Lífsreynslusaga úr Vikunni
Ég veiktist óvænt um þrítugt og um tíma var ekki vitað hvort ég lifði veikindin af. Það kom mér á óvart hve margir töldu sig vita hvernig ég ætti að ná bata. Það olli mér líka furðu hversu margt undarlegt var í boði þarna úti sem ekki var hægt að kalla hefðbundnar lækningar.
Skömmu áður en ég veiktist gekk ég í gegnum mjög erfiðan skilnað sem olli því að ónæmiskerfi mitt hrundi vegna álags. Líkaminn fór að ráðast á sjálfan sig og ég varð sífellt veikari. Ekki var vitað til að byrja með hvaða sjúkdómur þetta væri. Síðar kom í ljós að líklega hafði hann búið með mér og brotist út þegar varnir líkamans veiktust. Engar þekktar orsakir eru fyrir honum og lækning við honum hefur ekki fundist þrátt fyrir mikla leit.
Sagan um veikindi mín fór af stað þegar ég varð sjáanlega fötluð og þurfti að nota ýmis hjálpartæki. Mér versnaði hratt og fólkið í kringum mig óttaðist um líf mitt.
Vinkona mín þekkti mann sem taldi sig vera mikinn gúrú í andlega geiranum og tengdist óhefðbundnum lækningum. Í gegnum þessa vinkonu mína fékk ég skilaboð frá manninum, eða sjáandanum, um að ég hefði fengið í mig veiru af froskalöppum sem ég hefði borðað. Ég var tiltölulega nýkomin úr ferðalagi til lands sem á þeim tíma var ekki algengt að Íslendingar heimsæktu. Það var því kannski rökrétt að álykta að ég hefði gúffað í mig skrítnum mat en staðreyndin er sú að ég hafði aldrei á ævinni borðað froskalappir og hafði ekki í hyggju að gera það. Reyndar hafði ég borðað snigla sem þá þóttu ákaflega undarlegur matur.
Þessi maður vildi endilega hitta mig en ég svaraði þessum skilaboðum hans ekki og gaf honum aldrei færi á því að sýna mér hvernig maður sigrast á afleiðingum þess að hafa borðað eitraðar froskalappir …
Það voru ekki til þær tegundir af nuddi, dropum, kremum og sérstöku mataræði sem mér var ekki bent á. Læknirinn minn hafði sagt að ég mætti borða hvað sem væri því ég væri ekki með fæðuofnæmi og ég fór eftir því sem hann sagði. Ég hafði lifað heilbrigðu lífi, hvorki reykti né drakk, lifði mikið á fiski og grænmeti og hélt mínu striki.
„Þú verður að fara í áruþvott!“
Mér var boðið í hanastélsboð sem ég þáði þótt heilsa mín væri bágborin þá stundina, mér hafði versnað mikið á stuttum tíma og þurfti meðal annars að ganga við staf. Þegar ég gekk inn í stóra stofu kallaði einn „spámaðurinn“ upp yfir sig þegar hann sá mig: „Guð minn góður, hvenær ætlar þú að fara að gera eitthvað í þessu? Þú verður að minnsta kosti að fara í áruþvott!“ Þessi maður var einn þeirra sem reyndu af mikilli ákveðni að selja mér lækningu.
Góð vinkona sendi mér bók í jólagjöf en fram að því höfðum við reyndar ekki skipst á jólagjöfum. Bókin hét Get Well, var eftir einhvern doktor sem fræddi lesandann um það hvernig maður ætti að bjarga lífi sínu. Konan, þessi doktor sem skrifaði bókina, dó úr krabbameini ekki löngu eftir að bókin kom út.
Þetta fannst mér ekki rétt gjöf fyrir veika manneskju, aldrei myndi ég gefa fatlaðri manneskju nýja spelku eða nýjustu tegund af hjólastól. Ég kunni þó vel að meta hugann sem lá að baki.
Mér fannst umhverfi mitt nánast bilast eftir að ég veiktist. Það var eins og öllu raunsæi væri fleygt út um gluggann og ekkert var til sem hét æðruleysi. Fólki fannst að það yrði að gera eitthvað … í mínum málum.
Jú, ég prófaði sitt af hverju en bara til að friða velmeinandi vini mína, ekki af því að mig langaði til að eltast við þessa hluti. Mér lærðist þó smám saman að segja nei.
Ég prófaði gagnslausa handayfirlagningu hjá heilara, ég leyfði áhuganuddara að trampa á líkama mínum þótt ég sæi ekki tilganginn með því og ég fór í mjög sérkennilega nuddmeðferð sem sögð var hreinsandi fyrir líkamann. Nuddarinn ýtti einfaldlega á taugaenda þannig að ég fann tilfinningu eins og raflost sem átti mögulega að sanna fyrir mér að eitthvað gott væri í gangi. Mér leið ekkert betur á eftir og ég komst að því seinna að það gæti verið skaðlegt að ýta á taugaenda, þeir gætu marist. Þessi sami nuddari sagði við mig að ég væri eiginlega of aum til að þola svona nudd og í næsta nuddtíma mætti ég koma með ættingja minn með mér. Sá yrði nuddaður og árangurinn myndi færast yfir á mig, þar sem ég lægi á bekk við hliðina. Ég fór auðvitað ekki í næsta tíma en átti mjög erfitt með að halda andlitinu þegar nuddarinn sagði þetta af hjartans einlægni.
Stuðningshópurinn sem dó
Það sem ég tel geta bjargað fólki sem greinist með alvarlegan sjúkdóm er að fara ekki á taugum, heldur halda áfram að lifa heilbrigðu lífi og jafnvel, ef það getur, að framkvæma eitthvað sem það hefur lengi þráð. Ég gerði það og fór í draumanámið mitt. Hluti námsins fór fram í erlendri stórborg. Á meðan ég bjó þar versnaði mér mikið og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. Þá var búið að greina sjúkdóminn.
Ung kona, nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur, einstaklega samviskusöm og góð manneskja, kom að máli við mig og spurði mig hvort ég væri í sambandi við einhver samtök eða stuðningshóp sem styddi fólk með þennan sjúkdóm. Ég neitaði því og þá bauðst hún til að leita að slíkum hóp fyrir mig, sem ég þáði þakklát. Nokkrum dögum seinna kom hjúkrunarfræðingurinn og hafði fundið hópinn og bauðst til að hafa samband við hann fyrir mig. Síðan liðu nokkrir dagar og í næstu heimsókn var konan mjög vandræðaleg. Eftir góða stund stamaði hún því út úr sér að stjórn hópsins og allir meðlimirnir væru dánir … úr sjúkdómnum. Hún var svo miður sín og ég sá hana aldrei framar því hún forðaðist mig greinilega þann tíma sem ég lá á spítalanum. Mér fannst þetta ofboðslega súrrealískt og get enn grátið úr hlátri yfir þessu.
„Greinilega það sem þú vilt“
Eftir að ég kom heim aftur hélt ég áfram í lyfjakúrum sem ýttu við ónæmiskerfinu í mér. Það var eins og latur unglingur sem þurfti spark. Sterarnir sáu um það, ég tók stutta kúra til að ýta líkamanum í gang, vonaði að hann myndi halda áfram sjálfur og eftir nokkur ár tók hann við sér.
Viðskiptum mínum við sjáandann sem sagði að veikindi mín væru vegna eitraðra froskalappa, sem ég borðaði aldrei, var þó ekki alveg lokið. Við þekktumst ekkert en vissum hvort af öðru í gegnum annað fólk. Við rákumst óvænt hvort á annað en þá var ég fremur illa haldin, með spelkur á höndum og fótum og studdi mig við hækju. Hann horfði á mig og sagði svo: „Þetta er greinilega það sem þú vilt.“ Mér fannst þetta mjög ljótt af honum þótt hann væri móðgaður yfir því að ég vildi ekki nota þjónustu hans til að lækna mig.
„Hann horfði á mig og sagði svo: „Þetta er greinilega það sem þú vilt.“ Mér fannst þetta mjög ljótt af honum þótt hann væri móðgaður yfir því að ég vildi ekki nota þjónustu hans til að lækna mig.“
Hann var ekki eini freki gúrúinn sem ég rakst á en mér fannst einmitt gífurleg ýtni og frekja fylgja sumu af þessu fólki.
Ég hef verið lyfjalaus að mestu og laus við hjálpartæki í bráðum tuttugu ár. Ef ég hefði látið þennan sjáanda hoppa á mér, tekið eitthvað af þessum kraftaverkalyfjum, stundað þessi heilunarnudd eða áruþvotta, myndi þetta fólk vissulega þakka sér bata minn.
Hjálpsamir vinir voru kannski ýtnir og vildu gera mér greiða en þótt þeir vissu margt vissu þeir þó ekki mikið um líkamann. Á þeirri fáfræði byggja þessir sölumenn lífsins sem selja fólki vonina um lífið og betri heilsu.
Heilmiklir hagsmunir eru í húfi í þessum geira, þessu neðanjarðarhagkerfi með skattfrjálsar tekjur að stórum hluta. Og til landsins berast allskyns fokdýr lyf sem keypt eru erlendis frá og hafa ekki fengið vottun hér heima sem er áhyggjuefni. Þetta neðanjarðarkerfi er bara iðnaður sem byggir á hjátrú og trúgirni almennings.
Ég hef samt alls ekkert á móti náttúrulækningum þegar þær byggja á raunverulegri þekkingu og rannsóknum, og margt er byggt á gömlum náttúruvísindum. Ef ég fæ hálsbólgu og hósta fer ég í Jurtaapótekið og kaupi mér þar sérstaka jurtablöndu sem virkar mjög vel.
Þegar ég veiktist var mér kannski ekki beint sagt að ég myndi deyja fljótlega en mér voru heldur ekki gefnar miklar vonir. Ég ákvað að loka ekki augunum fyrir staðreyndum og neitaði að eyða öllum mínum kröftum og fjármunum í eitthvað sem mér fannst ólíklegt að kæmi mér að notum. Vissulega er máttur lyfleysu mikill en það er alveg eins hægt að taka vítamín. Peningunum mínum hefur verið miklu betur varið í að gera eitthvað skemmtilegt. Ég er handviss um að það hefði stytt líf mitt ef ég hefði rokið til og farið að eltast við allt þetta bull sem var í boði.
Eitt gott kom þó út úr þessu öllu saman. Ég komst að því að venjulegt nudd og sjúkranudd gerði og gerir mér enn mjög gott.