Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Slökunaraðferðir sem koma þér í jafnvægi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ef þú finnur fyrir mikilli streitu, líkamlegri spennu eða andlegu ójafnvægi geta ýmsar slökunaraðferðir hjálpað þér að komast aftur í jafnvægi og ná meiri vellíðan á sál og líkama.

Að vinna gegn áhrifum streitu og halda sér í góðu jafnvægi gerir öllum gott – því þegar manni líður vel er maður margfalt betri útgáfa af sjálfum sér og nær að vera betur til staðar bæði fyrir sjálfan sig og aðra.

Hugræn slökun

Eitt af því áhrifaríkasta til að ná innri ró og slökun er hugleiðsla. Það eru til ótal margar gerðir af hugleiðslu – núvitund, leidd hugleiðsla, kyrjun mantra og margt fleira, en fyrir þá sem hafa enga reynslu af slíku er núvitund mjög einföld og góð leið til að byrja á.

Núvitund snýst um að vera til staðar hér og nú og taka eftir því sem er að gerast hið innra. Maður situr með lokuð augun, er beinn í baki og einbeitir sér að önduninni. Alls konar hugsanir koma til manns, en maður sleppir tökunum á þeim jafnóðum og heldur áfram að einbeita sér að andardrættinum. Smám saman nær maður að slaka betur á og ná betri tengingu við tilfinningar sínar og sinn innsta kjarna.

Annað sem virkar mjög vel er „yoga nidra“ en það er leidd djúpslökun.  Gong-slökun er önnur dásamleg leið til að ná innri ró, þar sem maður liggur á meðan spilað er á hið hljómfagra gong.

ASMR-myndbönd á YouTube hafa náð gríðarlegum vinsældum út um allan heim og nýta milljónir manna sér þau til að ná slökun og auka vellíðan. Fyrir þá sem hafa ekki heyrt um ASMR er um að gera að finna vinsælt myndband á YouTube, setja heyrnartólin á sig og horfa/hlusta. Þú munt að öllum líkindum slaka vel á, fá gæsahúð, kraftmikinn hroll … og líklegast massívan kjánahroll með þessu öllu saman.

- Auglýsing -

Ilmkjarnaolíur

Ilmkjarnaolíur geta verið mjög öflugar til að hjálpa manni að slaka á, en ein algengasta olían til slökunar er lavender-olían. Það er hægt að setja nokkra dropa af henni út í vel heitt bað ásamt góðri olíu, slökkva ljósin, kveikja á nokkrum kertum og setja slakandi tónlist á. Svo er hægt að liggja í baðinu og nudda líkamann frá toppi til táar á meðan slakað er á og enda á að liggja í algerri slökun.

Fyrir þá sem eiga erfitt með að ná sér niður og sofna á kvöldin er mjög sniðugt að eiga blöndu af olíu og lavender-dropum sem notuð er til að nudda sig í smástund fyrir svefninn. Það er alveg nóg að nudda efri hluta líkamans og maður getur auðveldlega gert það sjálfur. Ef maður nennir því ekki getur maður líka sett nokkra dropa á líkamann og andað að sér ilminum, en fyrir þá sem vilja taka þetta alla leið er hægt að kaupa sér ilmolíulampa og setja nokkra dropa í hann þegar maður vill slaka á.

- Auglýsing -

Hreyfing og bætiefni

Flestir tengja kannski ekki hreyfingu við slökun, en staðreyndin er sú að hreyfing er ein besta leiðin til að vinna gegn streitu og ná að slaka almennilega á. Rólegar göngur, hlaup, jóga og sund eru allt frábærar leiðir til að hreyfa líkamann, en oft getur það veitt enn meiri slökun þegar hreyfingin fer fram utandyra í fallegri náttúru; því náttúran ein og sér býr yfir sérstökum heilunarmætti.

Til eru fullt af alls konar slakandi jurtum sem notaðar eru í te eða teblöndur, og er um að gera að nýta sér þær. Sítrónumelissa, kamilla, fennel og rauðrunni eru dæmi um jurtir sem hafa slakandi áhrif. Annað sem margir eru hrifnir af til að ná meiri slökun er magnesíumduft. Það er sett út í sjóðandi vatn og drukkið, til dæmis fyrir svefninn.

Texti / Fjóla María Bjarnadóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -