Hulda Vigdísardóttir vinnur á auglýsingastofunni Pipar/TBWA en hefur jafnframt starfað sem fyrirsæta í rúm sex ár, hér heima og erlendis. Hún þýddi einnig bókina Hnotubrjóturinn og músakóngurinn eftir E.T.A. Hoffmann sem nýlega kom út í fyrsta sinn í íslenskri þýðingu. Myndskreytingar í bókinni eru eftir listakonuna Margréti Reykdal. Hulda leyfði okkar að kíkja aðeins í fataskápinn sinn.
„Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á tungumálum og málvísindum en fyrir tveimur árum lauk ég M.A.-prófi í íslenskri málfræði. Eins hef ég gaman af ljósmyndun, skapandi skrifum og þýðingum. Ég myndi segja að fatastíllinn minn sé frekar afslappaður þótt mér finnist á sama tíma skemmtilegt að skera mig úr og koma fólki á óvart. Góð vinkona mín sagði eitt sinn að ég væri „snillingur í að taka mig til á stuttum tíma“ og ætli það sé ekki bara ágætis lýsing á mínum persónulega stíl. Hverju ég klæðist, veltur ansi mikið á hvernig skapi ég er í þá stundina en yfirleitt er ég þó með eitthvert skart á mér líka. Ég gæti verið í hettupeysu og gallabuxum í dag en síðkjól og pels á morgun. Sú flík sem hefur mesta tilfinningagildið er sennilega bleik ullarpeysa sem amma átti. Hún er ákaflega hlý fyrir kuldaskræfu eins og mig.“
Að hennar mati ættu allar konur að eiga fallegar látlausar og vandaðar svartar buxur sem ganga við öll tilefni. Síðan komi sér líka vel að eiga hlutlausa boli og flotta klúta í lit sem passa við allt.