Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Skellum okkur á skíði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að stunda skíðaíþróttina hefur lengi verið föst hefð hjá mörgum Íslendingum en til að fá sem mest út úr skíðaferðinni er gott að kynna sér vel alla þá möguleika sem í boði eru. Víða um land hafa verið byggð glæsileg skíðasvæði sem henta vel fyrir alla fjölskylduna.

Grænar leiðir
Grænar leiðir eru fyrir byrjendur. Mælt er með því að byrjendur haldi sig í nágrenni við skálanna.
Bláar leiðir
Bláar leiðir eru léttar leiðir við hæfi allra sem hafa grunnskíðakunnáttu.
Rauðar leiðir
Rauðar leiðir eru aðeins við hæfi góðra skíðamanna sem vilja hraða og meiri bratta.

Í Bláfjöllum, á Oddskarði í Fjarðarbyggð, í dölunum tveimur á Ísafirði og Hlíðarfjalli á Akureyri er upplagt að bregða sér í skíðaskóna þegar rétt viðrar. Starfsfólk staðanna hvetur gesti sína til að kynna sér aðstæður skíðasvæðanna svo hægt sé að fá sem mest út úr ferðinni. Möguleikarnir sem eru í boði á hverjum stað eru nefnilega mun fleiri en margir gera sér í hugarlund en með aukinni fræðslu er hægt að fara meira um innan hvers svæðis og reyna sem flestar brekkur og leiðir.

Mikilvægt er að huga vel að búnaði sínum og fatnaði, því það getur spillt góðum degi ef eitthvað bilar eða kuldinn bítur. Fyrir byrjendur er best að halda sig í nágrenni skálanna, þar sem auðveldustu lyfturnar eru.

Snjóbrettafólk er hvatt til að fara varlega í snjóhengjum sem eru utan hins skipulagða skíðasvæðis vegna snjóflóðahættu.

Samkvæmt öryggisreglum skíðasvæða á brettafólk alltaf að vera með annan fótinn lausan í stólalyftu og skylda er að hafa öryggisól á brettinu tengda við sig.

Gott er að prenta út kort af gönguleiðum og hafa með sér í vasanum.

Ef skíða- eða brettafólk verður fyrir óhappi eru sérþjálfaðir starfsmenn skíðasvæðanna ávallt reiðubúnir til aðstoðar. Ef um alvarlegri slys er að ræða þurfa nærstaddir að leita aðstoðar næsta starfsmanns strax og mun hann sjá um að koma boðum til sérþjálfaðra skyndihjálparmanna sem bregðast við eftir aðstæðum.

- Auglýsing -

Reglur Alþjóða skíðasambandsins

1. Tillitsemi
Skíða- eða snjóbrettamaður skal hegða sér á þann hátt að hann stofni ekki öðrum í hættu, valdi óþægindum eða skaða.
2. Stjórn á hraða
Skíða- eða snjóbrettamaður skal ávallt hafa fullt vald á hraðanum. Hann skal ekki fara hraðar en geta hans leyfir og aðstæður hverju sinni, svo sem veður, færi og fjöldi í brekkum.
3. Að velja sér leið
Sá sem kemur niður brekku eða aftan að öðrum skíða- eða snjóbrettamönnum skal velja sér leið þannig að hann stofni ekki þeim sem fyrir framan eru í hættu.
4. Framúrtaka
Fara má fram úr eða fram hjá öðrum skíða- eða snjóbrettamanni fyrir ofan hann eða neðan, hægra eða vinstra megin, að því tilskildu að sá sem farið er fram úr eða fram hjá hafi allt það svigrúm sem hann þarf.
5. Að fara inn í eða vera á merktri braut
Sá sem fer inn í merkta braut eða leggur aftur af stað eftir að hafa stansað eða sveigt upp á við skal líta vel í kringum sig og ganga úr skugga um að hann stofni hvorki sjálfum sér né öðrum í hættu.
6. Stöðva í brekkum
Skíða- eða snjóbrettamaður skal ekki stansa þar sem braut er þröng eða útsýni takmarkað nema brýna nauðsyn beri til. Ef hann dettur skal hann færa sig úr brautinni eins fljótt og hann getur.
7. Gengið upp eða niður brekku
Skíða- eða snjóbrettamenn sem fara fótgangandi upp eða niður brekku skulu ganga í jaðrinum á merktum brautum.
8. Leiðbeiningar á skiltum
Skíða- eða snjóbrettamenn skulu fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum á skiltum sem hafa verið sett upp í brekkum.
9. Aðstoð
Ef slys ber að höndum skulu allir veita þá aðstoð sem þeir geta.
10. Að gefa sig fram eftir slys
Allir skíða- eða snjóbrettamenn sem verða vitni að eða lenda í slysi skulu gefa sig fram, án tillits til þess hvort þeir bera ábyrgð á slysinu eða ekki.

 

Myndir / Auðunn Níelsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -