Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Slímugur orðasnákur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikritið Tvískinnungur er sýnt um þessar mundir á Litla sviði Borgarleikhússins. Verkið er skrifað af Jóni Magnúsi Arnarssyni og lýsir persónulegri reynslu hans af heimi fíkniefna og eitraðra kynna.

Í upphafi sýningar hittast ungmenni í búningapartíi og fella hugi saman. Margir þekkja tilfinninguna að heillast af annarri manneskju og finna gagnkvæma hrifningu, maður verður ósigrandi. Það er því táknrænt að bæði klæðist ofurhetjubúningum en Járnmaðurinn og Svarta ekkjan eru erkifjendur og elskendur í senn. Sú tenging setur tóninn því verkið hverfist í kringum eitruð kynni elskendanna en bæði starfa sem sviðsmenn í leikhúsinu milli þess sem þau stíga sjálf á svið og segja sögu sína. Persónurnar leika með öðrum orðum sjálfa sig.

Rétt eins og titillinn gefur til kynna er textinn í mótsögn við sjálfan sig því tvær hliðar má ávallt finna á sama peningnum. Tvískinnungurinn á þó ekki aðeins við um handritið sem er bæði háfleygt og hversdagslegt heldur líka um ólíkar upplifanir parsins af sömu atburðarrás.

Handritið er afrek út af fyrir sig en verkið er að hluta til í bundu máli sem er sjaldséð form í íslensku leikhúsi. Jón Magnús Arnarsson, ljóðskáld og leikritahöfundur, gerir hér upp fortíð sína með óvenjulegum hætti. Þó að umfjöllunarefnið sé þungt í vöfum er textinn framreiddur af mikilli kómík. Spunakenndir orðaleikir sviðsmannanna marka jafnframt einn af hápunktum sýningarinnar þar sem þau ræddu hugsanlegar ástæður örlaga Rómeó og Júlíu forðum daga með nýstárlegum hætti.

Lýsing Þórðar Orra Péturssonar endurvarpaði innri líðan þeirra persóna sem stigu á svið hverju sinni. Hún er beinskeytt í senum sviðsmannanna og ágeng og óþægileg í leik ofurhetjanna. Óhætt er að segja leikstjóra verksins, Ólaf Egilsson, nýta Litla sviðið til fulls í uppsetningunni. Á miðju leiksviðinu sveiflast kaðall sem nýtist vel á margan hátt þar sem parið háir margsinnis sitt reiptog milli tælingar og tortímingar en kaðallinn minnir líka á köngulóarvef þar sem elskhugarnir ná sínum hæðstu hæðum með ótraust haldreipið að vopni.

Tvíræðni var því ekki aðeins að finna en í textanum heldur verkinu öllu. Marglaga flétta sem hefur persónurnar upp til skýja en steypir þeim svo niður aftur. Í hlutverkum sínum sem ofurhetjur virðast þau geta lagt heiminn að fótum sér, klædd litríkum pelsum og groddalegum grímubúningum en þegar víman er liðin hjá blasir raunveruleikinn við og leiðir þeirra verða að skilja. Sigríður Sunna Reynisdóttir á heiður af bæði leikmynd og búningum.

Eðlilega mæðir mest á leikurunum tveimur sem bera sýninguna uppi. Einlæg, sterk og textanum er komið skilmerkilega til skila sem og þörfinni fyrir að vera þráður, á þessum mælikvarða. Aflið til eyðileggingar kollvarpar hins vegar tilveru elskendanna tveggja sem ekkert vildu meira en að elska og eyðileggja, vera vondir en láta á sama tíma elska sig af öllu afli. Að vera hetja og heigull á sama tíma. Það er óhætt að mæla með Tvískinnungi fyrir alla þá sem sem hafa verið á valdi ástarinnar og kunna að meta orðasnilld íslenskrar tungu.

- Auglýsing -

Umfjöllunina má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Mynd / Grímur Bjarnason.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -