Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Stymir og Heiðdís á meðal þeirra bestu: „Við erum í skýjunum!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Virt erlent tímarit setur íslensk hjón á lista yfir brúðkaupsljósmyndara sem eru næst því að slá í gegn. Styrmir Kári og Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir eru himinlifandi með útnefninguna og segja hana mikla upphefð og viðurkenningu.

„Við erum auðvitað í skýjunum með að hafa verið valin, með öllum þessum hæfileikaríku ljósmyndurum hvaðanæva að úr heiminum,“ segir Styrmir Kári, spurður hvernig tilfinning sé að þau hafi verið valin á listann. „Þetta er auðvitað mikil upphefð fyrir okkur og viðurkenning á allri þeirri vinnu sem við höfum lagt á okkur síðustu ár, eftir að við ákváðum að einbeita okkur svo til eingöngu að því að mynda ástfangið fólk.“

Það er Rangefinder-tímaritið sem gefur út umræddan lista yfir 30 rísandi stjörnur í brúðkaupsljósmyndun á hverju ári og hefur gert síðan 2012. Að sögn Styrmis er beðið með mikilli eftirvæntingu eftir honum á hverju ári og mikil leynd sem hvílir ávallt yfir því hverjir eru valdir. „Þessi viðurkenning er af mörgum talin til þeirra stærstu og virtustu í brúðkaupsljósmyndaheiminum og þá kannski helst vegna þess að til að hljóta tilnefningu á listann þarf einhver sem er nú þegar áhrifamanneskja í bransanum að mæla með þér, til dæmis aðrir ljósmyndarar, ritstjórar brúðkaupstímarita, umboðsskrifstofur og skipuleggjendur.“

Mynd / Styrmir Kári og Heiðdís

Valinn úr miklum fjölda hæfileikaríkra ljósmyndara

Styrmir segir að við tilnefningu á listann sé hver og einn beðinn um að senda inn 30 myndir teknar í brúðkaupum á ferlinum, sem megi ekki spanna meira en fimm ár, og segja frá sinni nálgun á ljósmyndun. „Dómnefndin sem samanstendur af ritstjórum tímaritsins fer svo í gegnum innsendu myndirnar og velur úr þeim mikla fjölda ljósmyndara sem mælt er með á hverju ári, þá sem þeim finnst hafa sýnt einstaka og efnilega hæfileika, listræna sýn og rödd í brúðkaupsljósmyndun og vert er að fylgjast með í framtíðinni.“

„Þurftum á upplífgun að halda“

- Auglýsing -

Spurð hvort það hafi komið þeim á óvart að þau ættu möguleika að komast á listann, segist Heiðdís ekki vita hvort hægt sé að segja það. „Það er nefnilega smávegis ferli í kringum listann þannig að við höfum vitað síðan í september að við ættum möguleika á að komast inn,“ útskýrir hún. „Við lögðum talsverða vinnu í umsóknina okkar og fannst við alveg eiga góða möguleika enda lagt hart að okkur seinustu ár, en auðvitað veit maður aldrei hvað heillar dómnefndina eða hverju hún leitar eftir það árið. Við erum fyrst og fremst bara ótrúlega þakklát fyrir að hafa verið valin á listann, sérstaklega á þessu ári þar sem við þurftum svo sannarlega á upplífgun að halda.“

Mynd / Styrmir Kári og Heiðdís

Stór nöfn í bransanum

Styrmir getur þess að margir af þeim ljósmyndurum sem þau hafi litið upp til og haft sem fyrirmyndir að þeirra eigin vinnu hafi verið á þessum lista í gegnum tíðina og margir þeirra séu núna stór nöfn í þessum afmarkaða heimi brúðkaupsiðnaðarins. „Á listanum núna eru svo margir ótrúlega hæfileikaríkir og sumir þeirra hafa fengið aðrar álíka viðurkenningar frá öðrum blöðum eins og Harpes Bazar, Vouge og BRIDES,“ segir Heiðdís. „Það eru einhverjir ljósmyndarar þarna sem við höfum verið að fylgjast með en flest nöfnin höfum við ekki séð áður.

- Auglýsing -

Annars finnst okkur alltaf pínu skondið að ræða um brúðkaupsljósmyndun við fólk utan þess hóps því þetta er svo ótrúlega sérhæfður bransi. En hann er risastór og margar stjörnur þar inni sem eru þó ekkert þekktar utan þessa geira. Þannig að þótt við myndum nefna hér einhver nöfn er óvíst að lesendur viti hverjir það eru.“

Mynd / Styrmir Kári og Heiðdís

Hvatning til að halda áfram

Hafið þið fengið einhverjar fyrirspurnir í beinu framhaldi af þessari útnefningu? „Það er svolítið erfitt að svara því, þar sem fólk tekur það yfirleitt ekki fram,“ segir Heiðdís. „Og svo eru bara nokkrir dagar liðnir síðan listinn var opinberaður. En við höfum fengið nokkra pósta seinustu daga sem gætu tengst þessu.“

Styrmir segist vona að svona viðurkenning hafi líka meiri langtímaáhrif sem skili sér á komandi árum og opni enn fleiri dyr fyrir þau. „Ekki endilega bara í auknum fyrirspurnum, heldur gefi manni líka aukið vægi innan bransans og verði okkur hvatning til að halda áfram á þessari braut og gera enn þá betur.“

Mynd / Styrmir Kári og Heiðdís

Í lokin hvetja þau áhugasama til að kynna sér listann. „Við mælum algjörlega með því að fólk sem hefur áhuga á ljósmyndun kíki yfir listann og skoði myndirnar sem sendar voru inn,“ segir Heiðdís. „Þær eru alveg sturlaðar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -