Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Stóri dagurinn í kvikmyndum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Brúðkaup eru sívinsælt viðfangsefni kvikmynda. Það ætti ekki að koma neinum á óvart því stóra deginum fylgir alltaf ákveðin spenna og drama, eins og þeir þekkja sem hafa gift sig. Slíkt hentar vel í söguþráð kvikmyndar; taugaveiklaðar brúðir sem pæla í öllum smáatriðum, foreldrar sem eru við það að fara á límingunum og huglausir brúðgumar sem hætta við á síðustu stundu.

 

Four Weddings and a Funeral

Eins og nafnið gefur til kynna fjallar myndin um fjögur brúðkaup og eina jarðarför, allt tengist það Charles og vinum hans. Vinirnir velta sjálfir stöðugt fyrir sér hvort að þeir muni nokkru sinni finna einu sönnu ástina og gifta sig. Charles heldur að hann hafi fundið þá einu réttu í hinni bandarísku Carrie sem hann hittir einmitt í fyrsta brúðkaupinu en það gengur allt á afturfótunum hjá þeim.

Muriel’s Wedding

Súrsæt mynd um örvæntinguna sem fylgir oft leit að ástinni. Muriel finnst lífið í Porpoise Spit í Ástralíu mjög leiðinlegt og niðurdrepandi. Hún eyðir flestum dögum inni í herbergi að hlusta á ABBA-tónlist og láta sig dreyma um brúðkaupsdaginn sinn. Hennar eina hindrun, sem er fremur stór hindrun, er sú að Muriel hefur ekki einu sinni farið á stefnumót með karlmanni. Hún ákveður að taka málin í sínar hendur og fer með klikkaðri vinkonu sinni, Rhondu, til Sidney, breytir nafni sínu í Mariel og snýr lífi sínu alveg á hvolf.

Bridesmaids

- Auglýsing -

Bráðfyndin mynd með Saturday Night Live-stjörnunum Kristen Wiig og Mayu Rudolph sem sýnir hvernig ýmislegt getur farið úrskeiðis í gæsun. Lillian og Annie hafa verið bestu vinkonur frá barnæsku og gengið saman í gegnum súrt og sætt. Þegar Lillian finnur loks draumaprinsinn og ákveður að giftast honum tekur Annie að sér hlutverk aðalbrúðarmeyjarinnar með ánægju. Ánægjan breytist þó fljótlega í örvæntingu og afbrýðisemi og Annie tekst næstum að slíta vináttu þeirra og eyðileggja brúðkaupið.

Father of the Bride

Hér fer Steve Martin á kostum í hlutverki sínu sem George Banks, taugaveiklaði faðirinn sem á erfitt með að sætta sig við að litla stúlkan hans sé orðin fullorðin. Myndin er endurgerð á sígildri mynd með Spencer Tracy þar sem Elizabeth Taylor lék ungu brúðina. Fylgst er með undirbúningi brúðkaupsins sem gengur að sjálfsögðu ekki snurðulaust fyrir sig. Smám saman lærir George að sætta sig við brúðgumann og gerir sér grein fyrir því að svo lengi sem dóttir hans er hamingjusöm þá er hann það líka.

- Auglýsing -

My Big Fat Greek Wedding

Frábær grínmynd sem byggir á einleik Niu Vardalos, en hún leikur einnig aðalhlutverkið. Toula er grísk-bandarísk einhleyp kona á þrítugsaldri og það lítur ekki út fyrir að breyting verði þar á í bráð. Þetta veldur henni nokkrum áhyggjum en þær eru ekkert í líkingu við áhyggjurnar sem plaga foreldra hennar. Þau líta á þetta sem mikinn fjölskylduvanda og vilja helst senda dóttur sína til Grikklands þar sem hún gæti kynnst góðum manni. Tvennt stendur þó í vegi fyrir hamingju þeirra; dóttirin kynnist manni en hann er ekki Grikki og þar að auki er hann grænmetisæta, en fátt vekur meiri hrylling hjá fjölskyldu Toula.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -