Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

„Sökin er mín“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég leyfði bæði móður minni og tengdamóður að ráða yfir mér og tók aldrei fulla ábyrgð á gjörðum mínum. Það átti eftir að hafa skelfilegar afleiðingar.

 

Ég varð yfir mig glöð þegar sonur minn kynntist ungri samstarfskonu sinni og giftist henni. Lífið hafði ekki verið honum auðvelt. Hann var bara sjö ára þegar ég skildi við pabba hans sem drakk mikið og beitti mig líkamlegu ofbeldi.

Á þeim árum var erfiðara en í dag að vera einstæð móðir. Ég varð að þola skítkast frá minni eigin móður og það var ekki til sá ógifti maður í nágrenninu sem hún reyndi ekki að fá til að giftast mér. Það endaði líka með því að ég giftist einum þeirra. Hvað gat ég gert? Ég hafði valið um að verða vinnukona hjá foreldrum mínum, blóraböggull móður minnar eða að koma mér í burtu.

Seinni maðurinn minn er yndislegur. Það eina sem setti strik í reikninginn var að við urðum að búa fyrstu fimm árin í risinu í hjá foreldrum hans og það tók vissulega á taugarnar. Sonur minn mátti þola fordóma tengdamóður minnar sem notaði hvert tækifæri til þess að kalla hann lausaleikskróga og gagnrýndi allt sem hann gerði.

Tannhvöss tengdamamma

Sonur minn átti því ekki náðuga daga og ég reyndi að bæta honum það með því að dekra við hann. Ég kvartaði oft við manninn minn yfir andlegu ofbeldi móður hans og hvernig hún kæmi fram við son minn en hann sagðist ekki vilja blanda sér í málið. Sjálfur skipti hann sér lítið af barninu og talaði lítið við hann. Það var eins og hann hefði ákveðið að láta sér lynda að hafa fengið barn í kaupbæti þegar hann giftist mér.

„Árin liðu, barnabörnin voru hraust en samt var eitthvað ekki alveg eins og það átti að vera.“

- Auglýsing -

Ég var orðin mjög slæm á taugum þegar við loksins fluttum í eigið húsnæði. Þá var sonur minn orðinn stór strákur og eftir að hafa lokið stúdentsprófi fór hann að vinna. Hann átti erfitt með að eignast vini og var satt að segja svolítið undarlegur í háttum. Hann hélt sig út af fyrir sig, sagði lítið, gerði það sem hann var beðinn um en átti aldrei frumkvæði að einu eða neinu. Sem betur fer gekk honum vel í vinnunni en ég var hrædd um það að hann myndi aldrei ná sér í konu. Það kom mér því þægilega á óvart þegar hann hringdi og spurði hvort hann mætti koma með vinkonu sína í mat til okkar.

Þannig kom þessi fallega unga kona inn í líf okkar. Það var eins og að eignast eigin dóttir og maðurinn minn kunni meira að segja vel við hana. Þegar þau giftu sig var hann flottur á því og gaf þeim fyrir innborgun í íbúð. Sonur minn fékk stöðuhækkun og fljótlega sögðu ungu hjónin okkur að þau ættu von á barni. Þau eignuðust dóttur og seinna kom sonur. Ég var yfir mig glöð og þakkaði Guði fyrir gleðina sem sonur minn fékk að njóta eftir alla erfiðleikana.

Árin liðu, barnabörnin voru hraust en samt var eitthvað ekki alveg eins og það átti að vera. Dótturdóttir mín var mjög lokuð og ég hugsaði oft með sjálfri mér að hún hefði ekki aðeins fengið útlitið hans pabba síns, hún væri líka með skapið hans.

- Auglýsing -

Mikið grátið

Sprengjan sprakk einn morguninn. Hvert smáatriði þessa dags er greypt í huga mér. Maðurinn minn hafði farið í göngutúr og ég var ein heima þegar síminn hringdi. Það var eins og ég skynjaði að ég ætti slæmar fréttir í vændum því ég stóð smástund fyrir framan símann áður en ég tók upp tólið.

Ég áttaði mig ekki strax á því að tengdadóttir mín væri í símanum því hún grét svo mikið. Ég reyndi að róa hana niður og segja mér hvað hefði gerst. Og smátt og smátt fékk ég það upp úr henni að sonur minn hefði verið tekinn til yfirheyrslu hjá lögreglunni, grunaður um að hafa misnotað fimmtán ára dóttur sína. Hún hafði brotnað saman í skólanum og sagt skólahjúkrunarfræðingnum allt af létta.

Ég varð bálreið og hugsaði með mér að þetta hlyti að vera hræðilegur misskilningur og hvort hægt væri að taka fimmtán ára ungling trúanlegan.

Spilin á borðið

Maðurinn minn kom að mér þar sem ég æddi bálreið um gólf. Hann róaði mig niður og heimtaði að við færum strax heim til tengdadóttur okkar. Þrátt fyrir áköf mótmæli mín vissi ég að hann hefði rétt fyrir sér.

Tengdadóttir mín var útgrátin og dótturdóttir mín sat í hnipri í sófanum. Ég fór að gráta um leið og ég sá þær. Ég uppgötvaði allt í einu að þetta væri ekki lygasaga. Að það væri sonur minn sem yrði skrifað um í blöðunum. Fréttin breiddist út eins og eldur í sinu og ég fór ekki úr húsi fyrstu vikuna. Síðan heimsótti ég son minn. Hann hafði fengið „veikindaleyfi“ úr vinnunni og faldi sig fyrir umheiminum í sumarbústaðnum okkar. Við sögðum ekki margt og þegar ég kvaddi var ég ekki margs vísari.

„Ég uppgötvaði allt í einu að þetta væri ekki lygasaga. Að það væri sonur minn sem yrði skrifað um í blöðunum.“

Ég hélt áfram að loka mig inni í sorg minni og skömm. En ég vissi að ég gæti ekki falið mig um alla eilífð og þegar þrjár vikur voru liðnar fór ég aftur í heimsókn til tengdadóttur minnar. Hún sagði mér að hún væri búin að hafa samband við lögfræðing sem ætlaði að sjá til þess að þau fengju lögskilnað eins og fljótt og hægt væri. Dóttir hennar væri í góðum höndum hjá sálfræðingi og henni væri strax farið að líða betur. Hún sagði jafnframt að við tvær yrðum að ræða um son minn.

Ég fékk margt að heyra þennan daginn. Að sonur minn bæri djúp sár eftir erfiða æsku, hann hefði saknað pabba síns og honum hefði liðið hræðilega árin sem við bjuggum hjá tengdaforeldrum mínum. Um það hvernig ég hefði gert lítið úr málunum í hvert sinn sem hann reyndi að tjá sig um hræðsluna og kvíðann og boðið honum upp á heitt súkkulaði í stað þess að takast á við tengdamóður mína.

Minningarnar streyma fram

Það var eins og lokið sem ég hafði lagt yfir æsku sonar míns þeyttist af með hvelli og minningarnar streymdu fram. Ég sagði tengdadóttur minni frá hræðilegu hjónabandi okkar foreldra hans, móður minni sem stjórnaði mér með harðri hendi og hafði, án minnar vitundar, tekið ákvörðun um að pabbi drengsins mætti ekki hafa samband við hann og hvernig ég hefði hvorki haft manndóm í mér né krafta til þess að mótmæla. Ég sagði henni frá deginum sem pabbi hans hafði komið til að heimsækja son sinn, þrátt fyrir bannið, og mömmu sem rak hann í burtu fyrir augunum á drengnum. Hvernig barnið hefði slitið sig úr fanginu á mér, kallað á eftir pabba sínum og beðið hann að bíða eftir sér. Það síðasta sem hann sá af pabba sínum var reykmökkurinn sem fylgdi bílnum. Nokkrum vikum síðar drukknaði pabbi hans í sjóslysi.

„Ég sveik son minn með því að taka ekki ábyrgð á lífi okkar og leyfa öðrum að ráða örlögum okkar.“

Tengdadóttir mín sagði mér að maðurinn hennar hefði geymt minningar um sterkan og traustan faðm pabba sín. Að hann myndi ekki eftir ofdrykkju og stöðugum ófriði, og þrátt fyrir alla gallana hefði honum þótt vænt um pabba sinn. Hún ákvað í samráði við sálfræðing að sonur minn yrði ekki kærður til þess að forða fjölskyldunni frá því að málið kæmi fyrir dómstólana. Mér finnst ég eiga mikla sök í þessum fjölskylduharmleik. Í dag erum við sonur minn í góðu sambandi og ræðum opinskátt um hlutina. Ég hef beðið hann um að fyrirgefa mér afskiptaleysi mitt og vanmáttinn gegn konunum tveimur sem ég leyfði að stjórna lífi mínu.

Dótturdóttur minni líður vel í dag. Hún mætir alls staðar velvild og það sama má segja um fyrrverandi tengdadóttur mína. Sjálf vil ég ekki fá hjálp. Ég ætla að lifa með samviskubitið og skömmina. Ég sveik son minn með því að taka ekki ábyrgð á lífi okkar og leyfa öðrum að ráða örlögum okkar. Sökin er mín.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -