Borgin Aberdeen er full af fallegum almenningsgörðum, söfnum og stórbrotnum arkitektúr.
Aberdeen er krúttleg borg í Skotlandi sem líkja má við Akureyri okkar Íslendinga, hún hefur sjarma smábæjar en er með allt það sem finna má í stórborgum.
Aberdeen er þriðja stærsta borg Skotlands og oft nefnd granítborgin, eða Silver by the Sea, enda nánast allar byggingar á svæðinu byggðar úr hinum níðsterka og fallega efnivið, graníti. Olíuvinnsla í Norðursjó skipar stóran sess í samfélaginu og í Aberdeen er stærsti þyrluflugvöllur í Evrópu. Í borginni eru margir fallegir almenningsgarðar, stórbrotinn arkitektúr og skemmtileg söfn, enda á borgin sér margra alda sögu.
Aðalverslunargatan heitir Granite Mile og er hluti af Union Street en þar eru meira en 800 verslanir, veitingastaðir og barir. Stærsta verslunarmiðstöðin heitir Union Square og þar má finna H&M, Zöru, Michael Kors, Apple og fleiri þekktar búðir. Verslunarmiðstöðvarnar Bon Accord og St Nicholas eru samtengdar skammmt frá en þar er einnig H&M-verslun, Karen Millen, L‘Occitan, Marks & Spencer og fleiri. Í Trinity Center er svo meðal annars Debenhams og Primark.
Óhætt er að mæla með Scene-hótelunum í miðborg Aberdeen sem bjóða upp á öll nútímaþægindi. Hótelin eru þrjú og eru rekin af Scene-fjölskyldunni. Hótelin eru í samstarfi við nokkra veitingastaði víðs vegar um Aberdeen þar sem hægt er að borða og bæta á hótelreikninginn. Hótelin eru einnig í samstarfi við tvær líkamsræktarstöðvar. Fyrsta hótelið var stofnað árið 1979 og starfsemin hefur vaxið hægt og bítandi síðan. Álman á einu hótelinu var áður kirkja sem var gerð upp sem hótel, virkilega sjarmerandi.
Fjölskyldufaðirinn, stofnandi keðjunnar og framkvæmdastjóri, Charles Skene, leggur mikinn metnað í reksturinn og hefur forðast að láta fyrirtækið verða of stórt eða hluta af alþjóðlegum keðjum. Fyrir nokkrum árum var hann sæmdur OBE, Order of the British Empire sem er eins konar fálkaorða þeirra Breta, fyrir störf sín.
Í sambýli við Trump
Aberdeen og nágrenni er golfparadís en þar eru fimmtíu og sjö 18 holu golfvellir. Skammt norðan við Aberdeen er golfvöllur í eigu Donalds Trump sem kallast einfaldlega Trump International Golf Links. Hann er byggður innan um miklar sandöldur við austurströnd Skotlands sem gerir völlinn einstakan. Sandöldurnar, sem voru látnar halda sér á milli teiga, brauta og flata, eru í hlutverki hindrana og ekki er um aðrar hindranir að ræða.
Golfarkitektinn Dr. Martin Hawtree hannaði völlinn sem var opnaður árið 2012 eftir nokkra baráttu en ekki voru allir á eitt sáttir um framkvæmdina. Trump þurfti að kaupa land af nokkrum aðilum til að geta byggt þennan draumavöll en ekki voru allir sem vildu selja. Einn eigandinn býr til dæmis enn á svæðinu og golfvöllurinn var byggður í kringum býli hans. Sagan segir að sambýlið gangi ekkert allt of vel.
Gamlt höfðingjasetur sem Trump keypti gegnir hlutverki hótels og veitingastaðar sem er sérstaklega ætlað golfurum. Sérstök svíta þar er kennd við Trump og hann dvelur í henni þegar hann er sjálfur á svæðinu. Þessa svítu er svo hægt að leigja fyrir þónokkur pund. Við golfvöllinn er svo glæsilegur golfskáli, veitingastaður og verslun.
Í kastalanum sjálfum er flott herbergi í gamaldags stíl en í gamalli hlöðu og útihúsum á móti er búið að innrétta flott nútímaleg herbergi.
Meldrum House Country Hotel and Golf Course er í um fjörutíu og fimm mínútna akstursfjarlægð frá Aberdeen. Hótelið er í gömlum kastala sem upphaflega var byggður á þrettándu öld en hefur tekið töluverðum breytingum í gegnum tíðina síðan. The Cave Bar er einn af elstu hlutum hússins eða um 800 ára gamall og þar er meðal annars eitt stærsta safn af Glen Garioch-viskíi og gaman að fara í viskísmökkun. Í kastalanum sjálfum er flott herbergi í gamaldags stíl en í gamalli hlöðu og útihúsum á móti er búið að innrétta flott nútímaleg herbergi. Golfvöllurinn er mun hefðbundnari en Trump-völlurinn, með trjám, tjörnum og sandgryfjum.
Fór næstum í flóði
Skosku hálöndin ættu allir að heimsækja einhvern tímann á ævinni. Þau eru svo falleg, full af dýrðarljóma og sögu. Þau eru meðal annars þekkt fyrir þá fjölmörgu kastala sem þar eru. Einn þeirra er Crathes Castel; það er ævintýri líkast að fara í túr um kastalann, skoða hvern krók og kima og kynnast sögu hans. Í kringum kastalann er stór garður og í raun heljarstórt útivistarsvæði sem er vinsælt meðal bæði heima- og ferðamanna. Þar er hægt að velja um sex mismunandi gönguleiðir og tilvalið fyrir fjölskylduna að njóta dagsins með nesti og nýja skó eða kíkja á veitingastaðinn sem er skammt frá kastalanum.
Ekki langt frá Crathes-kastalanum, meðfram ánni River Dee, er Banchory Lodge Hotel. Áin komst í heimsfréttirnar eitt sinn mikil flóð urðu í henni og eyðilögðu meðal annars næstum því heilan kastala sem stendur á árbakkanum. Flóðið náði alveg upp að veggjum hótelsins í Banchory Lodge en það slapp við stórfelldar skemmdir. Talsmenn hótelsins sögðu að það hefði verið ógnvekjandi að sjá stærðarinnar hjólhýsi fljóta fram hjá. Banchory Lodge Hotel er fallegt sveitahótel sem býður upp á flott hótelherbergi með fallegu útsýni. Á staðnum er frábær veitingastaður með mjög góðum mat og hægt að sitja úti á palli þegar veðrið er gott. Mikið er um að þarna séu haldnar veislur, ekki síst brúðkaupsveislur, enda frábær aðstaða til slíks og svo geta allir gestirnir gist á staðnum.
Vatnsdropar í viskíið
Viskí er eitt af einkennistáknum Skotlands og í landinu eru framleidd yfir 2.200 vörumerki af þessum eðaldrykk. Viskíhéruðin í landinu eru sex talsins og þar með tegundirnar því þær hafa mismunandi karakter eftir því á hvaða svæði þær eru framleiddar. Vinsælt er að fara í
viskísmökkun og skammt frá Meldrum House Country Hotel er viskíverksmiðjan Glen Garioch þar sem boðið er upp á viskísmökkun og skoðunarferð um húsakynnin. Fyrirtækið hefur í rúm 200 ár framleitt handunnið og ókaldhreinsað maltviskí.
Til að finna karakterinn í viskíinu eru oft settir nokkrir dropar af vatni út í það en við það verður ilmurinn og bragðið fyllra, líkt og þegar nýbúið er að rigna þá finnst lyktin af gróðri miklu betur.
Upplifun fólks af styrkleika viskís er persónubundin, það er sem sagt misjafnt hversu sterkt fólk á að hafa viskíið sem það drekkur. Ef það finnur fyrir bruna í hálsinum þegar það tekur sopa er drykkurinn of sterkur. Dropum af vatni er þá bætt við þangað til viskíið verður passlega sterkt. Til er sérstakt vatn til að setja út í viskí frá mismunandi stöðum í Skotlandi og bragðið verður mismunandi eftir uppruna vatnsins.
Litríkt fiskiþorp
Óhætt er að mæla með leiðsögn um borgina og fá þannig söguna og helstu perlur staðarins beint í æð. Litla fiskiþorpið í mynni hafnarinnar í Aberdeen er sérstaklega áhugavert. Það er kallað Footdee eða Fittie og samanstendur af tveimur svæðum með litlum húsum sem byggð eru í ferhyrning. Í gamla daga bjuggu sjómenn og fjölskyldur þeirra í húsunum. Þó að margar af þessum fjölskyldum búi þarna enn þá er fiskilífið á miklu undanhaldi. Á árum áður mátti sjá eiginkonurnar sitja við útidyrnar að gera við net og skiptast á sögum við nágrannana. Fiskinet voru víðs vegar þar sem greiða þurfti úr flækjum og hengja þau til þerris. Þessi litlu hús og garðarnir hafa þó fengið að halda sér. Húsin hafa öll sinn sjarma, eru litrík og margvíslega skreytt. Sumum er vel haldið við, öðrum ekki. Þarna er dásamlegt að vera og svolítið eins og að koma inn í nýja veröld úr ys og þys borgarlífsins.
Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pixabay.com