Þriðjudagur 29. október, 2024
4.7 C
Reykjavik

Sjö spennandi gönguleiðir í heiminum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Víða um heim má finna staði með spennandi gönguleiðum.

Vinsældir ýmiskonar gönguferða hafa aukist mjög á undanförnum árum og víða um heim má finna staði með spennandi gönguleiðum sem skarta glæsilegu útsýni og ýmsu sem gerir þær sérstakar á einn eða annan hátt.

Zion Narrows er mögnuð gönguleið sem skartar töfrandi landslagi sem liggur í gegnum þröng gljúfur úr litríkum, eins kílómetra háum sandveggjum.

Zion Narrows í Utah-ríki, Bandaríkjunum

Zion Narrows er mögnuð gönguleið sem skartar töfrandi landslagi sem liggur í gegnum þröng gljúfur úr litríkum, eins kílómetra háum sandveggjum.

Á hinum fræga hluta leiðarinnar sem nefnist Wall Street verða gljúfrin ekki nema sex metrar að breidd að ofan. Ríflega helming leiðarinnar þarf að ganga upp með á sem liðast fallega í gegnum gljúfrin.

Úr veggjum gljúfranna hanga runnar, vatn kemur úr sprungum, þarna eru breiður af mosa, fossar og há tré.

Rétt er að taka fram að það getur verið mjög hættulegt að fara þessa leið því fljót geta komið snögglega og árlega deyja göngugarpar á leiðinni. Því þarf að vera með veðurspána á hreinu áður en farið er, og vera viss um að alls engin rigning sé í kortunum.

- Auglýsing -

Með nauðsynlegum varúðarráðstöfunum er þessi gönguleið ein sú allra flottasta í Bandaríkjunum og sannarlega engu lík.

Tongariro-gönguleiðin á Nýja-Sjálandi

Landslagið á Nýja-Sjálandi er sérstaklega fallegt og því ekki að undra að ein flottasta gönguleið í heimi sé á norðureyju landsins. Hægt er að taka frá einum og upp í þrjá daga í gönguna.

- Auglýsing -

Leiðin sem er um 35 kílómetra löng liggur í gegnum eldfjallasvæði og eyðimerkur sem líkjast einna helst öðrum hnöttum og fallegir fjallstindar gnæfa yfir.

Göngufólk mun sjá virka eldfjallið Ngaurube eða Doom eins og það hét í Lord of the Rings. Einnig sjóðandi leirkatla, gíga og hraun …

Göngufólk mun sjá virka eldfjallið Ngaurube eða Doom eins og það hét í kvikmyndinni Lord of the Rings. Einnig sjóðandi leirkatla, gíga, hraun og hin glæsilegu Emerald-vötn.

Ferðalagið er ekki síst skemmtilegt eftir að fer að dimma en þá er hægt að koma sér fyrir í þægilegum fjallakofum sem eru með fínum rúmum, gashiturum og -eldavélum, rennandi vatni og klósettum. Ferðalangar geta svo auðveldlega lagt lykkju á leið sína og gengið á topp fjallanna Tongariro og Ngauruhoe.

Landslagið á Nýja-Sjálandi er sérstaklega fallegt. Mynd / www.pexels.com

West Coast í Bresku Kólumbíu, Kanada

Þá sem langar í óvenjulega göngu í gegnum óspillta kanadíska náttúru, upplifa tempraða skóga, harðgerðar strandlengjur og stórkostlega fjallstinda, þá er West Coast-gönguleiðin málið. Göngufólk mun vakna í tindrandi sólarupprás, njóta ótrúlegs sólarlags, klöngrast yfir stóra steina og trjáboli, yfir læki og ár, fram hjá fossum, upplifa hve ótrúlega lítil mannskepnan er í kringum risastór tré í eldgömlum skógi. Einnig gæti fólk séð hvali, sæljón, minka og kannski einnig birni og úlfa, svo ekki sé minnst á skipsflök og aðrar minjar. Erfitt getur verið að komast að í þessa einstöku göngu og stundum er hægt að lenda í slæmu veðri, jafnvel á sumrin. Engin ganga í Norður-Ameríku býður upp á jafnfjölbreytt landslag og er sannarlega þessi virði að fara hana.

West Coast-gönguleiðin er málið fyrir þá sem langar í óvenjulega göngu í gegnum óspillta kanadíska náttúru.

Torres del Paine-gönguleiðin í Chile

Þeir sem eru að leita að stórkostlegu Alpafjallalandslagi, jöklum, jökulvötnum, skörpum fjallstindum, einstöku dýralífi og möguleikanum á því að sjá hina töfrandi graníttinda Towers of Paine, ættu að fara í þessa vinsælu 100 kílómera löngu gönguleið í Patagonia-fjöllunum í Chile. Staðurinn hefur verið útnefndur einn 50 staða sem fólk ætti að heimsækja á lífsleiðinni, af tímaritinu National Geographic. Þessi dásamlega gönguleið liggur um Magellenic-skóginn, forug fen, klettótt gil og yfir óstöðugar brýr. Þótt svæðið sé heillandi frá upphafi til enda þarf að hafa í huga að þar geta veður orðið válynd. Því getur bakpokinn orðið ansi þungur með öllu sem á þarf að halda til að halda á sér hita. Hægt er að lenda í byl og því gæti hluti leiðarinnar lokast. En slæmt veðurfar veldur því að leiðin er ekki fjölfarin og því mun ferðalöngum finnast þeir hafa unnið enn stórkostlegra afrek ef þeir ganga þessa leið.

Þeir sem eru að leita að möguleikanum á því að sjá hina töfrandi graníttinda Towers of Paine, ættu að fara í þessa vinsælu 100 kílómera löngu gönguleið í Patagonia-fjöllunum í Chile.

Annapurna-gönguleiðin í Nepal

Marga göngugarpa dreymir um að fara til Nepal til að komast í tæri við eina glæsilegustu fjallasýn í heimi. Þessi gönguleið í Annapurna býður ekki aðeins upp á snævi þakta fjallstinda, heldur einnig fjölbreytta náttúru og menningu. Gangan sem liggur frá suðrænu landslagi að hæstu fjöllum í heimi tekur um þrjár vikur og á leiðinni er hægt að gista í þægilegum skálum. Varast þarf háfjallaveiki en möguleiki er á henni þegar komið er í meira en fimm kílómetra hæð yfir sjávarmáli. Á leiðinni hitta ferðalangar Tíbeta sem búa í fjöllunum, sjá búddahof, geta heimsótt tehús, baðað sig í heitum lindum og njóta eins fallegasta útsýnis í heiminum.

Marga göngugarpa dreymir um að fara til Nepal til að komast í tæri við eina glæsilegustu fjallasýn í heimi.

Kilimanjaro í Tanzaníu

Þá sem langar að príla upp á verulega hátt fjall en ekki fara í brjálæðislega tæknilega, hættulega og bratta göngu þá er ferð á Kilimanjaro frábær kostur. Fjallið er 5,895 metra hátt og oft sagt að það sé hæsta fjall í heimi sem hægt er að ganga á án þess að þurfa tæknilega kunnáttu í klifri og útbúnaði. Það er ekki þar með sagt að gangan sé auðveld því hún er líkamlega krefjandi og árlega deyja nokkrir úr háfjallaveiki á þessari leið. Nokkrar leiðir eru á topp þessa hæsta frístandandi fjalls heims og hæsta tinds Afríku. Gangan hefst við miðbaug og farið er í gegnum allar loftlagstegundir í þessa sex daga og fimm nætur sem gangan tekur. Byrjað er í heitu graslendi, síðan farið í gegnum tempraða skóga og jökulfyllta dali að ísköldum tindinum.

Kilimanjaro í Tanzaníu.

Kalalau á Hawaii

Kalalau á Hawaii er ein glæsilegasta gönguleið í heimi. Klettarnir liggja gróðri vaxnir niður í sæblátt Kyrrahafið. Þar eru ævintýralega fullkomnir fossar sem falla niður í suðræna dali og öldurnar skella með dramatískum hætti á klettana. Í hafinu má sjá stökkvandi höfrunga og hnúfubaka og sjávarskjaldbökur við ströndina. Stígurinn er 17 kílómetra langur og þar sem hann liggur er um 1.000 metra hátt fall niður í sjó. Farið er yfir fimm stóra dali og fleiri litla. Fyrir mjög þjálfaða göngumenn tekur ferðin einn dag en tvö fyrir marga aðra sem tjalda á leiðinni. Stígurinn var fyrst byggður seint á nítjándu öld og endurbyggður árið 1960. Hann er nánast aldrei alveg flatur og á sumum stöðum liggur hann frekar nálægt hengiflugi, nokkur hundruð metra háu, beint niður í sjó.

Kalalau á Hawaii er ein glæsilegasta gönguleið í heimi.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -