Laugardagur 28. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Piers Morgan fær kaldar kveðjur frá Tonyu Harding

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skautadrottningin fyrrverandi Tonya Harding stendur uppi í hárinu á Piers Morgan.

Tonya Harding svaraði fyrir sig þegar Piers Morgan spjallaði við hana í þættinum Good Morning Britain. Kvikmynd um ævi Tonyu hefur farið sigurför um heiminn. Mynd / www.commons.wikipedia.org

Kvikmyndin I, Tonya, með Margot Robbie í hlutverk fyrrum ólympufara í listhlaupi á skautum, Tonyu Harding hefur farið sigurför um heiminn. Tonya var í viðtali gegnum gervihnött við Piers Morgan í Good Morning Britain þegar hann gaf í skyn að hún hefði ekki verið alsaklaust fórnarlamb þegar sá fáheyrði atburður átti sér stað að ofbeldismaður á launum hjá fyrrum eiginmanni Tonyu barði helsta keppinaut hennar í hnéð með hafnaboltakylfu. Skautadrottningin fyrrverandi svaraði hvasst fyrir sig.

Morgan gekk hart fram í spurningum sínum um árásina sem átti sér stað árið 1994. Báðar voru skautakonurnar á leið á ólympíuleika en Tonya hafði alla tíð mátt þola að fá lægri einkunnir fyrir frammistöðu sína á ísnum en Nancy. Í myndinni kemur fram að þetta hafi verið vegna þess að dómurum fannst Tonya ekki þess verð að vera fulltrúi Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Stúlkurnar voru báðar frá fátækum heimilum en fjölskylda Tonyu ansi skrautleg meðan meiri reglusemi og festa ríkti í kringum Nancy.

Morgan er þekktur fyrir að vera óvæginn og nokkuð dómharður um menn og málefni. Hann spurði hana ítrekað um meint ofbeldi móður hennar og fyrrum eiginmanns gagnvart henni og sagði svo: „Kannski hentar þér að leika fórnarlamb. En ég held að þú hafir ekki verið fórnarlambið í þessu öll. Það var Nancy Kerrigan en draumur hennar um ólympíugull var gerður að engu.“

„Þakka þér kærlega fyrir en ég held ég verði að segja góða nótt,“ var svar skautadrottningarinnar og hún átti bágt með að leyna reiði sinni.

Þeir sem hafa séð myndina geta líklega ekki annað en dáðst að stillingu hennar því á sinni tíð var hún þekkt fyrir flest annað en yfirvegun. Hún svaraði þó nokkrum spurningum í viðbót en viðtalinu lauk með því að hún fullyrti að hún hefði ekkert vitað um ráðagerðir fyrrum manns síns og félaga hans. Hún benti einnig á að þolendur ofbeldis hafa sjaldan kraft til að standa með sjálfum sér eða setja sig upp á móti kúgurum sínum. Þess má einnig geta að á Golden Globe verðlaunahátíðinni hampaði Allison Janney  gullnum hnetti fyrir túlkun sína á móður Tonyu Harding í myndinni.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -