Lífsreynslusaga úr Vikunni
Þegar ég sá Gunnar í fyrsta skipti á nýja vinnustaðnum mínum var ég ákveðin í næla í hann og gera hann að mínum. Ég var einhleyp og hafði engu að tapa. Ég sé það núna að þetta voru ein mestu mistök í mínum ástamálum. Að falla fyrir giftum manni í vinnunni. Þó að ég hafi síðar komist að breyttum aðstæðum hans, var ég svo vitlaus að hlusta ekki á orð hans og taka mark á hans tilfinningum. Ég veit núna hvað ég gerði rangt.
Ég var rétt búin að halda upp á 25 ára afmælið mitt með pompi og prakt þegar ég byrjaði að vinna í markaðsdeildinni í bankanum. Langþráður draumur var að rætast og ekki nóg með það, heldur var ég líka nýútskrifuð úr markaðsfræði frá Háskóla Íslands, þar sem ég nældi mér í fyrstu einkunn, þá bestu! Já, það var sko klappað fyrir mér þegar nafn mitt var lesið upp á sviðinu í útskriftinni í sjóðheitri Laugardalshöllinni í sumarbyrjun. Ég hefði varla getað verið stoltari af sjálfri mér. Satt að segja fannst mér leiðinlegast að það var enginn kærasti, enginn karlmaður í mínu lífi sem tók stoltur á móti mér með kossi þegar ég kom niður af sviðinu. En ég var orðin vön því að upplifa svona hluti í faðmi fjölskyldunnar.
Ég var búin að vera einhleyp í nokkur ár. Hafði þó farið á nokkur stefnumót sem skildu lítið eftir. Frekar mikil tímasóun að eyða kvöldstund með manni sem maður veit um leið og augu manns líta á hann að hann er ekki sá rétti. Þá hefði ég alveg eins getað verið heima og horft á Grey’s undir teppi í sófanum. Ég var dugleg á Netinu, var ekki feimin við að „adda“ og „póka“ á Facebook og þegar bekkjarsystir mín sýndi mér Taggalicious kynntist ég nokkrum strákum þar. En ekkert lá þar að baki annað en yfirborðskennt spjall sem alltaf fór út í vitleysu.
„Mig langaði í snertingu, að finna góða rakspíralykt og horfa í augu á góðum manni með ástarglampa í augum…“
Ég satt að segja var orðin leið á veruleikafirrtri ást á Netinu. Ég var einmana. Mig langaði í snertingu, að finna góða rakspíralykt og horfa í augu á góðum manni með ástarglampa í augum, ekki í gegnum tölvuskjá! Ég bjó ein í töff íbúð í 107 og fannst að nú væri minn tími kominn. Nýútskrifuð, ný vinna. Ég var á uppleið! Flestallar vinkonur mínar voru nánast harðgiftar frábærum mönnum sem báru þær á örmum sér og tilbáðu. Mig var farið að hungra í svoleiðis.
Ég hlakkaði því til að fara að vinna á mannmörgum vinnustað þar sem væru mögulega álitlegir kandídatar fyrir mig að skoða. Og þar var einn sem stal athygli minni. Gunnar.
Auðvitað var hann giftur!
Mér var tekið opnum örmum af stelpnahópi á mínum aldri í vinnunni þegar ég byrjaði og við borðuðum saman í mötuneytinu í hádeginu. Þetta byrjaði vel. Ég var komin inn í fína klíku sem var frábært á svona stórum vinnustað. Einn daginn mætti Gunnar til starfa eftir veikindafríi vegna íþróttameiðsla. Hann vann í deildinni minni og sat við skrifborð sjö metrum hjá mínu og var í beinni sjónlínu við mig. Einbeitingin hjá mér hvarf eins og dögg fyrir sólu um leið og hann mætti. Vá, hvað hann var fallegur! Hár og myndarlegur, íþróttamannslega vaxinn með ótrúlega blá augu. Hann var eins og skapaður fyrir mig!
Það fyrsta sem ég gerði þann dag þegar ég kom heim var að finna hann á Facebook. Ég var búin að hlakka allan daginn til þess. En viti menn, auðvitað var hann giftur! Ég skoðaði myndir af honum í útilegu þar sem hann var í hamingjukasti með lítilli og grannri konu, tveimur stálpuðum strákum sem augljóslega voru synir hans og stórum labrador-hundi. Opna pakka á jólunum. Drekkandi kokteil á strönd á Spáni. Gat nú verið!
Kjáninn ég hélt samt áfram að horfa á hann í vinnunni næstu vikurnar þegar tækifæri gafst. Ég gat ekki hætt að hugsa um hann. Mér fannst hann líka horfa til mín stundum og brosa. Æi, hvað átti ég að hugsa? Auðvitað átti ég að fara eftir því sem ég las í Vikunni fyrr á árinu: Ekki skíta þar sem þú étur. En það er alltaf hægt að vera vitur eftir á.
Fann neista á milli okkar
Ég var komin í níðþröngan, svartan sparikjól, í himinháa rauða hæla og dökka, síða hárið mitt varð Carmen-rúllum að bráð í tilefni kvöldsins. Ég var búin að taka vel á því í ræktinni og leit vel út.
Það var kominn október og ég var á leið á vetrarfagnað með vinnunni. Ég var búin að ákveða að ég ætlaði að tala við Gunnar um eitthvað annað en vinnutengt og heilla hann upp úr skónum. Ég vissi alveg að hann væri giftur og allt það. Öll skynsemi í mínum heila var rokin út í veður og vind. Þegar mig langaði í eitthvað, þá vildi ég fá það. Ég var orðin leið á að vera hrifin af honum úr fjarlægð. Við fórum fyrst í partí til yfirmanneskju okkar sem bjó í risastóru einbýlishúsi á Kjalarnesi. Hjartað í mér tók kipp þegar Gunnar mætti. Einn.
Ég skvetti í mig einu skoti ofan í nokkra kokteila og lagði til atlögu. Hann var ótrúlega ánægður að sjá mig. Ég bara vissi það. Hann er þessi feimna týpa. Fer voða lítið fyrir honum. Mér finnst það sjarmerandi. Hann var ólíkur öllum þessum Facebook-montrössum. Við töluðum heillengi saman, bara við tvö úti í horni. Ég fann neistann á milli okkar. Ekki leið á löngu þar til partíið var búið og stemningin á okkur Gunnari var þannig að við myndum fara samferða á skemmtistaðinn þar sem veislan átti að vera.
Við vorum orðin ágætlega hífuð og byrjuð að hella í glösin hvort fyrir annað. Við höguðum því þannig að við færum tvö ein í leigubíl. Vínið opnaði mig fyrir að segja honum sannleikann hvað mér þætti hann æðislegur. Á miðri akrein á Miklubrautinni sagði hann mér fréttir ofan í diskólag í útvarpinu. Hann væri að skilja við konuna sína.
Koss eftir krassandi fréttir
Mér leið á því augnabliki eins og að nú væri búið að bænheyra mig. Maðurinn sem ég var bálskotinn í var á lausu eftir allt saman. Auðvitað fyrir mig! Við kysstumst ástríðufullum kossi í leigubílnum. Ég var gjörsamlega í sjöunda himni. Við létum á engu bera fyrir framan vinnufélagana á Rúbín en undir niðri kraumaði löngun í hvort annað.
Við stöldruðum ekki lengi við í gleðskapnum. Við fórum heim til mín og kynntumst betur. Allt sem ég vildi segja og gera hafði ég loksins tækifæri til. Auðvitað lét ég varnarorð hans um að hann væri sko alls ekki á leiðinni í samband í nánustu framtíð, eftir 17 ára hjónaband, sem vind um eyru þjóta. Hann var minn! Það var vandræðalegt að sjá hann á næsta vinnudegi.
„Mér leið á því augnabliki eins og að nú væri búið að bænheyra mig. Maðurinn sem ég var bálskotin í var á lausu eftir allt saman.“
Dagarnir liðu og við töluðum ekkert saman um það sem gerðist. Brostum bara hvort til annars yfir þessa sjö metra. Ég var orðin svo hrifin að þegar ég keyrði í vinnuna skalf ég af spennu og hjartað í mér nánast snerti stýrið þegar það pumpaði. Á endanum varð ég að rjúfa þögnina. Þetta var orðið svo óþægilegt. Ég þakkaði honum fyrir síðast og hann, feiminn sem endranær, sagði að þetta hefði verið æðislegt. Ég skalf svo mikið að ég vissi ekki hvað ég átti að segja.
En þar sem við vorum að vinna saman var ég róleg og vissi að ég átti eftir að hitta hann aftur daginn eftir, og næsta og næsta. Ég vildi að það hefði verið svona gott eins og það hljómaði.
Spennan varð að vítahring
Næstu vikur voru tóm sæla. Augngotur hvort til annars í laumi frá skrifborðunum, sjóðheitar SMS-sendingar, tölvupóstar. Við höguðum því eins oft og við gátum þannig að við færum samferða upp í mötuneytið í lyftunni. Bara tvö ein. Þær 20 sekúndur voru okkar paradís á meðan lyftan fór á milli hæða og þeir kossar sem við áttum þar áttu eftir að endast út allan daginn. Þvílík spenna!
Allt í einu var ég farin að hunsa stelpurnar og sitja hjá honum. Ég fann að þær voru farnar að líta mig hornauga. En ég lét það ekkert á mig fá. Þetta leynilega samband okkar Gunnars einskorðaðist nánast eingöngu við vinnuna. Hann bjó langt frá höfuðborginni og var í öðru starfi þar eftir vinnu.
Ég var orðin dálítið þreytt á því að við gátum aldrei gert neitt saman. Og hann gæti nú alveg sent mér SMS svona við og við. Og þá kom hann aftur með áminninguna sem ég var búin að útiloka frá huganum. Hann væri ekki að fara í samband. Hann ætti skyldum að gegna gagnvart sonum sínum og hann vildi ekki gera þeim það að hitta aðrar konur strax.
Hann talaði lítið um konuna sína fyrrverandi, en ég vissi að skilnaður þeirra væri á viðkvæmu stigi og ég yrði að vera þolinmóð. Og já, ég var þolinmóð. Í marga mánuði. Ástfangin upp fyrir haus, horfandi á hann í vinnunni, hugsandi um hann ein heima í stóru íbúðinni minni, óskandi þess að hann væri hjá mér. Við hittumst í eitt skipti fyrir utan vinnuna, það var allt og sumt. Hann hringdi í mig þegar hann var í vinnuferð í London. Mér fannst það yndislegt. Stundum lofaði hann mér að við myndum hittast en þá kom eitthvað upp á hjá sonunum. Ég var orðin afbrýðisöm út í þá.
Þetta var farið að taka á mig og þegar ég keyrði heim úr vinnunni á hverjum degi fann ég svo mikinn söknuð í hans garð. Sérstaklega á föstudögum klukkan fimm þegar ég vissi að ég myndi ekki sjá hann í tvo heila daga. Þetta var orðinn vítahringur.
Ekki skíta þar sem þú étur
Ég varð að segja honum að þetta gengi ekki lengur svona. Ég væri ein taugahrúga út af honum, gæti ekki einbeitt mér í vinnunni, sæti grátandi ein heima að hugsa um hann, væri búin að útiloka mig frá stelpunum í vinnunni sem hefðu verið svo góðar við mig í upphafi og að þetta leynimakk okkar væri að skemma mig.
Ég var svo upptrekkt í vinnunni að ég fann að fólk var farið að líta á mig sem neikvæða og hundleiðinlega manneskju. Ég gat ekki talað um þetta „samband“ okkar við neinn, engan í vinnunni. Ef ég hefði ekki haft bróður minn til að gráta í veit ég ekki hvað ég hefði gert. Hann ráðlagði mér hvað eftir annað að hætta að hugsa um Gunnar en hvernig átti ég að geta það þegar hann sat beint fyrir framan mig átta tíma á dag, fimm daga vikunnar?
Það var eins og það tæki á Gunnar þegar ég sagðist ekki geta meir. Hann setti höndina fyrir hjartað á sér með dramatískum stælum. Það var bara ekkert annað í stöðunni. Hann vildi mig ekki. Það var bara svoleiðis. Hann var búinn að segja það margoft en ég bara hlustaði ekki. Það fóru margir mánuðir í að bíða eftir honum.
Ég var fegin þegar honum var sagt upp vegna niðurskurðar stuttu seinna. Þá gat ég loksins andað rólegar og einbeitt mér að vinnunni og að sjálfri mér. Þó að það hafi tekið tíma að komast yfir Gunnar var eins og stóru fargi væri lyft af mér. Nokkru síðar kynntist ég manni. Hann var að vinna í hinum enda borgarinnar. Ekki sjö metrum frá mér.
Stundum á maður bara að taka mark á tímaritum. Ekki skíta þar sem þú étur.