Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Siðblind vinkona

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Við Jóna kynntumst á leikvellinum í hverfinu okkar þegar við vorum fimm ára. Við urðum samferða gegnum barnaskólann og héldum sambandi eftir að við fórum hvor í sinn framhaldsskólann. Fyrir nokkrum árum kaus ég þó að hætta öllum samskiptum við hana og þegar ég frétti nýlega að hún væri flækt í fíknefnaviðskipti varð ég ekkert hissa.

Jóna var kát og skemmtileg stelpa en ef hlutirnir gengu ekki fyrir sig eins og hún vildi varð allt vitlaust. Hún gafst aldrei upp og beitti þeim meðölum sem hún taldi árangursríkastar í það og það skiptið. Stundum fór hún í fýlu og talaði ekki við mig dögum saman. Í öðrum tilfellum varð hún öskureið og linnti ekki látum en fórnarlambshlutverkið var í miklu uppáhaldi. Ansi oft grét hún og bjó til einhverja sorgarsögu sem átti að skýra hvers vegna við ættum að gera það sem hún vildi. Ég gafst oftast upp.

Jóna var líka snillingur í að fá hina fullorðnu á sitt band. Ef hún lenti í deilum við önnur börn tókst henni alltaf snúa hlutunum þannig að hún kom best út þeim. Hún kvartaði undan einelti í skólanum, enda voru margar stelpnanna fljótar að gefast upp á henni og forðuðust hana. Í gang fór eineltistáætlun þar sem okkur var skipað í vinahópa og fyrir tilviljun lenti ég í öðrum hóp en Jóna. Það var í fyrsta skipti sem ég var frjáls til að eignast nýjar vinkonur en fram að því hafði hún einokað mig og komið í veg fyrir að ég gæti tengst öðrum.

Þetta var mikið gæfuspor fyrir mig því ég gat losað aðeins um böndin milli okkar Jónu. Hún hélt þó áfram að koma heim til mín, hringja og reyna að stjórna mér. En allt var breytt og þegar við fórum hvor í sinn framhaldsskólann hittumst við æ sjaldnar. Svo fjaraði samband okkar eiginlega alveg út um tíma eða þar til ég hitti Jónu fyrir tilviljun í verslun. Við komumst að því að við bjuggum rétt hjá hvor annarri. Við vorum báðar í fæðingarorlofi og það var því notalegt að hittast í kaffi hvor hjá annarri og fara saman út að ganga.

Alltaf með fullt veski af seðlum

- Auglýsing -

Jóna og maður hennar ráku fyrirtæki. Þau áttu einnig stórt og fallegt einbýlishús sem var velbúið húsgögnum og munum. Hún var einnig mjög vel klædd og virtist geta leyft sér allt sem hún vildi. Ég var því sannfærð um að fyrirtækið gengi vel og oft kom mér á óvart þegar við fórum eitthvað saman að Jóna var alltaf með fullt veski af peningum. Fæstir ganga með reiðufé núorðið en ég leiddi svo sem ekki hugann að þessu frekar.

„Þrátt fyrir öll flottheitin á heimilinu var Jóna síkvartandi. Maðurinn hennar var vondur við hana að hennar sögn.“

Þrátt fyrir öll flottheitin á heimilinu var Jóna síkvartandi. Maðurinn hennar var vondur við hana að hennar sögn. Hann sýndi hennar þörfum engan skilning og hafði gert henni ómögulegt að klára viðskiptafræðina í háskólanum. Hann tók engan þátt í heimilisstörfum en krafðist þess að hún ynni fullan vinnudag í fyrirtækinu. Hún var alltaf bundin yfir börnunum og fékk aldrei tækifæri til að sinna áhugamálum sínum.

Ég þekkti Jónu svo ég tók þessum sögum með hæfilegum fyrirvara. Hún var ávallt gjörn á að færa í stílinn og að auki virtist hún ekki átta sig á að ég mundi það sem hún hafði sagt mér áður. Þess vegna breyttust sögurnar hennar oft og hún varð tví- og þrísaga um ýmsa hluti. Þannig hafði Jóna alltaf verið. Hún sleppti alveg að segja frá sínum hlut í deilum og túlkaði þær ævinlega þannig að á hana hefði verið ráðist saklausa og hún beitt grófum órétti. Í einu orði talaði hún um hve órómantískur og kaldur maðurinn sinn væri en í því næsta sýndi hún mér glæsilegar gjafir sem hann hafði fært henni.

- Auglýsing -

Saman í saumaklúbb

Að fæðingarorlofinu mínu loknu fór ég að vinna aftur en Jóna var áfram heimavinnandi. Þetta dró mjög úr samveru okkar en þegar hún stakk upp á að við settum saman saumaklúbb með nokkrum stelpum sem höfðu verið með okkur í bekk í gamla daga var ég alveg til. Í fyrsta sinn hittumst við heima hjá mér og kvöldið var frábærlega skemmtilegt. Við vorum allar á svipuðum stað í lífinu og gátum skipst á ráðleggingum og sögum. Næstu tvö árin festi saumaklúbburinn sig í sessi og tvær í honum urðu mínar bestu vinkonur.

Rétt fyrir tveggja ára afmæli klúbbsins fréttum við að Jóna væri skilin. Maðurinn hennar hafði flutt út og inn á aðra konu sem hann hafði verið í sambandi við um tíma. Við ákváðum að flýta afmælinu og reyna að hressa Jónu við með kokteilakvöldi. Við komum heim til hennar í fína, dýra húsið sem hún sagði okkur að hún ætlaði að halda. Fyrirtækið hafði hún einnig hugsað sér að taka yfir og þegar ég spurði hvernig hún ætlaði að borga manninn sinn út úr hvoru tveggja varð hún móðguð og reið. Hún hellti sér yfir mig og sagðist hafa komist að því að hann hefði verið stöðugu framhjáhaldi í langan tíma og spurði mig hvort ég væri kannski eitt af viðhöldum hans.

„Hún ætti líklega von á dómi fyrir aðild sína. Þetta kom mér alls ekki á óvart og ég á alveg von á að fyrr eða síðar dúkki hún upp í einhverjum fjölmiðli og lýsi því hvernig hún hafi verið neydd út í þetta allt saman.“

Ég varð gersamlega kjaftstopp en svo var mér nóg boðið. Ég fór einfaldlega heim. Daginn eftir hringdu vinkonur mínar í mig og sögðu mér að Jóna hefði haldið áfram að tönnlast á þessari vitleysu allt kvöldið og haldið því fram að ég hefði farið vegna þess að sektarkenndin hafi orðið mér um megn. Þá var mér nóg boðið. Ég ákvað að ég þyrfti ekki á vinkonu eins og Jónu að halda. Hún hringdi í mig nokkrum dögum seinna og ég sagði henni einfaldlega að ég hefði ekki áhuga á að umgangast hana meira svo lagði ég á. Jóna hringdi aftur en ég svaraði ekki og sama dag blokkaði ég hana á facebook.

Sökuð um að hafa spillt vináttunni

Ég sagði stelpunum í saumklúbbnum hvaða ákvörðun ég hefði tekið og jafnframt að ég vildi ekki skemma fyrir Jónu þannig að ég ætlaði að draga mig út úr klúbbnum. Það vildu þær ekki en ég sagði þeim að ekki kæmi annað til greina. Skömmu seinna frétti ég svo að klúbburinn hefði lagt upp laupana. Í kjölfar þess stofnuðum við sem vorum hvað nánastar okkar eigin klúbb. Auðvitað túlkaði Jóna það á sinn hátt og sagði hverjum sem heyra vildi að ég hefði bolað henni úr saumaklúbbnum og spillt á milli hennar og hinna. Sannleikurinn var sá að þær voru allar orðnar þreyttar á henni þegar þarna var komið sögu og voru fegnar að losna. Eina ástæða þess að við héldum áfram svona lengi var sú að okkur þótti vænt hver um aðra en við umbárum Jónu, fannst við ekki geta rekið hana úr klúbbi sem hún hafði stungið upp á að yrði stofnaður.

Hrunið reið yfir og við vinkonurnar komu misjafnlega út úr því rétt eins og aðrir Íslendingar. Við heyrðum að illa hefði farið fyrir Jónu. Fyrirtækið farið í þrot og húsið komið undir hamarinn. Hún hafði einfaldlega hætt að borga af lánum og nú hugðist bankinn halda uppboð á eigninni.  Þegar að því kom hafði hins vegar ýmislegt horfið úr húsinu, glæsileg sérhönnuð eldhúsinnrétting sem skipt hafði verið út fyrir IKEA-innréttingar, eikarfataskápar og margt fleira. Hún hafði selt þetta allt meðan bankinn gaf henni greiðslufrest.  Þetta var það síðasta sem ég heyrði af Jónu í langan tíma. Nýlega hitti ég hins vegar gamla bekkjarsystur og hún sagði mér þær fréttir að Jóna hefði verið handtekin fyrir rúmu ári fyrir tengsl við stórt fíkniefnamál. Hún ætti líklega von á dómi fyrir aðild sína. Þetta kom mér alls ekki á óvart og ég á alveg von á að fyrr eða síðar dúkki hún upp í einhverjum fjölmiðli og lýsi því hvernig hún hafi verið neydd út í þetta allt saman. Hún mun mjög líklega tína til nokkra sökudólga og njóta þess að eiga alveg óskaplega bágt. Þegar það gerist mun ég brosa út í annað og velta fyrir hversu margir trúa henni.

Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur í Vikunni. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -