Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ævintýri, ferðalög og eitthvað matarkyns.

My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt.

Smámyndasmiðurinn eftir Jessie Burton
Þetta er ein þessara bóka sem smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni. Þegar hin sextán ára gamla Nella kemur til Amsterdam til að hefja nýtt líf sem gift kona eru móttökurnar ekki í neinu samræmi við það sem hún bjóst við. Eitthvað er á seyði í húsinu sem hún skilur ekki og það er erfitt að taka stjórnartaumana úr höndum systur eiginmanns hennar og þjónarnir eru ósvífnari en hún á að venjast. Eiginmaðurinn gefur henni skáp sem er eftirmynd hússins þeirra og þar fær hún frjálsar hendur með að innrétta. Nella leitar til smámyndasmiðs til þess en sá virðist vita meira um líf hennar en þægilegt er. Hver eru skilaboð smámyndasmiðsins, hver er hann og hvers vegna veit hann allt, eru spurningar sem Nella er neydd til að spyrja. Þessi bók er einstaklega vel skrifuð og sumar setningar svo meitlaðar að þær verður að lesa aftur og aftur. Hugsanlega á þýðandinn, Magnea J. Matthíasdóttir sinn þátt í því en að minnsta kosti er þetta bók sem unnendur fallegs stíls ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Falleg fantasía eftir Fredrik Backman
My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt. Amman hefur sagt því sögur um ævintýralönd, prinsessur, kónga, skugga og skepnur frá því barnið var lítið en eftir dauða hennar kemur í ljós að fantasíurnar áttu sér stoð í raunveruleikanum. Litla stúlkan, Elsa, er óvenju greind og fær það hlutverk að færa öllum í fjölbýlishúsinu þar sem hún býr bréf frá ömmu þar sem hún biðst fyrirgefningar. Amman var þó ekki völd að sorgum flestra íbúanna en bréfin hennar verða til þess að hægt verður að byrja að lækna gömul sár. Bókin er dásamleg blanda af ævintýrum og raunveruleika og einstaklega vel gerðar persónur setja sterkan svip á hana. Þessi bók hefur komið út á íslensku og heitir í þýðingunni Amma biður að heilsa.

Vegur vindsins eftir Ásu Marín
Afar skemmtileg ferðasaga um Elísu sem ákveður að ganga Jakobsveginn eftir að hafa fengið slæmar fréttir. Þrátt fyrir unga kærastann sinn og stressaða foreldra vill hún vera ein þessar vikur sem gangan tekur. Elísa kynnist skrautlegu fólki á leið sinni en lengst af gengur hún ein og kynnist sjálfri sér betur. Þetta er verulega skemmtileg bók og vel skrifuð, það er eins og lesandinn sé samferða Elísu og fari með henni í gegnum súrt og sætt. Fyrsta skáldsaga höfundar og vonandi ekki sú síðasta.

Ótrúleg saga Indverja … eftir Per J. Andersson
Sönn saga um Indverja sem elti ástina sína til Svíþjóðar. Þetta er ekki bara ferðasaga heldur lýsir hún vel hvernig er að fæðast inn í stétt hinna ósnertanlegu, eins og Píkei, söguhetjan. Hann fær að fara í skóla en ekki sitja í sömu stofu og krakkarnir, heldur úti á verönd. Við fæðingu sagði stjörnuspekingur þorpsins að hann myndi giftast konu frá öðru landi. Þegar hann hittir hina sænsku Lottu í Nýju Delí er hann orðinn þekktur götulistamaður og verður fullviss um að Lotta sé sú rétta. Verulega skemmtileg og fróðleg bók um ást sem sigrar allt.

Eitthvað ofan á brauð eftir Nönnu Rögnvaldardóttur
Nýjasta bókin hennar Nönnu er bráðsniðug, notadrjúg og gefur hugmyndir. Hversu leiðigjarnt er ekki að fá sér alltaf það sama ofan á brauðið sitt?
Salöt, sætmeti, sultur og paté, viðbit og mauk … það er allt þarna, meira að segja lemon curd. Hér eru góðar hugmyndir fyrir þá sem þurfa að taka með sér nesti eða smyrja fyrir börnin, halda saumaklúbb eða partí. Uppskriftir eru miðaðar við kjötætur, grænkera og allt þar á milli. Þetta er falleg bók sem Nanna myndskreytir sjálf og að vanda eru uppskriftirnar hennar einfaldar og aðgengilegar.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -