Breskir bókmenntaunnendur eiga vart orð til að lýsa hrifningu sinni á Refnum eftir Sólveigu Pálsdóttur. Bókin kom út í Bretlandi á dögunum í enskri þýðingu og er lofuð í hástert af gagnrýnendum.
„Ég er auðvitað húrrandi glöð! Það er ákaflega gaman að lesa svona vandaða og ígrundaða bókmenntagagnrýni,“ segir rithöfundurinn Sólveig Pálsdóttir, sem er í skýjunum um þessar mundir og með réttu því bók hennar Refurinn kom út á ensku í Bretlandi fyrir skemmstu og hefur fengið glimmrandi góða dóma. Einn gagnrýnandi segir bókina heillandi, á meðan annar hrósar höfundinum fyrir spennuþrungið verk og einstæða persónusköpun og gefur bókinni fullt hús stiga, eða fimm stjörnur.
„Það gleður mig sérstaklega hvað þau sem skrifa um bókina tengja vel við samfélagslega hlið verksins sem er „málleysið“ á milli menningarheima og ólíkra lífsviðhorfa en ekki síður hið sammannlega,“ nefnir Sólveig og bendir á að í bókinni sé saga persónunnar Sajee frá Sri Lanka á vissan hátt táknmynd fyrir þetta. „Já, og þeim finnst sagan hörkuspennandi, sem er auðvitað lykilatriði í glæpasögu,“ bætir hún við og kímir.
„Þeim finnst sagan hörkuspennandi, sem er auðvitað lykilatriði í glæpasögu.“
Þess utan virðast flestir sammála um að sögsviðið, Austurland, eigi þátt í því hversu vel heppnuð bókin er, en sagan gerist aðallega á Höfn og við Eystrahorn í Lóni. „Já, það höfðar greinilega mjög mikið til þeirra,“ segir Sólveig glöð. „Núna er meira að segja búið að búa til leiðarvísi fyrir túrista til að kanna söguslóðir bókarinnar, allt frá Reykjavík til Hornafjarðar. Það er auðvitað bara stórskemmtilegt,“ segir hún og hlær.
Svekkjandi að geta ekki fylgt bókinni eftir
Spurð hvernig sé að fá svona góðar viðtökur í Bretlandi segir Sólveig það vera afskaplega góða tilfinningu og hún finni fyrir miklu þakklæti. „Ég verð samt að viðurkenna að það er dálítið leiðinlegt að geta ekki fylgt bókinni eftir úti vegna COVID,“ játar hún. „Núna ætti ég til dæmis að vera nýkomin heim frá London og svo var meiningin að fara allt að þrisvar sinnum eftir áramót en svona er þetta,“ segir hún og brosir dauft.
Þetta er í fyrsta sinn sem Refurinn er gefin út á erlendum vettvangi en bókin kom út í Bretlandi sem rafbók í lok september. Sólveigu skilst að salan hafi gengið vel og að viðtökur lesenda séu góðar.
„Bretland hefur farið illa út úr heimsfaraldrinum og fólk hefur þurft að halda sig mikið heima. Þess vegna var ákveðið að gefa bókina fyrst út á rafrænu formi,“ segir hún, spurð af hverju sá háttur hafi verið hafður á. „En kiljan er rétt að koma út,“ flýtir hún sér að bæta við, „og henni verður dreift mjög fljótlega.“
Fleiri bækur gefnar út erlendis
Það er tiltölulega nýtt útgáfufyrirtæki, Corylus Books sem stendur að útgáfu Refsins, eða The Fox, í Bretlandi en Sólveig segir að það séu í eigu fjögurra aðila, sem eiga sameiginlegt að vera ástríðufullir bókaunnendur sem brenna fyrir því sem þau gera. „Einn eigenda er þýðandi Refsins, Quentin Bates. Hann er ekki bara frábær þýðandi heldur einnig rithöfundur,“ segir hún og kveður eflaust marga Íslendinga þekkja bækur hans, þar á meðal sögurnar um lögguna Gunnhildi Gísladóttur sem berst við undirheimalýð Reykjavíkur.
„Quentin hefur einnig þýtt bækur eftir Ragnar Jónasson, Lilju Sigurðardóttur og Einar Kárason,“ bendir hún á. „Núna er hann að þýða Fjötra eftir mig, eða Schacles eins og hún heitir á ensku. Hún kemur út á vegum sama forlags haustið 2021.“
Með mörg járn í eldinum
Það er auðheyrilega nóg að gera hjá Sólveigu því ný bresk þáttaröð sem byggir á Refnum er líka í vinnslu og sjötta og nýjasta bók hennar, Klettaborgin, var að koma út. Líkt og Refurinn sækir hún líka í Lónið í Austur-Skaftafellssýslu en að sögn Sólveigar er hún þó eins ólík þeirri bók og hugsast getur, enda ákvað glæpasagnahöfundurinn að söðla um og leita hófanna í allt annarri gerð sagna, endurminningabók.
„Klettaborgin geymir minningarsögur mínar frá fimm ára aldri og fram undir tvítugt en snertir líka á því sem gerist seinna í lífi mínu. Hún hefst þegar ég er fimm ára gömul á leið í sveit austur í Hraunkot í Lóni sem er í Austur-Skaftafellssýslu, í fylgd fólks sem ég hafði aldrei hitt, til að dveljast hjá fólki sem ég hafði aldrei séð. Ég var nýflutt til Íslands en pabbi minn starfaði í utanríkisþjónustunni. Ég fer fram og til baka í tíma en frásögnin spannar fyrst og fremst árin fram undir tvítugt eða þegar ég hef nám við Leiklistarskóla Íslands.“
Fjölmargar persónur koma við sögu í bókinni, fjölskylda Sólveigar, vinir og ýmsar þjóðþekktar persónur. „Svo sem Þórbergur Þórðarson, Sigurbjörn Einarsson biskup, Helgi Skúlason leikari, móðurafi minn Ásgeir Ásgeirsson forseti, fyrrverandi mágur minn sem er frá Indónesíu og kom til Íslands 1970, fólkið í Hraunkoti, fyrsti kærastann, kirkjukórinn í Lóni, kennarar í Melaskóla og Hagaskóla og fleiri,“ telur hún upp og brosir.
Spurð hvort hún sé nokkuð hætt að skrifa um glæpi, segir Sólveig nú aldeilis enga hættu á því. „Nei, það held ég alls ekki. Ég er núna með tvær hugmyndir í tölvunni, báðar á byrjunarstigi. Önnur er glæpasaga en hin er meira í ætt við Klettaborgina. Svo verður bara að koma í ljós hvor hefur vinninginn.“