Tónlistarkonan Karin Sveinsdóttir eða Young Karin eins og hún kýs að kalla sig leggur mikla áherslu á andlega heilsu og vellíðan. Hún lýsir fatastíl sínum sem rómantískum götustíl en leggur jafnframt mikið upp úr gæðum fatnaðarins.
Karin starfar sem verslunarstjóri í Spúútnik á Laugaveginum en kemur jafnframt fram sem söngkona undir nafninu Young Karin. Hún segir Hosbjerg kjól og hlýja prjónaða peysu efst á óskalistanum fyrir veturinn, helst í fallegum litum.
„Það er frekar erfitt að lýsa mínum persónulega fatastíl en það mætti segja hann sé götustíll með rómantísku ívafi. Ég geng mikið í vintage fötum en blanda þeim saman við einstakar nýjar flíkur. Ég reyni alltaf að kynna mér bakgrunn merkisins áður en ég fjárfesti í nýrri flík til þess að passa upp á að hún sé unnin við vottaðar aðstæður. Það er vissulega erfitt að sniðganga allt en að mínu mati ættu allir að tileinka sér þetta viðhorf og hætta að versla svokallað “fast fashion”. Sjálf versla ég mest í Spúútnik, Húrra og Aftur hér á Íslandi en annars versla ég mikið á Netinu. Machina A í London er líka mjög skemmtileg. Að mínu mati ættu allar konur að eiga hlýja yfirhöfn sem passar við allt í fataskápnum sínum sem og fallegan kjól.”
Það er frekar erfitt að lýsa mínum persónulega fatastíl en það mætti segja hann sé götustíll með rómantísku ívafi.
Þegar talið berst að þeim konum sem veiti Karin innblástur nefnir hún fyrst systur sína. „Ég hef alltaf litið upp til Irenu systur þegar kemur að því hvernig á að blanda saman fatnaði og vera frumleg. Blanca Miro,Gilda Ambrosio og Aleali May eru jafnframt þær konur sem ég fylgist hvað mest með enda eru þær alltaf flottar.”
Fullt nafn: Karin Sveinsdóttir.
Aldur: 22 ára.
Starfsheiti: Verslunarstjóri í Spúútnik og söngkona.
Maki: Guðmundur Magnússon.
Stjörnumerki: Ljón.
Áhugamál: Tíska, tónlist og leiklist.
Myndir / Unnur Magna