Heilbrigt og glansandi hár fer aldrei út tísku, svo mikið er víst. Það er ýmislegt hægt að gera til að ná fram því eftirsóknarverða útliti. Við tókum saman nokkur góð ráð sem gott er að hafa í huga sé markmiðið að hafa hárið sem heilbrigðast.
Nokkrir dagar á milli þvotta
Það fer illa með hárið að þvo það á hverjum degi, tvisvar til þrisvar sinnum í viku er hæfilegt. Ef þér þykir það ekki nóg gæti verið að þú sért ekki að nota vörur sem hentar þinni hárgerð eða að nota of mikið af hárnæringu. Fagmenn á hárgreiðslustofum geta ráðlagt þér hvaða vörur henta þínu hári best.
Blautt hár er viðkvæmt hár
Eitt það versta sem þú gerir hárinu þínu er að þurrka það harkalega með handklæði. Hárið er viðkvæmast þegar það er blautt og í staðinn fyrir að nudda, dumpaðu hárið létt með handklæðinu eftir hárþvott. Þá er gott að hafa í huga að fara varlega með hárbursta í blautt hárið, heldur greiða í gegnum það með fingrunum eða grófri greiðu.
Líflaust hár?
Sértu að eiga við líflaust og flatt hár gæti ástæðan verið að þú notir of mikið af sápu eða ert ekki að skola hana nægilega vel úr hárinu. Það tekur um fjórar mínútur fyrir sápuna að skolast almennilega úr, svo við mælum með því að nota minna magn og skola þeim mun betur.
Silkikoddaver
Vaknarðu aðeins of oft af værum nætursvefni með slæman „hárdag“? Ef hárið er þurrt og tætt er ekki úr vegi að verða sér úti um silkikoddaver. Það fer mun betur með hárið auk þess sem það dregur í sig mun minna af ryki og öðrum óhreinindum en hefðbundin koddaver.
Höfuðnudd
Hver kannast ekki við augnablikið á hárgreiðslustofunni við vaskinn, þegar höfuðnuddið dásamlega hefst og þig langar að stöðva tímann. Ótrúlegt en satt þá eru þægindin ekki eina ástæðan fyrir þessu dekri, heldur hefur það örvandi áhrif á blóðflæðið í hársverðinum sem skilar sér í heilbrigðara hári og hraðari vexti. Þessa athöfn er vel hægt að framkvæma sjálfur heima, nú eða fá einhvern nákominn í verkið.
Hitavörn
Við vitum öll að hiti og notkun hitatækja fer ekki vel með hárið. Það er mjög mikilvægt að nota góðar vörur í hárið og undirbúa það fyrir notkun slíkra tækja og þar er hitavörn auðvitað efst á lista. Þegar hárið er þurrkað með hárblásara er gott að enda á köldum blæstri. Það hjálpar til við að loka hárinu eftir hitablásturinn og minnkar líkurnar á því að hárið verði úfið.
Lífsstíllinn
Fjöldinn allur er til að ýmiss konar hárvítamínum sem allir virðast vera að nota þessa dagana og eflaust eru góð og gild. En staðreyndin er sú að flest þessara bætiefna innihalda vítamín og steinefni sem auðvelt er að nálgast með því að neyta hollrar fæðu. Egg, lax, ýmiss konar ber, spínat, fræ og avókadó eru meðal þeirra fæðutegunda sem taldar eru hafa góð áhrif á bæði húð og hár.
Texti / Margrét Björk Jónsdóttir