Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

 „Þarna klipptist líf mitt í sundur á sekúndubroti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hún er þekkt sem formaður Öryrkjabandalags Íslands og brennur fyrir baráttumálum öryrkja. Eftir að hafa lamast í hestaslysi fyrir rúmum 13 árum og tók við nýr kafli með óteljandi áskorunum.  Ekkert varð eins og áður. Þuríður Harpa Sigurðardóttir er í viðtali í nýjustu Vikunni.

„Slysið sem breytti lífi mínu varð á sólríkum vinnudegi í lok apríl árið 2007, en þá var ég nýorðin fertug. Ég var að vinna í verkefni sem ég þurfti að klára en ég ætlaði að hjálpa þáverandi  sambýlismanni mínum að reka hrossin okkar í sumarhaga í Hegranesinu en ég bjó og vann á Sauðárkróki. Ég skildi því allt eftir á borðinu mínu og hafði tölvuna opna því ég ætlaði að koma aftur. Þetta var um fimmleytið og ég ætlaði að koma aftur eftir tvo klukkutíma.  Til að gera langa sögu stutta þá kom ég til baka eftir 6 mánuði og þá í hjólastól.“

„Ég lamaðist á sekúndubroti, ég fann ekki fyrir neinu en sá fæturna og fann að ég gat ekki hreyft þær, sem var mjög undarleg upplifun.“

Þannig var að þegar þau voru komin með hrossin yfir í nes og áttu stutt eftir, trylltist merin sem Þuríður sat á. „Ég ákvað að losa ístöðin til að ég drægist ekki með hrossinu ef ég myndi detta af baki. Merin stökk hins vegar út í mýri með þeim afleiðingum að ég kastaðist fram fyrir hana og lenti á bakinu ofan á steinnibbu. Ég lamaðist á sekúndubroti, ég fann ekki fyrir neinu en sá fæturna og fann að ég gat ekki hreyft þær, sem var mjög undarleg upplifun. Síðan tók við ferð í sjúkrabíl og sjúkraflugvél suður á Borgarspítalann þar sem ég fór í aðgerð. Þrír hryggjarliðir höfðu brotnað auk tveggja sem höfðu laskast og mænan marist.“

Allt breyttist

Að lokinni dvöl á Borgarspítalanum fór Þuríður í endurhæfingu á Grensás. „Það var ekki auðveldur tími, slys sem valda lömun breyta lífi fólks. Ekkert verður eins og áður. Þarna klipptist líf mitt í sundur á sekúndubroti, nýr kafli með allt öðrum áskorunum og allt öðrum viðfangsefnum tók við. Að takast á við daglegt líf í hjólastól, að vera t.d ekki lengur hluti af hópnum þegar kemur að hvers kyns sporti eða félagsskap. Að komast ekki í búðir eða bakarí þar sem hindranir í umhverfinu settu manni stöðugt skorður. Allt var vesen, alveg frá því að komast fram úr að morgni og til þess að komast upp í aftur að kvöldi, að skreppa í snögga sturtu tók klukkutíma.

„Sem dæmi má nefna að ég, eins og margar konur, gerði stórhreingerningu heima hjá mér fyrir hver jól, þreif glugga, eldhússkápa og svo framvegis. Það gat ég ekki lengur gert, ég skrapp heldur ekki í þrektíma eða út að skokka, hvað þá að ég færi í hesthúsin.“

Hlutverkið að vera foreldri, maki, systir, dóttir, frænka og vinkona breyttist. Það hvað ég gat gert og hvernig, að taka þátt í alls konar verkefnum daglegs lífs var mikil áskorun og oft erfitt að finna lausnir. Ég þurfti að æfa þolinmæðina talsvert og að sætta mig við að sumt gat ég bara ekki lengur. Við annað varð ég að beita annarskonar nálgun. Sem dæmi má nefna að ég, eins og margar konur, gerði stórhreingerningu heima hjá mér fyrir hver jól, þreif glugga, eldhússkápa og svo framvegis. Það gat ég ekki lengur gert, ég skrapp heldur ekki í þrektíma eða út að skokka, hvað þá að ég færi í hesthúsin. Þetta var einnig mikil áskorun fyrir krakkana mína, fjölskylduna og vini að læra að umgangast mig í nýrri stöðu. Það vantaði stuðning frá fagaðilum til mín og fjölskyldunnar og vantar enn í kerfið okkar. Þegar fjölskyldumeðlimur lendir í slysi eða veikindum veldur það álagi á fjölskylduna. Dæmi eru um að aðstandendur verði sjálfir öryrkjar vegna örmögnunar og/eða stoðkerfisvanda. Það sem hélt mér gangandi eftir að ég kom heim var að ég gat farið aftur í vinnuna, en ég var þá framkvæmdastjóri Nýprents. Ég var því mjög lánsöm, að eiga afturkvæmt í starf, það voru forréttindi, en ekki alvanalegt,“ segir Þuríður meðal annars í mögnuðu viðtali við Vikuna.

- Auglýsing -

Myndir: Hákon Davíð Björnsson

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -