Á Suðurlandi eru margir stórbrotnir staðir sem vert er að heimsækja við réttar aðstæður.
Þar er hvergi meiri fjölbreytni í náttúrufari á Íslandi eins og jöklar, eldfjöll, eldfjallaeyjar, háhitasvæði, jökulár, svartar sjávarstrendur, víðáttumikil undirlendi, mýrar og stöðuvötn af öllum stærðum og gerðum. Það er því óhætt að mæla með ósnortnu hálendi Suðurlands við áhugasama ferðalanga.
Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Þeir voru þá kallaðir Skaftáreldar og er gígaröðin 25 kílómetrar að lengd og endar við Vatnajökul. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru kringlóttir, aðrir aflangir og stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr.
Flestir þeirra eru að miklu leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins en þeir voru friðlýstir árið 1971.
Fjaðrárgljúfur Hið 100 metra djúpa og tveggja kílómetra langa Fjaðrárgljúfur er bæði stórbrotið og hrikalegt. Gljúfrið er veggbratt, hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er að hún hefur breyst mikið í tímans rás. Í dag er Fjaðrá oftast frekar vatnslítil og því geta göngumenn hæglega kosið að ganga inn gljúfrið en þá þarf að vaða ána alloft. Innst í gljúfrinu eru fossar svo ganga þarf sömu leið til baka. Flestir velja að ganga eftir göngustíg uppi á gljúfurbarminum og njóta um leið útsýnisins yfir gljúfrið. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá og öðlaðist heimsfrægð eftir að söngvarinn Justin Bieber tók upp myndband sitt I´ll Show You í gljúfrinu.
Raufarhólshellir Einn af lengstu hellum Íslands nefnist Raufarhólshellir og er staðsettur við Þrengslaveg. Hellirinn er yfir 1.300 metra langur og myndaðist í Leitarhraunsgosi í Bláfjöllum fyrir um 5.200 árum. Vinsælt er að nota hellinn í kvikmyndum og til að mynda var hluti úr kvikmyndinni Noah (2014) tekinn upp þar. Daglegar ferðir eru í boði í hellinn.
Jökladýrð Hluta af hinni kraftmiklu móður jörð er að finna í hinum hættulegu jöklum landsins. Flesta jökla landsins er að finna á Suðurlandi og vert að hafa í huga að mestu máli skiptir að setja í forgang viðeigandi búnað og skipulagningu ef ferðast á yfir jökul. Eitt megineinkenni jökla er að þeir hreyfast. Í jöklunum eru margar virkar eldstöðvar en eldgos og jarðhiti bræða ís og geta valdið jökulhlaupi. Um þriðjungur þess vatns sem fellur til sjávar á Íslandi er jökulvatn. Aðgengi að íslenskum jöklum er nokkuð mismunandi en þó er mögulegt að komast að flestum þeirra. Ferð upp á jökul getur verið ógleymanlegt ævintýri en þó ber að hafa í huga að þeir geta verið stórhættulegir og því nauðsynlegt að vera í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna. Nokkur fyrirtæki sjá um skipulagðar jöklaferðir á Suðurlandi en hægt er að nálgast upplýsingar um þær á Netinu, í upplýsingamiðstöðvum ferðamála eða hjá starfsmönnum hótela. Vikan mælir eindregið með að ferðamenn hafi samband við ferðaskipuleggjendur og leiðsögumenn á svæðunum áður en lagt er af stað upp á jökul.
Systrastapi við Klaustur Árið 1186 var sett nunnuklaustur í Kirkjubæ á Síðu sem síðar var nefnt Kirkjubæjarklaustur. Örnefnin Systrastapi og Systrafoss eru einmitt tengd þeim tíma.
Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra sem hafi verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust. Klifra má upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn.
Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur, ofan í Fossárgil. Fallegar gönguleiðir eru í nágrenni fossins og greið gönguleið er upp á fjallsbrúnina að Systravatni en ofan af brúninni er stórbrotið útsýni.
Frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal Óhætt er að mæla með göngu frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal sem álitinn er af mörgum einn fegursti dalur landsins. Þjórsárdalur er staðsettur í Árnessýslu og liggur milli Búrfells og Skriðufells. Dalurinn skiptist í tvo dalbotna um Rauðukamba og Bergólfsstaðaá en hann er bæði sléttlendur og vikurborin eftir síendurtekin eldgos í Heklu. Talið er að Þjórsárdalur hafi verið fullbyggður á þjóðveldisöld en lagst í eyði á 17. öld. Merkustu staðir dalsins eru taldir vera Stöng, Háifoss, Þjóðveldisbærinn, Vegghamar og Gjáin.
Texti / Íris Hauksdóttir