Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-6.8 C
Reykjavik

Systurmissir kveikjan að tónlistarferlinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margrét Kristín Sigurðardóttir prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar. Margrét Kristín, sem er betur þekkt undir listamannsnafninu Fabúla, lét gamlan draum rætast og skellti sér í leiklistarnám í London þegar hún var fimmtug. Hún hafði verið í slíku námi í Noregi þegar hún var ung en hætt þegar áfall í fjölskyldunni varð til þess að tónlistar- og textasköpun hennar tók yfirhöndina.

Margrét Kristín vinnur nú að sýningu þar sem ljóð eftir Gerði Kristnýju verða túlkuð á sviði í dansi, söng og hreyfingum en hún bæði semur alla tónlist við verkið og tekur þátt í túlkuninni á sviðinu. Sýningin verður frumsýnd í Þjóðleikhúskjallaranum þann 11. maí og það verður frumraun Margrétar sem tónhöfundar í íslensku leikhúsi.

„Þetta eru ljóð sem Edda Þórarinsdóttir leikkona og leikstjóri valdi úr ýmsum ljóðabókum Gerðar Kristnýjar og gerði úr heildstætt handrit,“ segir Margrét beðin um að segja í stuttu máli frá sýningunni. „Ljóðin eru margslungin og  ólgandi af sterkum tilfinningum og leikhópurinn sem túlkar þau er jafn litríkur og ljóðin sjálf.”

Í viðtalinu ræðir Margrét Kristín einnig um áhrifin sem fráfall systur hennar, sem svipti sig lífi í kjölfar langvarandi þunglyndis, urðu til þess að hún hóf að semja og gefa út tónlist í eigin flutningi.

„Systir mín lést 1990 úr þunglyndi, eins og ég kýs að orða það,“ segir Margrét. „Og þessi plata var að einhverju leyti úrvinnsla úr því áfalli. Eitt lagið á plötunni er um hana og ég held að sú ákvörðun að fara frekar tónlistarleiðina en leiklistarleiðina á þessum tímapunkti hafi verið afleiðing af því að missa hana. Þörfin fyrir að tjá mínar eigin tilfinningar, segja mínar og okkar sögur varð sterk og tónlistin fossar auðveldlega úr hjartanu.”

Margrét Kristín talar um að þekkja þær tilfinningar sem ljóðin í sýningunni Dansandi ljóð lýsa, meðal annars kvíða og angist, hefur þunglyndið einhvern tímann náð tökum á henni?

„Nei, ég slapp við að erfa þetta þunglyndi sem bæði pabbi og systir mín þurftu að glíma við, en svefnleysið þekki ég, það glími ég við á erfiðum tímum, eins og síðustu mánuði, en pabbi veiktis alvarlega fyrir um hálfu ári og lést í byrjun mars. Pabbi og systir mín fóru bæði að finna fyrir alvarlegu þunglyndi á svipuðum tíma, pabbi var þá á miðjum aldri en hún unglingur. Pabbi glímdi við það alla tíð síðan og þótt hann hafi látist úr krabbameini þá hafði hann verið á leið í rafstuðsmeðferð sem síðustu tilraun til að ná tökum á því, þar sem ekkert annað hafði hjálpað. Krabbameinið dró hann hins vegar til dauða á nokkrum mánuðum svo það kom aldrei til þess að hann færi í þá meðferð.“

„Ég fann snemma sem lítil stelpa að systir mín glímdi oft við þungar hugsanir.“

- Auglýsing -

Þannig að skuggi þunglyndisins hefur fylgt þér mjög lengi?

„Já, hann hefur gert það,“ segir Margrét einlæg. „Ég fann snemma sem lítil stelpa að systir mín glímdi oft við þungar hugsanir og ég reyndi alltaf að létta henni þá byrði og varð mjög upptekin af því að hennar gleði væri óendanlega mikilvæg og svolítið á mína ábyrgð. Ég varð ansi góð í því að taka ákvarðanir út frá hennar þörfum en ekki mínum, sem framan af var lítið mál, en varð snúnara með tímanum og tók sinn toll án þess að ég kannski áttaði mig á því fyrr en seinna. Við vorum mjög nánar systurnar, með sama húmor og önduðum í takt á nóttunni. Ég fékk aðstoð við að vinna úr dauða hennar en svona áföll lifa auðvitað alltaf með manni og í manni og söknuðurinn er alltaf til staðar. “

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kom í verslanir í dag.

- Auglýsing -
Margrét Kristín Sigurðardóttir, tónlistarkona, leikkona og sérkennari, prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar.

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -