Fimmtudagur 26. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Skiptir mestu máli að fá skapandi hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd 

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Doktor Erla Björnsdóttir er ein af þessum konum sem virðast geta allt. Rúmleg þrítug var hún orðin fjögurra barna móðir með doktorspróf og nýstofnað fyrirtæki sem bauð upp á nýjungar í svefnmeðferðum og síðan hefur hún skrifað bækur, haldið fyrirlestra og rekið meðferð við svefnvandamálum með góðum árangri. Í haust kemur út hennar fyrsta skáldverk, barnabók um svefn, og hún segist hafa ótal aðrar hugmyndir í pokahorninu sem munu verða að veruleika á næstu árum.

„Ég er fædd og uppalin í Vesturbæ Reykjavíkur,“ segir Erla spurð um bakgrunn sinn og uppruna. „En fluttist svo austur á Neskaupstað þegar ég var fimmtán ára. Pabbi er læknir og fékk stöðu á sjúkrahúsinu þar og fjölskyldan flutti austur. Það var ákveðið sjokk fyrir fimmtán ára unglinginn að flytja á Neskaupstað úr borginni. En ég var mjög fljót að aðlagast og leið vel fyrir austan, var þar einn vetur en fór svo í Menntaskólann á Akureyri og var þar á veturna en fyrir austan á sumrin. Þegar ég var nítján ára hitti ég síðan manninn sem er maðurinn minn enn í dag fyrir austan, þannig að þetta var gæfuspor í lífi mínu þegar upp var staðið.“

Eiginmaðurinn, Hálfdán Steinþórsson, er fæddur og uppalinn á Neskaupstað og bjó nánast í næsta húsi við Erlu þegar þau kynntust og ekki nóg með það heldur urðu bróðir Erlu og systir hans líka hjón.

„En við höfum alltaf öll verið mjög náin og ef einhvern í hópnum vantar nýra þá erum við í mjög góðum málum.“

„Þetta var ást við fyrstu sýn,“ fullyrðir Erla. „Við byrjuðum strax að vera saman og sex mánuðum seinna byrjaði systir hans að vera með bróður mínum og þau eru líka hjón í dag. Þau systkinin bjuggu hinum megin við götuna og við sáum bókstaflega hvort annað út um eldhúsgluggana heima hjá okkur, þannig að þetta var svolítið svona eins og í bandarískri bíómynd. Í dag eigum við fjóra stráka og systkini okkar eiga þrjár stelpur á nánast alveg sama aldri, við áttum því von á börnum á sama tíma og fólki fannst þetta allt saman dálítið skrítið. En við höfum alltaf öll verið mjög náin og ef einhvern í hópnum vantar nýra þá erum við í mjög góðum málum,“ bætir hún við og skellihlær.

Erla Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Erla var ekki gömul þegar fyrsti sonurinn fæddist og sama ár giftu þau Hálfdán sig. Bæði voru þá enn í námi, en hún segir það hafa hentað sér mjög vel að eignast drengina samhliða náminu.

„Ég var tuttugu og eins árs þegar við giftum okkur og elsti strákurinn fæddist, við vorum ekkert að hangsa við hlutina,“ segir hún brosandi. „Svo komu þeir koll af kolli, strákarnir og sá yngsti er sex ára í dag og sá elsti sextán ára. Tveir þeir elstu komu þegar ég var í BS-námi í sálfræði og svo fórum við til Danmerkur þar sem ég tók meistaranámið og þegar ég var að klára það kom sá þriðji. Sá yngsti kom svo þegar ég var í doktorsnáminu og ég var bara nýbúin að eignast hann þegar ég varði doktorsritgerðina. Það hentaði mér vel að vera í barneignum samhliða náminu og mér þótti gott að vera með lítil börn í námi þar sem ég gat stýrt tíma mínum nokkuð vel.“

„En það var alveg yndislegt að vera þarna með börn og mikil rómantík í því að búa í sveit þótt það hafi oft verið erfitt líka að vera svona langt í burtu frá öllu.“

- Auglýsing -

Dvölin í Mexíkó breytti lífsviðhorfinu 

Fjölskyldan bjó í Danmörku í tvö ár á meðan hjónin voru bæði í námi og Erla segir þá reynslu hafa verið mikils virði, þótt fljótfærnin hafi reyndar orðið til þess að árin urðu aðeins öðruvísi en þau hefðu ímyndað sér að þau yrðu.

„Ég var í Háskólanum í Árósum en við bjuggum í litlum bæ töluvert fyrir utan borgina,“ útskýrir hún. „Við getum bæði verið dálítið hvatvís þannig að við fundum bara hús á netinu sem okkur fannst fallegt og gerðum leigusamning án þess að sjá það. Þegar við komum út komumst við svo að því að það var mjög afskekkt, engar lestarferðir þangað eða neitt. Þetta var hundrað manna bær og mjög lítið um að vera þar og við vorum ekki beint í háskólaárastuðinu í Árósum þessi ár. En það var alveg yndislegt að vera þarna með börn og mikil rómantík í því að búa í sveit þótt það hafi oft verið erfitt líka að vera svona langt í burtu frá öllu. Við vorum dálítið einangruð þarna.“

- Auglýsing -

Það er oft sagt að fólk fari að læra sálfræði vegna þess að það eigi sjálft í einhverjum erfiðleikum andlega, en Erla segir það alls ekki vera raunina í sínu tilfelli.

„Ég var hins vegar mjög virkur unglingur og býst við að foreldrar mínir hafi oft svitnað yfir mér,“ segir hún hlæjandi. „Þau sendu mig sem skiptinema til Mexíkó þegar ég var sautján ára og það var held ég gæfusporið mitt, því ég var svolítill villingur áður en ég fór þangað. Aldrei samt þunglynd eða kvíðin eða neitt þannig, ég held það hafi bara verið forvitnin sem rak mig áfram og áhuginn á fólki. Í Mexíkó var ég í bæ inni í miðju landi, í svona þriggja tíma akstursleið frá Mexíkóborg, og bjó á afskaplega kaþólsku heimili svo þetta voru svakaleg viðbrigði. Þetta var allt annar heimur, engin þvottavél á heimilinu, allt þvegið á þvottabrettum úti í garði, og þetta var svipað því að hafa verið send langt aftur í tímann. Samt ótrúlega skemmtilegt, æðisleg menning og þessi dvöl kenndi mér mjög mikið. Kannski fyrst og fremst að kunna að meta það sem ég hafði hérna heima. Foreldrar mínir hafa oft sagt að þau hafi aldrei fengið jafnfalleg bréf frá mér og þegar ég var í Mexíkó. Ég var mikið að segja þeim hvað þau væru frábær og hvað allt væri æðislegt á Íslandi, ég þurfti fjarlægðina til að sjá það. Auðvitað var þetta líka að mörgu leyti erfitt þótt þetta hafi verið æðislegt og skemmtilegt og eitthvað sem maður býr alltaf að. Að hafa eignast góða vini, lært spænsku og eiga allar þessar skemmtilegu minningar.“

Erla Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

„Ég er svo forvitin og mig langaði alltaf að vinna með fólk. Ætlaði reyndar í læknisfræði upphaflega og var þá helst að hugsa um geðlækningar, en þegar ég fór í Háskólann og fór að skoða námið sem var í boði sá ég strax að sálfræðin var eitthvað sem heillaði mig mikið.“

Áhugi á fólki og mannlegri hegðun 

Spurð hvers vegna sálfræðin hafi orðið fyrir valinu er Erla snögg til svars.

„Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á fólki og mannlegri hegðun,“ útskýrir hún. „Ég er svo forvitin og mig langaði alltaf að vinna með fólk. Ætlaði reyndar í læknisfræði upphaflega og var þá helst að hugsa um geðlækningar, en þegar ég fór í Háskólann að skoða námið sem var í boði sá ég strax að sálfræðin var eitthvað sem heillaði mig mikið. Ég fann líka strax að ég var algjörlega á réttri línu þar, fannst þetta ótrúlega spennandi nám. Ég var ekki búin að ákveða í hverju ég ætlaði að sérhæfa mig þegar ég byrjaði, var mikið að velta fyrir mér afbrotahegðun og tók til dæmis starfsnámið mitt í fangelsi, en þegar ég fór að vinna lokaverkefnið í meistaranáminu fór ég að skrifa um tengsl offitu og þunglyndis og það var í raun og veru þar sem áhugi minn á svefni kviknaði. Þar áttaði ég mig á því að þeir sem voru í ofþyngd og um leið þunglyndir áttu það margir sameiginlegt að vera með sjúkdóm sem heitir kæfisvefn. Ég fór að skoða hvað í því fælist og komst þá að því að þetta fólk var að fá mjög slæman svefn og lítinn djúpsvefn, þannig að fólkið er í raun alltaf illa hvílt og mér fannst því augljóst að það hlyti að skýra það að einhverju leyti að þetta væri sá hópur sem liði hvað verst. Í framhaldi af því fór ég að pæla meira í svefni og það opnaðist fyrir mér alveg nýr heimur. Á þessum tíma voru ekki margir sálfræðingar að sérhæfa sig á þessu sviði og ég sá að þarna lágu mikil tækifæri. Ég ætlaði alltaf í doktorsnám í einhverju í tengslum við afbrot en þarna snerist vinkillinn við og ég ákvað að sérhæfa mig á þessu sviði.“

Erla tók doktorsprófið við Læknadeild Háskóla Íslands í samstarfi við Háskólann í Pennsylvaniu, þannig að hún þurfti oft að fara þangað til styttri dvalar á meðan hún var í náminu.

„Ég tók mitt doktorspróf í líf- og læknavísindum,“ og rannsakaði þar tengsl svefnleysis, kæfisvefns og andlegrar heilsu upplýsir Erla. „Þetta var samstarfsverkefni háskólanna tveggja og Landspítalans svo ég var mestmegnis hérna heima og útskrifaðist úr Læknadeildinni hér.“

„Svefnvandamál eru svo svakalega algeng. Og það er mjög skert aðgengi að þjónustu fyrir þann hóp sem glímir við svefnleysi. Mjög fáir sálfræðingar eru með þessa sérhæfingu og fólk leitar því gjarnan beint í svefnlyf til að reyna að ráða bót á vandanum.“

Erla Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Vildi auka aðgengi að meðferð við svefnvandamálum 

Á meðan Erla var í doktorsnáminu stofnaði hún ásamt fleirum fyrirtækið Betri svefn og hún segir ástæðuna fyrir stofnun þess fyrst og fremst hafa verið að eftir því sem hún lærði meira hafi hún séð betur hversu mikil þörf var fyrir að hjálpa fólki með svefnvandamál.

„Svefnvandamál eru svo svakalega algeng,“ segir hún. „Og það er mjög skert aðgengi að þjónustu fyrir þann hóp sem glímir við svefnleysi. Mjög fáir sálfræðingar eru með þessa sérhæfingu og fólk leitar því gjarnan beint í svefnlyf til að reyna að ráða bót á vandanum. Við höfðum gengið töluvert lengi með þessa hugmynd í maganum og sendum hana svo inn í Gulleggið, sem er frumkvöðlakeppni, og komumst strax inn í úrslitahópinn þar og þá fóru hjólin að snúast. Upphaflega voru það ég og maðurinn minn sem stóðum að þessari hugmynd, hann er með menntun í viðskiptafræði og lögfræði og kemur að þessu alveg úr hinni áttinni, en okkur finnst fátt skemmtilegra en að kasta á milli okkar hugmyndum og skapa eitthvað saman. Þegar hugmyndin var að mótast kynntist ég tveimur ungum læknum sem ég viðraði þessa hugmynd við. Þeir höfðu líka bakgrunn í forritun og við fjögur smullum saman sem teymi og stofnuðum fyrirtækið. Það endaði með því að við unnum útflutningsverðlaunin og fórum í samstarf við Íslandsstofu í því samhengi. Í framhaldinu opnuðum við líka í Noregi en það ævintýri gekk reyndar ekki upp, þannig að við erum ekki í Noregi í dag. Við erum hins vegar í Bretlandi og erum að fara að opna í Bandaríkjunum í samstarfi við NOX health, sem er mjög spennandi.“

Hvað er það sem þið eruð að gera í Betri svefni? Hvaða þjónustu bjóðið þið upp á?

„Upphaflega var hugmyndin að vera með hugræna atferlismeðferð við svefnleysi, sem er sú meðferð sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með sem fyrsta inngripi,“ útskýrir Erla. „Aðgengi að slíkri meðferð var skert þannig að við vildum bjóða upp á þessa meðferð sem fjarmeðferð. Við hönnuðum kerfi með ákveðna gervigreind sem fólk fer inn í og skráir svefnvenjur sínar á hverjum einasta degi og síðan les kerfið úr svefnvenjunum og býr til leiðbeiningar út frá hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar. Fólk getur þarna farið í sex vikna sálfræðimeðferð í gegnum netið án þess að hitta nokkurn tíma sálfræðing. Þetta var sem sagt upphaflega hugmyndin en síðan hefur þetta auðvitað þróast með árunum og í dag erum við að gera miklu fleira en bara þetta. Við erum mikið með fræðslu fyrir fyrirtæki, skóla og aðra hópa, erum að skima fyrir svefnvanda innan fyrirtækja og við erum að þróa svefnvottun sem er ákveðinn gæðastimpill fyrir fyrirtæki sem eru að huga að þessum málum af því að rannsóknir sýna að svefnleysi er mjög dýrt vandamál fyrir fyriræki. Við bjóðum einnig upp á einstaklingsmeðferðir og hópmeðferðir við svefnleysi og erum stöðugt að þróa okkur áfram á þessu sviði.“

Erla Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Skrítið að ekkert sé fjallað um svefn í skólakerfinu 

Erla segir þörfina á svefnmeðferðum gríðarlega mikla en það sé þó ekki mjög langt síðan að fólk fór almennt að átta sig á mikilvægi svefns fyrir heilsu og vellíðan.

„Ég finn núna síðustu árin að fólk er virkilega að opna augun fyrir mikilvægi svefns,“ segir hún. „Mér fannst við svolítið vera að tala fyrir daufum eyrum til að byrja með en það hefur breyst. Þar var gjarnan lenskan að fólk stærði sig af því að sofa lítið, jafnvel tengdi það dugnaði og atorku, en þetta er sem betur fer að breytast og við erum svolítið farin að átta okkur á því hvað svefninn er mikilvægur. Það tók verulega langan tíma og mörgum fannst mjög skrítið í upphafi að ég væri að vinna við svefn, en í dag finn ég allt annað viðhorf. Það var alltaf fyrst og fremst talað um hreyfingu og mataræði þegar talað var um heilsueflingu en nú er svefninn kominn þar inn líka og það er akkúrat það sem við sem störfum á þessu sviði höfum verið að benda á allan þennan tíma. Það er til dæmis stórfurðulegt hversu lítið er fjallað um mikilvægi svefns í skólakerfinu, þar er kennd heimilisfræði og einnig íþróttir en við lærum lítið sem ekkert um þriðju grunnstoðina sem er svefninn. Við verjum þriðjungi ævinnar í hann þannig að mér finnst sérkennilegt hvað hann hefur orðið útundan. Við sjáum það á rannsóknum að börn og unglingar á Íslandi sofa of lítið og því er gríðarleg þörf á því að fræða þau um þetta málefni. Það er stóra markmiðið að miðla þekkingu til almennings, það hefur alltaf verið mitt mottó sem vísindamanns. Staðreyndin er sú að það tekur niðurstöður vísindarannsókna oft mörg ár að berast til almennings og það finnst mér vera of langur tími. Mér finnst líka að við vísindamenn mættum almennt vera duglegri að miðla þekkingu til almennings en ekki bara að tala hvert við annað um hlutina þannig að ég tók strax þann pól í hæðina að reyna að miðla minni þekkingu og vísindum áfram, segja helst ekki nei nei ef ég er beðin um að mæta í viðtöl og svo framvegis. Ég skrifaði bók um svefn, sem heitir einfaldlega Svefn og kom út hjá Forlaginu 2017, sem ég byrjaði á í doktorsnáminu og markmiðið var að koma frá mér þekkingu minni á aðgengilegu máli fyrir almenning. Ég fann það bara þegar ég byrjaði sjálf að viða að mér upplýsingum um svefn að það var mjög lítið til af íslensku efni um hann á mannamáli.“

Erla Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Svefnlaus dögum saman á meðgöngu 

Miðað við allt sem Erla kemst yfir að gera vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort hún sjálf hafi einhvern tíma til að sofa.

„Já, já, já, ég sef,“ segir hún skellihlæjandi. „Ég reyni að passa upp á að setja svefninn í forgang, maður verður alveg ómögulegur ef maður sefur ekki. Ég hef samt auðvitað upplifað andvökunætur eins og aðrir og gengið í gegnum þannig tímabil, sérstaklega á meðgöngum. Ég lenti í því með alla strákana mína að ganga með þá í fjörutíu og tvær vikur og þurfa að fara í gangsetningu. Það hefur virkað þannig að eftir fjörutíu vikna meðgöngu hætti ég bara að sofa og sef ekki dögum saman þannig að það hefur verið mjög erfiður tími og ég hef jafnvel verið lögð inn á sjúkrahús og verið gefin lyf til þess að sofa á þessum tímabilum. Ég þekki það því mjög vel að vera svona svakalega svefnlaus og skrifaði meðal annars blogg um þetta þegar ég var ólétt að yngsta syninum. Ég fékk mikil viðbrögð frá konum sem voru að upplifa það sama, þetta er greinilega hormónatengt og kemur líklega fram í mínu tilviki þegar líkaminn er tilbúinn að fæða barnið. Í kjölfarið hef ég stundum fengið til mín konur á stofuna sem hafa upplifað það sama og auðvitað verður fólk óttaslegið og líður illa þegar það missir svefn marga daga í röð, eins og ég þekki á eigin skinni eftir þessa reynslu.“

Talandi um viðbrögð frá konum, er einhver munur á svefnvandamálum milli kynja? Er algengara að konur sofi illa eða lítið en karlar?

„Já, það er það nefnilega,“ segir Erla. „Til dæmis benda rannsóknir til að konur þurfi að meðaltali örlítið lengri svefn en karlar. Við göngum í gegnum mörg krefjandi tímabil sem reyna á svefninn. Tíðahringurinn er eitt, það finna margar konur fyrir svefnerfiðleikum í kringum tíðir, svo eru það tíðahvörfin, barneignirnar, brjóstagjöfin, allar þessar hormónabreytingar sem tengjast þeim þáttum og hafa áhrif á svefninn hjá okkur. Rannsóknir benda til þess að svefnleysi sé algengara meðal kvenna, þótt það sé að sjálfsögðu algengt meðal karla líka. Ástæðan gæti verið hormónar, aukin streita eða það að við séum kannski stundum meira í því að ofhugsa hlutina. Erum lagstar á koddann og farnar að skipuleggja barnaafmæli sem á að vera eftir tvær vikur og svo framvegis. Ég er einmitt að skrifa bók núna um konur og svefn og mig langar að fara meira inn á þetta svið því ég held að það sé mjög margt sem við eigum eftir að rannsaka og skoða betur varðandi konur og svefn.“

Erla Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Seldi vistfólkinu á Grund ljóð 

Bókin um svefnvandamál kvenna er ekki eina bókin sem Erla er með í farvatninu, nýlega skrifaði hún undir samning við bókaútgáfuna Sölku um útgáfu á barnabók um svefn sem kemur út í haust. Er hún að skrifa margar bækur í einu?

„Konur og svefn er bók sem kemur ekki út fyrr en eftir mörg ár, það er mikil vinna að skrifa hana,“ segir Erla. „Barnabókin er skemmtilegt ævintýri með fræðsluívafi sem ég samdi í framhaldi af sögu sem við hjónin sögðum yngsta syni okkar um svefnfiðrildi. Hann var mjög áhugasamur og spurði mikið út í þetta og þá kviknaði hugmyndin að gefa þetta út. Það er svo mikilvægt að miðla þekkingu okkar til barnanna og þau eru náttúrlega eins og svampar sem taka svo ótrúlega vel við.“

Spurð hvort skriftirnar séu eitthvað sem hafi blundað í henni lengi segir Erla að hún hafi verið sískrifandi eiginlega síðan hún man eftir sér.

„Mér finnst mjög gaman að skrifa,“ segir hún. „Bæði að miðla þekkingunni en líka að skapa og skilja eitthvað eftir mig, það er eitthvað sem ég hef ótrúlega gaman af að gera. Ég hef gefið út dagbækur sem miða að markmiðasetningu og jákvæðri sálfræði og spil sem fær fólk til að líta inn á við og hugsa út fyrir kassann. Dagbækurnar og spilið vinn ég með Þóru Hrund Guðbrandsdóttur vinkonu minni undir merkjum Munum útgáfu. Mér finnst fátt skemmtilegra en að fá hugmyndir, hrinda þeim í framkvæmd og sjá afraksturinn. Bækurnar verða alltaf þarna og mér finnst það góð tilfinning. Ég var dugleg að skrifa sem barn og það eru til heilu ljóðabækurnar sem ég samdi á þeim árum, ég meira að segja skrifaði ljóð og seldi gamla fólkinu á Grund þau. Ég skrifaði líka skáldsögu sem krakki og var með upplestur einu sinni í viku á túninu á Grund, þannig að þetta byrjaði mjög snemma og foreldrar mínir eiga ágætis ljóðasafn eftir mig.“

Ertu enn að skrifa einhvern skáldskap, eða eru vísindin alveg búin að taka yfir?

„Já, vísindin eru að mestu búin að taka skriftirnar yfir,“ viðurkennir Erla. „En skáldskapurinn er samt aldrei langt undan. Barnabókin er til dæmis skáldskapur sem mér fannst ótrúlega skemmtilegt að skrifa og ég held ég eigi eftir að gera meira af því í framtíðinni.“

Erla Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Stærsti svefntengdi viðburður Íslandssögunnar 

Talandi um framtíðina, hvað er fram undan hjá Erlu á næstunni?

„Við erum að fara að halda stóra ráðstefnu um svefn í Hörpu núna í október. Erum að fá Matthew Walker, sem skrifaði Why We Sleep, til landsins. Sú bók hefur breytt heiminum þegar kemur að svefni. Hann náði augum og eyrum almennings og hann er líka að ná til allra kynslóða sem mér finnst mjög flott, hann er að ná unga fólkinu líka. Walker er orðinn mjög eftirsóttur fyrirlesari í kjölfar bókarinnar og við höfum verið lengi að vinna að því að fá hann til landsins. Það er loksins að gerast og við erum svo heppin að hafa dagsett ráðstefnuna í október þannig að COVID-ástandið ætti ekki að breyta neinu um það. Þessi ráðstefna er fyrir almenning og fyrirtækin í landinu og verður svaka viðburður. Auk erindis Walkers mun ég frumflytja erindið mitt um konur og svefn og er á fullu í þeim rannsóknum núna. Svo verða þarna fleiri frábærir fyrirlesarar, Erna Sif Arnardóttir og Erlingur Sigurður Jóhannsson og ég hlakka alveg ótrúlega til að halda þennan viðburð, sem ég held ég geti fullyrt að sé sá stærsti sem haldinn hefur verið á Íslandi varðandi svefn fyrir almenning.“

Það er augljóst að það er enginn skortur á verkefnum hjá Erlu, en hvert er langtímamarkmiðið, hvert stefnir hún í framtíðinni?

„Ég er með margar hugmyndir í maganum og aðalmarkmið mitt er að halda áfram að skapa,“ segir hún ákveðin. „Við Þóra Hrund erum að dreifa spilinu okkar, Út fyrir kassann, í búðir þessa dagana, við höldum áfram að gefa út og erum með fleiri nýjar vörur á teikniborðinu og ég er einnig með hugmyndir að fleiri bókum og öðrum spennandi verkefnum. Fyrst og fremst snýst þetta allt saman þó um að hafa gaman af því sem maður er að gera, vinnan mín er þannig að mér finnst ég aldrei vera að vinna því mér finnst hún oftast svo skemmtileg, þá er maður á réttum stað. Svo ætla ég að njóta lífsins með fjölskyldunni, það er auðvitað það sem lífið snýst um fyrst og fremst.“

Erla Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Förðun: Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -