Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Lífsreynslusaga: Systir mín þarf alltaf að vera meiri en ég

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég er næstelst í systkinahópnum, á tvo bræður og eina systur, nokkrum árum yngri. Við systkinin vorum ágætlega samrýnd en á unglingsárunum fann ég að systir mín virtist vera komin í einhvers konar samkeppni við mig.

Vera systir þoldi ekki að ég fengi að fara út á kvöldin en hún ekki, að ég væri farin að mála mig en henni bannað það því hún var barn, og fleira í þeim dúr. Ég man þó eftir að hafa farið í bíó með vinkonum mínum og verið neydd til af mömmu að taka Veru með, þá bara 12 ára, þrátt fyrir að myndin væri bönnuð innan 16. Vera hafði grátið í klukkutíma og mamma gefist upp á endanum. Hún var þó frekar ströng við okkur og leyfði Veru yfirleitt ekki að komast upp með neina vitleysu.

Það gladdi mig þegar Vera valdi sér sömu námsgrein og ég í háskóla og örfáum árum eftir útskrift hafði hún unnið sig upp í yfirmannsstöðu. Ég var hreykin af henni og sagði henni það en hún hló og sagðist vera viss um að ég væri að farast úr öfundsýki. Hún setti þetta fram eins og grín og við hlógum báðar.

Við systur giftum okkur með ársmillibili og eigum tvö börn hvor. Hjónaband mitt varði í tólf ár en þá fór maðurinn minn frá mér fyrir aðra konu. Það var eins og Vera hlakkaði yfir því þótt hún segði það ekki beint út, hún hefur alltaf notað óbein skilaboð og ef ég reyni að spyrja hvað hún meini, verður hún annaðhvort reið eða þykist ekkert skilja.

„Hún hafði búið til kaffi, fengið sér, skolað könnuna og slökkt á henni, ásamt því að ganga vandlega frá brauði og áleggi inn í ísskáp þótt hún vissi vel að örstutt væri í að ég kæmi fram. Það átti aldeilis ekki að stjana við stórusystur.“

Ef ég keypti eitthvað fallegt til heimilisins hér áður fyrr brást ekki að Vera keypti eitthvað sem var enn fínna og dýrara. Þótt heimili okkar væru ólík, ég meira fyrir þægindi en útlit, fann ég alltaf þörf hennar fyrir samanburð við mig og heimili hennar hafði svo sannarlega vinninginn. Ég var ánægð með mitt svo samkeppnin var alveg einhliða.

- Auglýsing -

 Sumarbústaðaferð

Eitt sinn buðu Vera og maður hennar mér að koma með í sumarbústað í viku. Börnin okkar voru þá orðin uppkomin og flutt að heiman og ég bjó í ágætri íbúð í næstu götu við mömmu.

Þetta var skemmtileg vika en þegar mágur minn skrapp óvænt í bæinn einn seinnipartinn og fram á næsta dag vegna vinnu, varð Vera þegjandaleg og vildi bara liggja í sófanum og lesa. Mér var sama og fór ein í gönguferðina sem við höfðum ætlað saman í. Ég hitaði síðan upp afganga handa okkur og kvöldið var rólegt. Þegar ég vaknaði næsta morgun heyrði ég að hún var sýsla í eldhúsinu, hita kaffi og annað. Ég bauð góðan dag og dreif mig í snögga sturtu. Þegar ég kom fram sat hún við borðið með kaffibolla og ristað brauð og var að lesa. Hún hafði búið til kaffi, fengið sér, skolað könnuna og slökkt á henni, ásamt því að ganga vandlega frá brauði og áleggi inn í ísskáp þótt hún vissi vel að örstutt væri í að ég kæmi fram. Það átti aldeilis ekki að stjana við stórusystur. Ég fékk mér að borða og hellti upp á – en áður en ég gekk frá gat ég ekki stillt mig um að spyrja hana hvort hún vildi meira kaffi eða brauð, svona eins og eðlilegt fólk gerir. Hún þáði ábót á kaffið og hélt áfram að lesa. Þegar maðurinn hennar kom breyttist hún og lék á als oddi.

- Auglýsing -

Einhvern tíma fór ég með hjónunum í helgarferð til London. Þetta var fín ferð, systir mín var óvenjumild í framkomu við mig. En þegar við vorum á heimleið og ókum inn í hverfið okkar mömmu, sagði Vera sem sat undir stýri að þau hjónin ætluðu beint til mömmu í heimsókn. Ég kæmi bara með þangað og færi þaðan gangandi heim til mín til að ná í bílinn minn svo ég gæti sótt farangurinn. „Ekkert mál,“ sagði ég hissa. En þá sagði maðurinn hennar stórhneykslaður: „Auðvitað keyrum við hana heim með töskurnar og förum svo í heimsókn til mömmu þinnar. Hvaða vitleysa er þetta?“ Vera herpti saman varirnar og þagði, og ók sem leið lá heim til mín. Hún kvaddi varla.

Breytingar

Nokkru eftir lát mömmu flutti ég út á land. Ég elti ástina, má segja, en maðurinn reyndist annar en hann virtist fyrst, svo sambandið stóð ekki lengi. Þá var ég orðin yfir mig hrifin af þessum bæ, fólkinu þar og vinnustaðnum svo ég fann mér góða íbúð þar á leigu.

Annað slagið skrapp ég til Reykjavíkur yfir helgi og í eitt skipti bað ég um gistingu hjá Veru systur sem þá bjó í Vesturbænum, í göngufæri við miðbæinn.

Ég nýtti þessar helgar vel, heimsótti börnin mín, fór í leikhús, bíó, út að borða, á tónleika. Vinkona mín sagði eitt sinn að ég gerði meira á einni helgi en hún á mörgum mánuðum.

Systir mín er gestrisin en ég naut ekki sama viðmóts og aðrir gestir hennar. Þegar ég gisti hjá henni hafði ég verið á síðustu stundu, færðin var slæm og ég hafði rétt tíma til að henda inn töskunni minni og snyrta mig örlítið áður en ég rauk út að borða og síðan út á lífið. Vera rétti mér útidyralykil áður en ég fór.

 „Vera hafði sagt að ég ætti að sofa í sjónvarpsherberginu svo ég paufaðist þangað og kveikti á lampa.“

Við vinkonurnar skemmtum okkur vel og ég var ekki komin heim til Veru fyrr en rúmlega þrjú um nóttina. Allt var dimmt og ég læddist inn. Vera hafði sagt að ég ætti að sofa í sjónvarpsherberginu svo ég paufaðist þangað og kveikti á lampa. Ég átti von á að finna sæng og kodda á sófanum en þarna var bara þunnt teppi og nokkrir skrautpúðar. Ég lagði ekki í að læðast upp á efri hæðina í leit að rúmfötum og vekja óvart heimilisfólkið svo ég reyndi að koma mér fyrir með þetta.

Mér var ískalt þegar ég vaknaði en náði að brjóta saman teppið og setja fínu púðana á sinn stað áður en aðrir komu á fætur. Vera spurði mig ekki einu sinni hvernig ég hefði sofið. Ég þakkaði bara fyrir mig og dreif mig út.

Það hafði margt rifjast upp fyrir mér þennan morgun, eins og uppábúin rúm fyrir aðra gesti, t.d. bróður okkar sem bjó fyrir norðan. Ekki að ég hefði ætlast til þess að hún byggi um mig, það hefði bara verið sjálfsagt að skilja eftir sæng og kodda ásamt sængurfötum. Þegar ég bjó fyrir norðan gistu hún og maðurinn hennar hjá mér og ég bjó að sjálfsögðu um þau í fína rúminu mínu, svaf á meðan í stofunni sem mér fannst alveg sjálfsagt.

Hæðnisbros eða geispi

Í gegnum tíðina hef ég auðvitað sagt við Veru: „Af hverju læturðu svona?“ eða „Þetta var andstyggilega sagt!“ en þá er ég búin að missa húmorinn, að hennar sögn. „Húmor“ sem hún notar sjaldnast þegar aðrir heyra til. Ef ég reyndi að telja allt upp sem hún hefur sagt eða gert, myndi það eflaust kosta leiðindi af hennar hálfu. Auk þess leyfir stolt mitt það ekki, ég vil ekki að hún viti að þetta snertir mig, ekki eftir öll þessi ár. Ég gæti sagt allt við vinkonur mínar, bara alla aðra, hreinsað andrúmsloftið ef þyrfti, en það á alls ekki við um Veru. Hún vill á einhvern hátt smækka mig, eins og sanna fyrir mér að hún sé miklu klárari, flottari, sætari og duglegri en ég … sem hún eflaust er. Hvort hún er einfaldlega andstyggileg að upplagi eða með svona mikla minnimáttarkennd gagnvart mér, veit ég ekki. Hún getur verið mjög kaldhæðin en aldrei á eigin kostnað, bara annarra.

Á yfirborðinu virðumst við vera í góðu sambandi. Það er erfitt fyrir aðra að sjá nokkuð, hún gætir þess vel, og börnin mín dýrka hana. Hæðnisbros eða þreytulegur geispi þegar ég er í miðri frásögn er alvanalegt. Þetta slær mig þó minna út af laginu en áður, ég hef alltaf haft ágætt sjálfstraust og er orðin vön kvikindislegri framkomu hennar. En sama hvort ég reyni að vera góð við hana eða svara henni fullum hálsi, virkar hvorugt. Svo er hún auðvitað ekki alltaf leiðinleg.

Ég hef frábært fólk í kringum mig, góða vini og yndislega ættingja, og þyrfti ekki að svekkja mig á þessu. Ég geri það samt, þetta er systir mín og mig langar til að við séum vinkonur.

Lífreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -