Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Spennandi grænmetis- og vegan-matreiðslubækur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á undanförnum árum hafa komið út fjölmargar spennandi bækur helgaðar grænmeti og plöntufæði. Hér kemur listi yfir nokkrar grænmetis- og vegan-matreiðslubækur, sumar eru alveg vegan á meðan aðrar eru það ekki, það má þó yfirleitt gera uppskriftirnar vegan með dálítilli hagræðingu. Fullkomin samantekt fyrir þá sem taka þátt í Veganúar.

 

Ómótstæðileg Ella – Ella Mills

Ella Mills er ein skærasta stjarna Bretlands á sviði matargerðar. Fyrsta bók hennar, Ómótstæðileg Ella, sló í gegn þegar hún kom út árið 2015 og hefur nú verið gefin út í 20 löndum. Einfaldar og ljúffengar plöntuuppskriftir, jafnt fyrir þá sem eru vegan, þá sem eru með glúten- og mjólkuróþol og alla þá sem vilja góða orku og jafnan blóðsykur.

Ómótstæðileg Ella – Ella Mills.

Eldhús grænkerans – Hanna H. Bjarnadóttir, Katrín R. Bessadóttir og Rut Sigurðardóttir

Eldhús grænkerans er fyrsta íslenska matreiðslubók sinnar tegundar og inniheldur um 120 uppskriftir að ljúffengum grænmetisréttum fyrir öll tilefni. Réttirnir henta öllum og bókin er tilvalin fyrir þau sem vilja auka vægi grænmetisrétta á matarborði fjölskyldunnar. Í bókinni er sérstakur kafli um vegan-hráefni og flesta réttina má gera vegan á einfaldan hátt.

Eldhús grænkerans – Hanna H. Bjarnadóttir, Katrín R. Bessadóttir og Rut Sigurðardóttir.

Veganomicon – Isa Moskowitz og Terry Romero

- Auglýsing -

Þessi bók fagnaði tíu ára afmæli árið 2017 og því var sérstök afmælisútgáfa gefin út. Höfundarnir bættu við tuttugu og fimm nýjum uppskriftum ásamt því að uppfæra bókina í heild. Í bókinni eru yfir tvö hundruð og fimmtíu uppskriftir að vegan-máltíðum fyrir öll tilefni. Einn helsti kostur bókarinnar er sá að hún býður upp á fjölmargar sojalausar uppskriftir en oft á tíðum virðast í vegan-uppskriftum vera reitt sig of mikið á sojabaunaafurðir.

Veganomicon – Isa Moskowitz og Terry Romero

Vegan Street Food – Jackie Kearny

Jackie, höfundur bókarinnar, ferðaðist ásamt fjölskyldu sinni um Asíu og smakkaði vegan-götumat í Indónesíu, Sri Lanka, Taílandi, Víetnam og Malasíu. Hún punktaði hjá sér uppskriftahugmyndir á servíettur og annað tiltækt svo þegar hún snéri aftur heim ákvað hún að gera úr þeim þessa bók sem er einnig stútfull af skemmtilegum ferðasögum og ævintýrum.

- Auglýsing -
Vegan Street Food – Jackie Kearny.

A Modern Cook‘s Year – Anna Jones

Frábær bók sem auðveldar okkur að njóta grænmetis allan ársins hring. Bókin skiptist í sex árstíðir og lögð er áhersla á að nýta árstíðabundna uppskeru. Uppskriftirnar eru yfir tvö hundruð og eiga það allar sameiginlegt að vera framúrstefnulegar, framandi og freistandi. Þó að meirihluti uppskriftanna sé vegan eru einhverjar sem innihalda mjólkurvörur en þá er auðvelt að skipta þeim út fyrir viðeigandi vegan-vöru. Ótrúlega falleg og áhugaverð matreiðslubók sem allir ættu að eiga. Fæst á amazon.co.uk.

A Modern Cook‘s Year – Anna Jones.

Keep it Vegan – Áine Carlin 

Áine Carlin er höfundur hins vinsæla vegan-bloggs Pea Soup Eats. Með þessari bók vildi hún uppræta þann algenga misskilning að vegan-eldamennska sé allt of flókin og full af illfáanlegu hráefni. Í bókinni er að finna hundrað afar einfaldar og fljótlegar uppskriftir fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í vegan-mataræði sem og reyndari veganista. Fæst á amazon.co.uk.

Keep it Vegan – Áine Carlin.

Forks Over Knives – Gene Stone

Hér er á ferðinni bók sem fylgir hinni gríðarvinsælu heimildamynd Forks Over Knives. Tveir af hverjum þremur Bandaríkjamönnum eru í yfirþyngd og lífsstílssjúkdómar á borð við sykursýki II, hjarta- og æðasjúkdóma og fleiri aukast stöðugt. Teymið á bak við myndina og þessa bók heldur því fram að hægt sé að snúa þessari þróun við með því að hætta einfaldlega að borða kjöt og dýraafurðir. Auk uppskrifta er að finna gríðarmikinn fróðleik og rannsóknir sem sýna ávinning þessa mataræðis. Fæst á amazon.com.

Forks Over Knives – Gene Stone.

Oh She Glows – Angela Liddon

Bloggarinn Angela Liddon er sjálflærður kokkur sem hefur varið mörgum árum í að tileinka sér plöntumataræði og deilt gómsætum uppskriftum á blogginu sínu. Hún hafði lengi glímt við áströskun en ákvað dag einn að snúa við blaðinu og endurheimta heilsuna. Hún skipti hitaeiningasnauðu og unnu matvörunni út fyrir næringarríkt grænmeti, hnetur, ávexti, korn og fleira – og viti menn, heilsa og orka hennar jókst til muna. Nú hefur hún gefið út matreiðslubók með sínum uppáhaldsuppskriftum sem hefur notið gríðarlegra vinsælda og komst á New York Bestseller-listann. Fæst á amazon.com.

Oh She Glows – Angela Liddon.

Modern Vegan Baking – Gretchen Price

Lengi var erfitt að gera bakstur vegan en veganistar hafa fundið alls kyns sniðugar lausnir og hráefni sem geta komið í staðinn fyrir egg, smjör, hunang og svo framvegis. Þessi bók safnar saman öllum þessum lausnum og notar þær í ljúffengar uppskriftir sem ættu að gleðja alla sælkera, hvort sem þeir eru vegan eða ekki. Bæði er að finna sætar kökur og ósæt kex og brauð en alls eru yfir hundrað og tuttugu uppskriftir. Fæst á amazon.com.

Modern Vegan Baking – Gretchen Price

Samantekt / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -