Þórunn María leikmynda- og búningahöfundur lærði í Frakklandi og Belgíu á síðustu öld og hefur því starfað við iðn sína um langa hríð. Hún segist ekki tengjast fötum tilfinningalegum böndum en sterkar og sjálfstæðar konur veiti sér innblástur á hverjum degi.
Fyrr í sumar starfaði Þórunn María við Listhátíðarverkefnið R1918. Áður vann hún leikmynd og búninga fyrir sviðsverkið Ahhh … sem leikhópurinn RaTaTam sýndi í Tjarnarbíói ásamt búningahönnun fyrir sýningarnar Hafið og Föðurinn sem báðar voru settar upp í Þjóðleikhúsinu.
Þrátt fyrir að sinna ýmsum verkefnum og fá fjölbreytta útrás fyrir sköpunargáfuna lýsir Þórunn María sínum persónulega stíl sem einföldum en þó með örlitlu tvisti. „Ég er frekar praktísk og jarðtengd. Ég er ekki mikið fyrir mikla neyslu á textílvörum en ég hugsaði samt um daginn að nú þyrfti ég að fara að prjóna mér stóra og kósí ullarpeysu til að vefja mig inn í á íslenskum sumarkvöldum. Að mínu mati þurfa allar konur að eiga færri en vandaðri flíkur í fataskápnum sínum og vera óhræddar við að klæðast sömu flíkinni oftar en einu sinni. Sjálf tengist ég fötum ekki tilfinningalegum böndum og kaupi mest á nytjamörkuðum. Búðin í hverfinu mínu er Hertex sem dæmi. Búðin þar við hliðina er Space Concept, verslun Anitu Hirlekar og Magneu sem eru tveir íslenskir, frábærir fatahönnuðir. Nytjamarkaðir og hönnun finnst mér fín blanda.“
Aðspurð hvaða konur veiti sér innblástur svarar Þórunn María að þær séu þrjár. „Tilda Swinton, Rei Kawakubo og Björk en allt eru þetta sterkar og sjálfstæðar konur sem stefna ákveðið í sinni sköpun, hver á sínu sviði.“