Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Sólveig tók U-beygju í lífinu – Fann í hjartanu að þetta var rétt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rithöfundurinn Sólveig Pálsdóttir, sem hefur sent frá sér hverja æsispennandi glæpasöguna af annarri síðustu ár og hlotið góða dóma, var byrjuð á nýrri spennubók þegar kórónuveiran komst á flug. Faraldurinn hafði þau áhrif að Sólveig ákvað að venda kvæði sínu í kross og leita hófanna í allt annarri gerð sagna, endurminningabók, og úr varð Klettaborgin sem kemur út fyrir jól.

„Ég ákvað gefa sjálfri mér næði til að gera það sem ég fyndi í hjartanu að væri rétt. Leyfði mér að fylgja einfaldlega innsæinu en það hefur alltaf reynst mér best í lífinu,“ segir Sólveig um nýju bókina í samtali við Vikuna.

Klettaborgin heitir bókin og segist Sólveig vera langt komin með að klára hana. „Ég er á lokasprettinum. Er að fínpússa hana, bæta við og laga, velja myndir og fleira. Alveg dásamleg vinna og gefandi en það er eins gott að halda vel á spöðunum því Klettaborgin á að koma út núna fyrir jólin, annaðhvort í október eða í byrjun nóvember þannig að hún flýtur á fullum hraða inn í jólabókaflóðið,“ segir hún létt í bragði.

Varð til í upplausnarástandi

Bókin er sú sjötta sem Sólveig sendir frá sér, en fyrri bækur hennar eru allar í glæpasagnastíl og hafa fengið fínar viðtökur og góða dóma. Fyrir síðustu bók sína, Fjötra, hlaut Sólveig Blóðdropann 2020 en verðlaunin eru veitt ár hvert fyrir bestu íslensku glæpasögu undanfarins árs. Hvernig stóð á því að svona virtur og vinsæll glæpasagnahöfundur ákvað skyndilega að söðla um?

„Ég var reyndar byrjuð að skrifa nýja glæpasögu þegar brast á með COVID-19 faraldrinum,“ viðurkennir hún, „en mér gekk illa að einbeita mér við skrifin, þótt ég væri komin með söguramma. Ég bara fann mig ekki í því að vera að skálda upp flókin glæpaplott þegar heimurinn var allt í einu í fullkominni upplausn vegna ósýnilegrar veiru. Þannig að ég ákvað því að geyma hugmyndina að spennusögunni til betri tíma og tók mér tíma til að finna út hvað væri rétt.“

- Auglýsing -

Ótrúlegt persónugallerí

Sólveig segist ekki hafa farið að skrifa Klettaborgina fyrr en núna í mars en hún hafi skynjað um leið og hún byrjaði að hún var að gera það sem hún ætti að gera. Hún hafi líka fundið að bókin hafði búið lengi innra með henni.

Spurð hvort um sé ræða endurminningar eða hreinræktaða ævisögu segir hún að Klettaborg geymi minningarsögur sínar. „Hún hefst þegar ég er fimm ára gömul á leið í sveit austur í Hraunkot í Lóni sem er í Austur-Skaftafellssýslu. Ég var nýflutt til Íslands en pabbi minn starfaði í utanríkisþjónustunni. Ég fer fram og til baka í tíma en frásögnin spannar fyrst og fremst árin fram undir tvítugt eða þegar ég hef nám við Leiklistarskóla Íslands.“

„Ég fundið sterka þörf fyrir stöðugleika, kærleika og einfaldara líf.“

- Auglýsing -

Að sögn Sólveigar koma fjölmargar persónur við sögu í bókinni, fjölskylda hennar, vinir og ýmsir þjóðþekktir einstaklingar. „Svo sem fólkið mitt í sveitinni, foreldrar mínir og systkini, afi Ásgeir og amma Dóra á Bessastöðum en afi var forseti í sextán ár, Tryggvi Ófeigsson föðurafi og amma mín Herdís Ásgeirsdóttir, mágur minn frá Indónesíu, Vala móðursystir mín og maðurinn hennar Gunnar Thoroddsen, fyrsti kærastinn, kennarar og krakkar í Melaskóla, Björn skólastjóri í Hagaskóla, Þórbergur Þórðarson, Helgi Skúlason leikari, Sigurbjörn biskup og kirkjukórinn í sveitinni, Kvennalistinn, Alice Cooper, Stevie Wonder og fleiri. Bókin geymir minningarsögur mínar en fyrst og fremst er hún um dýrmætar manneskjur sem ég vil ekki að gleymist.“

Ekki hætt í glæpum

Sólveig tekur fram að þótt hún hafi fylgt innsæinu og tekið þessa U-beygju frá glæpasögunum sé ekki þar með sagt að hún sé hætt að skrifa þær. „Hreint ekki! Það er svo gaman að finna spennuna sem hríslast um mig þegar ég skrifa þannig texta en einmitt núna passa þessi skrif mér betur,“ útskýrir hún. „Ég er að kanna nýjar bókmenntaslóðir og það er gríðarlega spennandi. Það er bæði gaman að geta verið einlæg út frá eigin persónu og ekki síður að leyfa mér smáhúmor fyrir sjálfri mér og veröldinni,“ segir hún.

„Eins og ég segi þá eru þetta minningasögur mínar,“ heldur hún áfram, „og mér finnst að þær eigi erindi inn í nútímann í ljósi þess að við erum að endurskoða gildismat okkar. Að minnsta kosti hef ég fundið sterka þörf fyrir stöðugleika, kærleika og einfaldara líf.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -