Linda Sæberg hefur einstaka hæfileika til að njóta augnabliksins, grípa tækifærið og meta litlu hlutina í lífinu. Í henni blundar mikil ævintýraþrá en hún eyddi fæðingarorlofinu á ferðalagi um Balí ásamt fjölskyldu sinni. Fegurðin, menningin og íbúar landsins hittu hana í hjartastað og það voru þung spor að snúa til baka til Íslands.
Í haust fluttist Linda til Egilsstaða með unnusta sínum, Steinari Inga, sem er þaðan. Fyrir áttu þau hvort sína dótturina, Önju Sæberg og Móeiði, en saman eignuðust þau Esjar Sæberg fyrir einu og hálfu ári. Linda er heima með Esjar eins og er, þar sem hún sinnir ýmsum verkefnum sem hún tekur að sér ásamt því að reka og dekra við vefverslunina Unalome. Þegar Linda varð ólétt af Esjari kom í ljós að hún var sett á tíu ára afmælisdag dóttur sinnar, Önju, þann 21. nóvember.
„Ég mundi eftir því að hafa verið frekar mikið innilokuð yfir þessa erfiðu vetrarmánuði þegar ég var í fæðingarorlofi með hana, svo ég sagði snemma við manninn minn að ég vildi endilega létta á þessum dimmu mánuðum með því að fara aðeins erlendis í sólina. Hann tók strax vel í það og vorum við þá helst að hugsa um Suður-Evrópu og kannski 3-4 vikur. Við ferðuðumst um sveitir Suður-Frakklands þegar ég var ólétt og vorum algjörlega kolfallin fyrir þeim, en það var ekki nógu heitt fyrir okkur yfir vetrartímann þar svo við leituðum lengra og á stað þar sem var einstaklega ódýrt að lifa. Útreikningur fæðingarorlofs sýndi lága tölu og sáum við fram á að maðurinn minn gæti ekki verið heima með okkur lengur en fyrsta mánuðinn og fæðingarorlofið yrði mikið basl. Okkur fannst það virkilega lítið heillandi tilhugsun.“
Héldu til Balí með one-way-ticket í vasanum
Eftir nokkra útreikninga kom í ljós að það myndi ganga upp að ferðast til Asíu og lifa á fæðingarorlofi Lindu og námslánum Steinars, þar sem hann var í fjarnámi við Háskóla Íslands. Mæðgurnar Linda og Anja höfðu lengi verið dolfallnar yfir Balí og smituðu Steinar af því þegar hann kom í líf þeirra, svo Balí var á ofarlega á lista fjölskyldunnar yfir staði sem hún vildi heimsækja. Linda segir að í miðju skipulagi og í æsingnum hafi upphaflega áætlunin breyst og stefnan var sett á Balí í óákveðinn tíma í stað þess sem átti að vera 3-4 vikna ferðalag um Suður Frakkland.
„Eftir að hafa ráðfært okkur við lækninn okkar og fengið að flýta þriggja mánaða bólusetningu Esjars um tvær vikur, pakkað búslóðinni okkar og leigt út íbúðina, lögðum við af stað til Balí, með one-way-ticket í vasanum, nokkrum dögum áður en Esjar varð þriggja mánaða. Ég var óstjórnlega stressuð að fara út með hann svona lítinn og spurði sjálfa mig margoft á leiðinni hvað í ósköpunum ég væri að gera.“
/ Lestu allt um Balí ævintýrið og ítarlegra viðtal við Lindu í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Myndir: Hallur Karlsson