Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Sonur minn getur ekki fyrirgefið mér: Maðurinn sem barði hann ekki kynfaðir hans

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Hafsteinn, eldri sonur minn, kom undir á skólaballi þegar ég var sautján ára. Við pabbi hans laumuðumst inn á skrifstofu og þar sáði hann fræi í frjóan svörð, eins og segir í Stuðmannalaginu. Hann gerði mér strax ljóst að hann vildi ekki barn og hvatti mig til að fara í þungunarrof.

Það gat ég ekki hugsað mér og ákvað því að eiga barnið. Pabbi og mamma sögðust styðja ákvörðun mína og að ég gæti búið hjá þeim þar til ég hefði lokið námi. Ég stefndi á krefjandi háskólanám, hafði ung gert mér grein fyrir hvað ég vildi læra. Þegar drengurinn fæddist var ég nýorðin átján ára og rétt marði að klára síðustu prófin um vorið. Ekkert hafði hins vegar búið mig undir þá miklu ábyrgð sem fylgir því að eiga barn og líklega gerir ekkert foreldri sér grein fyrir hversu mikil binding fylgir því hlutverki. Pabbi Hafsteins kom einu sinni til að sjá hann þegar hann var ungbarn og foreldrar hans færðu honum gjöf. Eftir það var sambandið mjög stopult og minnkaði fljótt niður í ekki neitt.

Pabbi og mamma brugðust hins vegar ekki en ég var einfaldlega of ung og vitlaus til að skilja hvað þau voru mér góð. Mér fannst þau stöðugt vera að gagnrýna mig og skipa mér að gera betur. Eftir að ég varð fullorðin geri ég mér hins vegar grein fyrir að þau voru að reyna að kenna mér að taka ábyrgð og vera góð mamma. Ég lauk stúdentsprófi á réttum tíma og innritaði mig í draumanámið í háskólanum um haustið. Mig dreymdi um að flytja að heiman og vera laus við nöldur foreldra minna.

Flutti til kærastans

Um veturinn kynntist ég Jóa. Hann var nokkrum árum eldri en ég, iðnmenntaður og átti litla íbúð. Mér fannst ég hafa himin höndum tekið. Ég ímyndaði mér að hann væri góður við Hafstein en þegar ég hugsa til baka veit ég að hann var mjög afskiptalaus, í raun var eins og barnið væri ekki til. Alltaf þegar við töluðum um drauma okkar og gerðum áætlanir var aldrei gert ráð fyrir barninu. Ég kaus að horfa fram hjá því. Við mæðginin fluttum fljótt til Jóa og til að byrja með fannst mér frelsið yndislegt en fljótlega áttaði ég mig á að allt var mun erfiðara en áður. Ég varð að sjá algjörlega ein um Hafstein og heimilið. Jói kom mjög lítið nálægt þrifum, eldaði aldrei og skipti sér ekkert af þvottum eða umönnun drengsins. Ég leitaði oft hjálpar hjá mömmu og fékk að vera þar á daginn að lesa og þegar ég var í prófum tók hún Hafstein algjörlega til sín.

- Auglýsing -

Með hennar hjálp tókst mér að klára fyrstu þrjú árin af háskólanáminu, ekki með neinum glæsieinkunum en þolanlegum árangri. Til þess að öðlast full réttindi í því fagi sem ég hafði valið mér var hins vegar nauðsynlegt að klára fimm ár. Um haustið þegar ég hafði nýhafið viðleitni til að ná meistaragráðu uppgötvaði ég að ég var aftur orðin ófrísk. Þrátt fyrir að mamma hans væri með lykkjuna hafði Alla mínum tekist að verða til og laumast fram hjá getnaðarvörninni. Þessi meðganga var mjög ólík hinni fyrri. Ég var mikið veik og fékk alla kvilla sem hægt er að hugsa sér, kastaði stöðugt upp í þrjá mánuði, af og til næstu þrjá, fékk brjóstsviða, hausverk og var sífellt þreytt. Jólaprófin voru léleg og þegar drengurinn kom í heiminn þremur vikum fyrir tímann vissi ég að ekki þýddi neitt að reyna við vorprófin.

Jói hvatti mig til að hætta þessu námsveseni og einbeita mér að uppeldi strákanna. Hann hafði þá nýlega stofnað fyrirtæki með bróður sínum og vildi leggja allt í að það gengi sem best. Hann sannfærði mig um að með því að vera heimavinnandi gæti ég stutt hann og fyrirtækið kæmist hraðar á laggirnar. Þegar það verkefni væri búið gæti ég tekið þráðinn upp aftur enda strákarnir þá eldri. Ég samþykkti þetta og næstu árin var ég að mestu heimavinnandi, vann þó af og til með þeim bræðrum þegar stór verkefni voru og ég sá um að taka símann, bóka þá og sinna bókhaldi. Fyrirtækið gekk vel og við keyptum nýja og stærri íbúð og seinna hús. Þá hafði dóttir bæst í barnahópinn.

„Það var þá sem ég fór að taka meira eftir því að Jói var leiðinlegur við Hafstein. Hann gerði mikinn mun á honum og börnunum sínum.“

Stjúpinn ekki góður við barnið

- Auglýsing -

Það var þá sem ég fór að taka meira eftir því að Jói var leiðinlegur við Hafstein. Hann gerði mikinn mun á honum og börnunum sínum. Alli og Inga fengu hjól þegar þau voru lítil en Hafsteinn hefði ekki fengið neitt ef mamma og pabbi hefðu ekki komið með eitt slíkt handa honum þegar systkini hans bæði voru farin að hjóla. Strákarnir fóru báðir í íþróttir og Jói fylgdist vel með öllu sem gerðist hjá Alla en sýndi engan áhuga þegar eitthvað var að gerast hjá Hafsteini. Hann tuðaði oft ef ég keypti eitthvað handa elsta syninum á heimilinu en allt var sjálfsagt ef hin yngri voru annars vegar.

Mér fannst þetta mjög leiðinlegt og talaði oft um það við hann. Þegar Hafsteinn varð níu ára gerði ég mér grein fyrir að hann hélt að Jói væri kynfaðir hans. Ég hafði boðað allan bekkinn í afmæli og það var mikið fjör á heimilinu. Þetta var um helgi og einhver strákanna spurði Hafstein: „Hvar er pabbi þinn?“ Og hann svaraði: „Í vinnunni.“ Jói hafði sagst þurfa að vinna til að sleppa við að vera viðstaddur veisluna og eitthvað í því hvernig barnið sagði þetta sannfærði mig um að hann vissi ekki að hann ætti annan föður. Ég gerði mér jafnframt grein fyrir að ég hafði aldrei talað um það við hann og ekki sagt honum skýrt og greinilega hvernig hlutnum væri háttað.

Ég lofaði sjálfri mér að ég ætlaði að gera það sem allra fyrst en einhvern veginn leið og beið og mér fannst ég aldrei hitta á eða finna akkúrat rétta tímann. Hafsteinn var tólf ára þegar ég komst að því að Jói var ekki bara leiðinlegur við hann heldur beinlínis vondur. Ég þráði alltaf að klára námið mitt. Inga var komin á leikskóla, Alli í öðrum bekk í skóla og Hafsteinn orðinn svona stór. Ég athugaði möguleikana og jú, gamla byrjunarprófið mitt gilti. Ég gat tekið meistaragráðuna án þess að taka allt hitt upp.

Kölluð á fund í skólanum

Um haustið byrjaði ég í skóla og það varð að samkomulagi milli okkar Jóa að hann sækti Ingu á daginn og væri með krökkunum þar til ég kæmi heim um kvöldmatarleytið. Þá gat hann farið aftur í vinnuna eða fengið frí ef það hentaði. Þetta gekk ágætlega og ef satt skal segja var ég svo upptekin af því að vera loksins komin í þá stöðu að geta látið drauma mína rætast að ég áttaði mig ekkert á hvað var í gangi heima hjá mér. Það var ekki fyrr en umsjónarkennari Hafsteins hringdi í mig og boðaði mig á fund að ég hrökk í gírinn. Hann sagði mér að Hafsteinn hefði breyst mikið, væri árásargjarn, óþekkur og hættur að geta einbeitt sér. Kennararnir hefðu líka tekið eftir marblettum á handleggjum hans og leikfimikennarinn séð að hann var marinn á skrokknum líka. Hafsteinn hafði ekki viljað gefa skýringu á þessu en þegar hjúkrunarfræðingur gekk á hann játaði hann að pabbi hans hefði slegið hann og gripið um handleggi hans og hrist hann.

Þetta var gríðarlegt áfall. Ég bókstaflega trúði þessu ekki fyrst en þegar ég settist út í bíl eftir fundinn, nötraði ég og skalf og ég gerði mér grein fyrir að innst inni hafði ég alltaf vitað þetta, að Jói þoldi ekki Hafstein og í raun hafði hann beitt hann andlegu ofbeldi lengi. Kallað hann aumingja, ræfil og asna þegar hann skammaði hann sem var ansi oft. Það var fátt sem drengurinn gerði sem ekki fór í taugarnar á Jóa. Ég fór heim og pakkaði niður fötunum mínum og barnanna og flutti með þau til mömmu og pabba meðan við Jói gengum frá skilnaði okkar og eignaskiptum.

„Það var svo loksins þarna að ég hafði manndóm í mér til að segja Hafsteini að hann ætti annan föður, að maðurinn sem hafði barið hann væri ekki kynfaðir hans. Drengurinn varð í senn reiður og glaður.“

Það var svo loksins þarna að ég hafði manndóm í mér til að segja Hafsteini að hann ætti annan föður, að maðurinn sem hafði barið hann væri ekki kynfaðir hans. Drengurinn varð í senn reiður og glaður. Hann bað mig að hafa samband við föðurfjölskylduna og nú voru þau tilbúin að kynnast honum og sinna. Hann og pabbi hans náðu vel saman og eru líkir að mjög mörgu leyti. Enn hefur Hafsteinn hins vegar ekki fyrirgefið mér. Nú, þegar við erum farin, hefur fyrrum stjúpfaðir hans sýnt honum meiri virðingu og hlýju en nokkru sinni áður. Þeir geta talað saman en Hafsteinn kennir mér um allt það vonda sem gerðist. Hann álítur að ef ég hefði sagt sannleikann og leyft honum að umgangast pabba sinn eðlilega hefði allt verið öðruvísi í æsku hans. Ég hef reynt að vera honum góð og vona að fljótlega geri hann sér ljóst að málið er ekki alveg svo einfalt.

Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur í Vikunni. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -