Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Tekur einn dag í einu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinunn Stefánsdóttir hætti sem aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins 2013 í kjölfar breytinga á yfirstjórn blaðsins. Þremur árum seinna varð hún ekkja og í framhaldi af því tók hún líf sitt til endurskoðunar. Í dag er hún lausráðin við skriftir og þýðingar með frábærum árangri því á dögunum hlaut hún Fjöruverðlaunin fyrir bókina Þjáningarfrelsið.

Steinunn er stödd í lest á Eyrarsundsbrúnni þegar blaðamaður hefur samband við hana en hún segist vera mikill flakkari og njóta sín best ef hún er á ferðinni. Hún er þó ekki flutt úr landi eins og svo margir, heldur er hún að heimsækja dætur sínar sem búa í Kaupmannahöfn og Lundi.

„Ég er mikið á flakki, já,“ segir hún og hlær. „Á síðasta ári reiknast mér til að ég hafi verið í burtu að heiman einn þriðja af árinu Það helgast að sumu leyti af því að í sumar sem leið starfaði ég sem landvörður. Eitt af ævintýrum ársins 2018 var að taka námskeið í landvörslu og starfa sem slíkur á vestursvæði Vatnajökulsstöðvar í framhaldi af því, aðallega á Kirkjubæjarklaustri en einnig í Lakagígum og fannst það ekki lítið töff að vera trúað fyrir einni helstu náttúruperlu landsins.“

Eitt af ævintýrum ársins 2018 var að taka námskeið í landvörslu og starfa sem slíkur á vestursvæði Vatnajökulsstöðva.

Spurð hvort hún sé sem sagt alveg búin að gefast upp á fjölmiðlunum tekur Steinunn sér örlitla umhugsunarpásu áður en hún svarar.

„Ég myndi ekki segja gefast upp, það er bara komið nýtt tímabil í líf mitt,“ segir hún.

„Ég vil alls ekki kalla það uppgjöf. Ég er flakkari í eðli mínu og allt líf mitt hefur verið í tímabilum, ekki síst varðandi störf. Og þótt fjölmiðlatímabilið sé lengsta tímabilið sem eftir mig liggur þá nær það ekki fimmtán árum. Ég byrjaði á DV árið 2000 og hætti á Fréttablaðinu í mars 2013 svo þú sérð að þetta er ekki stór hluti af starfsævinni.“

Eins og sést af þessu voru árin 2013-2016 frekar sviptingasöm í lífi Steinunnar en hún segir þó viðskilnaðinn við Fréttablaðið í kjölfar þess að Mikael Torfason var ráðinn inn sem ritstjóri við hlið Ólafs Stephensen og hennar starf þar með gert óþarft, að hennar mati ekki hafa verið mikið áfall – þó.

Þegar þetta gerðist allt saman þá áttaði ég mig á því að ég var rosalega vel undirbúin fyrir nákvæmlega þetta ferli, var í rauninni búin að skrifa handritið í huganum löngu áður.

- Auglýsing -

„Já og nei,“ segir hún og dregur örlítið við sig svarið. „Ég vissi í raun og veru allan tímann að þetta myndi enda einhvern veginn svona. Umhverfið í þessum heimi er svo sviptingasamt. Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um að það yrði Mikael sem kæmi inn, það gat verið hver sem er, og það gat líka alveg eins verið að yfirstjórnin tæki allt í einu þá ákvörðun að hún nennti ekki lengur að hafa mig. Þegar þetta gerðist allt saman þá áttaði ég mig á því að ég var rosalega vel undirbúin fyrir nákvæmlega þetta ferli, var í rauninni búin að skrifa handritið í huganum löngu áður.“

Steinunn prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar.

En breytingum á högum Steinunnar var ekki þar með lokið, sumarið 2016 lést eiginmaður hennar Arthur Morthens skyndilega þegar þau voru í sumarfríi í Danmörku. Hann hafði átt við veikindi að stríða lengi en engu að síður var fráfall hans óvænt. Steinunn talar nánar um fráfall hans í forsíðuviðtali við Vikuna en hún hlaut Fjöruverðlaunin nýlega og er auk þess tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunna.

Hvað er fleira á döfinni hjá henni?

- Auglýsing -

„Það er svo sem ekkert sérstakt á döfinni,“ segir Steinunn hugsi. „Ég stefni enn þá að því að klára lokaritgerðina í þýðingarfræðinni og vona að ég finni tíma í það fljótlega. Annars er ég bara opin fyrir öllu. Einu föstu verkefnin sem ég er með núna eru þýðingar fyrir vefsíðu Norðurlandaráðs og pistlaskrif fyrir Mannlíf og ég sækist ekki eftir fleiri verkefnum, þau koma til mín óbeðin og ég segi yfirleitt já þegar ég er beðin að taka eitthvað að mér. Annars er ég bara í því að bregðast við þegar eitthvað skemmtilegt stendur til boða. Ég tek lífið svolítið svona einn dag í einu núorðið, mér finnst þetta allt saman bara svo óskaplega skemmtilegt.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -