem ég hef kynnst sögur af því hvernig nýir makar foreldra þeirra hafi ekki getað sætt sig við þau og mismunað þeim og sínum eigin börnum. Ég fann aldrei fyrir slíku, eiginlega þvert á móti. Ég á nefnilega tvær systur og kannski þess vegna eðlilegt að við pabbi næðum saman um alls konar áhugamál. Hann fór með mig á veiðar, við gengum saman á fjöll og vorum á kafi í boltanum.

Meyr eftir fæðingu fyrsta barnsins

- Auglýsing -

Pabbi minn er iðnaðarmaður og rekur fyrirtæki í þeirri grein. Ég fetaði í fótspor hans og aldrei kom annað til greina en að ég færi að vinna hjá honum eftir að námi lauk. Í gegnum starfið kynntist ég svo konunni minni. Við giftum okkur eftir rétt rúmlega árs samband og þá var Sigga mín komin fjóra mánuði á leið. Líklega væri leitun að hamingjusamari hjónum en okkur tveimur og þótt við værum ung vorum við virkilega spennt að verða foreldrar. Meðganga var hins vegar mikil rússibanareið því Sigga varð mikið veik á seinni hlutanum og um tíma tvísýnt um líf barnsins. Þegar ég hélt á syni mínum í fyrsta sinn var ég því meyr og klökkur, óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að halda þeim báðum. Í því tilfinningaumróti vaknaði með mér í fyrsta sinn einhver löngun til að kynnast og sjá þann mann sem hafði getið mig.

Ég fór þess vegna til mömmu og spurði hana nánar út í hann. Hún gaf mér strax nafnið hans en lét í ljós efasemdir um hversu heppilegt væri að setja sig í samband við hann. Ég var hálfhissa, enda hafði mamma aldrei talað um hann við mig. Hún vildi samt ekki segja meira en sagðist vilja heyra í mér þegar ég væri búinn að tala við hann. Ég fletti blóðföður mínum upp í símaskránni og hringdi strax sama kvöld. Faðir minn svaraði sjálfur í símann og ég kynnti kurteislega og sagði svo: „Ég er sonur Guðrúnar Jónsdóttur og ég held að þú sért blóðfaðir minn.“ Það varð örstutt þögn síðan sagði hann: „Ég hef ekkert við þig að tala.“ Og áður en ég hafði almennilega áttað heyrði ég sóninn í símanum. Faðir minn, þessi prýðismaður, hafði skellt á.

„Ég hef að minnsta kosti aldrei heyrt neinn segja um einhvern mann: „Já, hann, algjörlega ómögulegur faðir. Ég myndi ekki treysta honum hætishót.“ Hins vegar heyri ég oft sagt: „Hann er nú stórskuldugur og borgar aldrei krónu. Passaðu þig á honum.“

Ég sat höggdofa eftir, eiginlega meira undrandi en sár, sársaukinn koma síðar. Ég hringdi hins vegar strax í mömmu og sagði hennni hvað hefði gerst. Hún og pabbi komu strax til mín og það var þá sem hún sagði mér upp alla sögu af kynnum hennar af föður mínum og viðbrögðum hans við barninu sem hann gat en vildi siðan enga ábyrgð taka á. Mér leið hræðilega eftir þetta og Sigga hvatti mig til að fara til sálfræðings og ræða við hann um þetta. Ég gerði það sem hjálpaði mikið. Eitt af því sem hann sagði við mig sat í mér og ég hugsa oft til þess. „Við erum ekki börn foreldra okkar nema að því leyti sem við viljum vera það. Við þurfum ekki að endurtaka þeirra mistök eða samsama okkur þeirra göllum. Það er hægt að hefja sig yfir allt.“

Leggur metnað í að vera góður faðir

Ég tók þessi orð mjög alvarlega og hef lagt metnað í að vera sjálfur góður faðir. Ég á  nú orðið tvö börn og þegar ég horfi á þau að leik á gólfinu heima skil ég ekki þá menn sem geta hugsað sér að yfirgefa eða sjá aldrei börnin sín. Mér finnst þau forvitnilegir og dásamlegir einstaklingar og er hreykinn af því hversu efnileg og falleg þau eru. Ef ég vissi að ég ætti barn einhvers staðar annars staðar fyndi ég aldrei ró í mínum beinum nema að vita hvernig að því væri búið og hvort það hefði einhverja eðliseiginleika frá mér. Auk þess skil ég ekki karlmenn sem geta hugsað sér að sofa hjá konum en ekki takast á við hugsanlegar afleiðingar þeirrar ákvörðunar. Okkur þykir þeir menn fyrirlitlegir sem ekki standa við skuldbindingar sínar í fjármálum eða gagnvart vinnuveitanda en fáir velta því fyrir sér hvort menn standi sig gagnvart börnunum sínum. Ég hef að minnsta kosti aldrei heyrt neinn segja um einhvern mann: „Já, hann, algjörlega ómögulegur faðir. Ég myndi ekki treysta honum hætishót.“ Hins vegar heyri ég oft sagt: „Hann er nú stórskuldugur og borgar aldrei krónu. Passaðu þig á honum.“

En þótt ég tali á þennan hátt um menn sem ekki axla ábyrgð er ég ekki bitur eða reiður föður mínum. Ég  held að ég hafi verið mun betur kominn án hans og ég eignaðist besta pabba sem hægt var að hugsa sér. Nýlega kynntist ég hálfbróður mínum samfeðra sem frétti af mér í gegnum sameiginlegan kunningja okkar. Okkur kemur ágætlega saman og hann er orðinn hluti af lífi mínu. Sjálfur ólst hann ekki nema að litlu leyti upp hjá föður okkar því móðir hans skildi við hann þegar hann var rétt nýorðinn fimm ára.

Hann segir föður sinn stífan og erfiðan mann í umgengni. Enginn skilur þó hvers vegna hann tók svo afgerandi afstöðu gegn mér. Hann var ókvæntur þegar mamma varð ófrísk af mér svo ekki var það vegna þess að hann þyrfti að leyna tilvist minni. Bróðir minn segir að hann eigi það til að bíta eitthvað í sig og geta þá ekki látið af því með nokkru móti. Mér er alveg sama hver ástæðan er, veit að ég ber litla virðingu fyrir honum og er feginn að vita að ég líkist honum ekki á nokkurn hátt.

Lífreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -