Fimmtudagur 24. október, 2024
1.6 C
Reykjavik

„Þekki málefnið af eigin reynslu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur heldur fyrirlestra og námskeið um einelti fyrir fólk á öllum aldri.

Kolbrún Baldursdóttir hefur starfað sem sálfræðingur í 25 ár. Hún rekur eigin sálfræðistofu ásamt því að vera í hlutastarfi á heilsugæslu og sinna sálfræðiþjónustu fyrir hælisleitendur. Hún heldur einnig fyrirlestra og námskeið um einelti fyrir fólk á öllum aldri og ekki síst foreldra bæði fórnarlamba og gerenda. Við fengum hana til að gefa okkur innsýn í viðfangsefnið.

Kolbrún Baldursdóttir hefur starfað sem sálfræðingur í 25 ár. Mynd/ Hákon Davíð Björnsson

„Snemma á ferli mínum tóku eineltismálin hug minn,“ segir Kolbrún. „Mér fannst alltaf svo innilega sárt að hitta einstaklinga, börn og fullorðna sem voru niðurbrotin vegna þess að einhver einn eða fleiri höfðu verið að níðast á þeim leynt og ljóst. Skaðsemi langvinns eineltis getur verið mannskemmandi og dæmi eru um að andleg líðan þolanda er rústir einar eftir einelti. Afleiðingar lifa stundum með manneskjunni alla ævi þótt margir finni leið með eða án aðstoðar til að milda og lifa með sársaukanum, brotinni sjálfsmynd og viðloðandi höfnunartilfinningu. Þeir sem koma úr erfiðum uppeldisaðstæðum, eiga erfitt félagslega eða glíma við annan vanda fyrir ná sér jafnvel ekki á strik eftir að einelti hefur bæst við. Þá er eins og mælirinn fyllist endanlega. Dæmi eru um að fólk verði öryrkjar og einstaka sjá enga vonarglætu og hafa svipt sig lífi.

Mér hefur alltaf fundist að við, einstaklingar, hópar og samfélagið allt, ættum að geta gert eitthvað verulega raunhæft í þessum málum, ekki bara til skemmri tíma heldur til framtíðar. Eineltishegðun mun koma upp endrum og sinnum en með skilvirkum forvörnum, virkri viðbragðsáætlun og faglegri vinnslu mála sem koma upp getur verulega dregið úr eineltistilburðum og ef mál kemur upp skiptir öllu að gripið sé strax inn í og einelti stoppað nánast í fæðingu.“

Kolbrún hefur skrifað fjölda greina og pistla um hugmyndir í þessu sambandi ásamt því að þekkja málið af eigin raun. „Ég hef komið að vinnslu þessara mála í mörg ár bæði í málum þar sem aðilar eru börn, unglingar og fullorðið fólk. Ég held að ég hefði aldrei getað rætt af neinu alvöru öryggi um þessi mál nema af því að ég hef sjálf fengið að snerta á þeim með beinum hætti. Með hverju máli sem ég hef komið að sem sálfræðingur hef ég sjálf lært eitthvað nýtt og þróað þannig hugmyndafræðina og betrumbætt verklagið.“

Breytt viðhorf og úrlausnir

Auk fræðslufyrirlestra og greinaskrifa var Kolbrún með sálfræðiþætti, Í nærveru sálar, á ÍNN meðal annars um eineltismál. „Það var um það leyti sem Skólavefurinn bað mig að skrifa leiðbeiningabók um einelti. Bókin EKKI MEIR kom út 2012 og strax í kjölfarið fór ég í samstarf við Æskulýðsvettvanginn og nokkur sveitarfélög og fékk enn frekari tækifæri til að fara um allt land og miðla því hvernig fyrirbyggjandi vinna gæti litið út með viðbragðsáætlun, tilkynningareyðublaði, verkferlum og verklagi. Þessum hugmyndum mínum um forvarnir og úrvinnslu eineltismála var hvarvetna vel tekið. Margir tóku þessar leiðbeiningar upp strax í kjölfarið og tileinkuðu sér verkfæri sem mér fannst hafa gagnast mér í þessum málum. Það gaf mér enn meiri kraft til að halda áfram þessu verkefni. EKKI MEIR ævintýrið er enn í gangi og lifir góðu lífi og ég mun sinna þeirri fræðslu áfram næstu árin.“

- Auglýsing -

Kolbrún segir að samfélagið viðurkenni nú einelti og skaðsemi þess sé flestum orðin kunn. Einnig sé nánast horfið að fólk fullyrði að einelti sé ekki til á þeirra vinnustað eða skóla. „Allt hefur gerst með meiri hraða eftir tilkomu samfélagsmiðlanna. Nú tjáir sig hver sem vill um sína reynslu til dæmis á Facebook og viðbrögðin láta ekki á sér standa. Samfélagsmiðlar koma málum sannarlega hratt upp á borð. Eðli þessara mála er svipað í dag og áður að mörgu leyti nema við hefur bæst neteinelti með tilkomu Netsins og samfélagsmiðlanna. Þau mál eru afar erfið vegna þess að netníð eða myndir sem ætlað er að skaða og meiða breiðast út af ógnarhraða svo engin bönd ná utan um. Á Netinu geta gerendur blómstrað þar sem þeir hafa falið sig í lokuðum grúppum, þykjast vera aðrir en þeir eru eða eru undir fölskum nöfnum.

„Ég man þegar dætur mínar voru litlar þá spurði ég þær af og til eftirfarandi spurninga: Ert þú ekki öruggleg góð við alla í bekknum? Eru krakkarnir góðir við þig? Heldur þú að einhverjum í þínum bekk líði illa vegna einhvers í bekknum? Ef kom svar sem hringdi bjöllum var síðan brugðist við því eftir atvikum.“

Við erum farin að hjálpa þeim sem stríða og meiða önnur börn. Börnum sem þetta gera þarf að hjálpa. Þetta eru börn sem oft líður illa með sjálf sig og eiga erfitt í skóla-, félags- eða fjölskylduaðstæðum. Sum eru reið inni í sér, önnur hafa einfaldlega ekki fengið viðeigandi leiðbeiningar um samskipti og stundum má tengja orsakir við persónueinkenni eða röskun sem barn kann að glíma við. Við þolendur reynum við að ítreka að þetta er ekki þeim að kenna. Þeim er ekki strítt vegna þess að þau eru svo ómöguleg. En þótt sá sem verður fyrir einelti viti vel að þetta er vandi þess sem sýnir hina vondu hegðun þá líður honum oft engu að síður ömurlega og spyr sig: „Af hverju ég?“ Og foreldrar spyrja: „Af hverju barnið mitt?“ Fullorðnum þolanda tekst iðulega betur að „skila skömminni“ en unglingum sem eru enn að móta og þroska sína sjálfsmynd.

Nú höfum við verkfæri til að taka á þessum málum og gerð er krafa um að forvarnarstarfi sé sinnt. Á heimasíðu minni kolbrunbaldurs.is má finna allan fróðleik um forvarnir og úrvinnslu eineltismála sem ég hef fram að færa. Barnaheill er einnig með frábært verkefni, Vinátta – forvarnarverkefni gegn einelti, sem komið er í tugi leikskóla um land allt og er nú á haustönn verið að bjóða upp á það fyrir fyrstu bekki grunnskóla, sjá nánar um það á barnaheill.is.“

- Auglýsing -

Samstarf við foreldra mikilvægt

Kolbrún segir að hlutverk foreldra sé stórt í eineltismálum eins og öðrum sem varða börn þeirra. „Þá gildir einu hvort um er að ræða foreldra barna sem sjaldan eða aldrei hafa orðið fyrir stríðni eða einelti sem og foreldra barna sem eru þolendur nú eða barna sem kvartað hefur verið út af vegna eineltishegðunar. Reynsla foreldra barna í þessum málum er iðulega erfið og sársaukafull. Foreldrar þolenda finna oft til mikils vanmáttar, kvíða, reiði og sorgar, ótta og óvissu um hvernig tekið verði á málinu og hvort takist að stöðva eineltið. Foreldrar barna sem kvartað er yfir líður einnig oft mjög illa. Stundum trúa þau því ekki að barn þeirra hafi sýnt viðlíka hegðun, aðrir foreldrar segjast ekkert endilega hissa t.d. ef barn þeirra á sögu um að hafa sýnt af sér slæma framkomu. Flestir foreldrar finna til sterkrar verndartilfinningar þegar barn þeirra er ásakað um að leggja í einelti og þá án tillits til hvort foreldrar trúi ásökununum eða ekki. Það er ekkert nema eðlilegt. Aðalatriðið er að vinna með skólanum eða félagasamtökunum að fá málið upp á borð þannig að hægt sé að skoða það og ljúka því. Stundum er svona mál byggt á misskilningi sem leysist auðveldlega þegar farið er að skoða málið nánar. Þá kemur jafnvel í ljós að ekki var um að ræða einelti heldur einhvern misskilning jafnvel, stundum hefur verið um að ræða valdabaráttu og stundum er um flokkadrætti að ræða. Þessi mál geta verið gríðarlega flókin og margslungin eins og oft þegar kemur að mannlegum samskiptum.

Kolbrún segir að samfélagið viðurkenni nú einelti og skaðsemi þess sé flestum orðin kunn.

Samvinna foreldra við skóla og aðrar stofnanir sem barnið er hjá skiptir öllu þegar erfið mál koma upp. Þá reynir á að aðilar treysti hver öðrum og sjái að hagsmunir barnanna er það sem skiptir öllu og þá er átt við hagsmunir allra barnanna sem að málinu koma. Foreldrar eru lykilaðilar þegar grafast á fyrir um orsakir og stöðva óheillaþróun málsins. Foreldrar eru einnig áhrifamestu fyrirmyndir barna sinna. Foreldrar sem horfast ekki í augu við meintan hlut barna sinna í kvörtunarmáli eru að senda þeim „vond skilaboð“ sem koma þeim ekki til góða hvorki nú né síðar. Í þeim tilfellum sem foreldrar eru e.t.v. óánægðir með skólann má sú óánægja aldrei verða til að hindra samvinnu þegar greiða á úr erfiðum málum.

Enginn stendur eins nærri börnunum og foreldrar þeirra. Hvað varðar fræðslu og þjálfun barna í samskiptum skiptir máli að byrja um leið og þroski leyfir að kenna þeim að koma vel fram við alla, líka þá sem eru ekki endilega vinir eða bestu vinir. Kenna þeim að setja sig í spor annarra, að láta vita ef þeir sjá stríðni eða einelti og ekki megi skilja út undan. Ég man þegar dætur mínar voru litlar þá spurði ég þær af og til eftirfarandi spurninga: Ert þú ekki öruggleg góð við alla í bekknum? Eru krakkarnir góðir við þig? Heldur þú að einhverjum í þínum bekk líði illa vegna einhvers í bekknum? Ef kom svar sem hringdi bjöllum var síðan brugðist við því eftir atvikum. Með einföldum spurningum er hægt að fylgjast með gangi mála í skólum barna sinna og ef barnið sýnir vanlíðunareinnkenni eða upplýsir um ofbeldisatvik af einhverju tagi er mikilvægt að hafa strax samband við skólann eða íþrótta- eða æskulýðsfélagið. Öllu skiptir að hafa samband og sé niðurstaðan að tilkynna einelti að koma þá kvörtuninni á framfæri með skriflegum hætti. Ef kvörtunin er einungis munnleg er alltaf meiri hætta á að upplýsingar skili sér ekki nægjanlega vel og meiri hætta er á misskilningi. Hlutverk foreldra er líka að taka virkan þátt í að gera kannski gott kerfi betra og koma með góðar ábendingar og tillögur sem geta bætt verkferla skóla í þessum málum.“

„Foreldrar sem horfast ekki í augu við meintan hlut barna sinna í kvörtunarmáli eru að senda þeim „vond skilaboð“ sem koma þeim ekki til góða hvorki nú né síðar.“

Kolbrún býður meðal annars upp á prógramm fyrir foreldra barna sem tengjast eineltismálum. „Í þeim fyrirlestri sem ég hef sniðið með foreldra í huga í þessum málum fer ég í gegnum þessa þætti. Ég byrja á að ræða birtingamyndir eineltis, algengar orsakir og ástæður stríðni og eineltis. Einnig tengsl ADHD og eineltis og hvernig það geti mögulega verið áhættuþáttur bæði fyrir að stríða og vera strítt/lagður í einelti. Áherslan er síðan á hlutverk og aðkomu foreldra að þessum málum, reynslu þeirra og með hvaða hætti þeir geta komið sterkar inn í forvarnarstarf og úrvinnslustarf. Loks fer ég lið fyri lið yfir hvernig ferli frá tilkynningu til málaloka lítur út frá sjónarhorni foreldra.“

Hún ætlar að miðla því sem hún kann í þessum málaflokki eins lengi og óskað er eftir. Ég mæti á eins marga staði og ég get, nota heimasíðuna og bíð upp á handleiðslu og ráðgjöf á stofu. Þetta er ekki lengur bara einhver vinna hjá mér heldur löngu orðið hugsjón og áhugamál vegna þess að ég veit og skynja að þessum málum er hægt að þoka til enn betri vegar.“

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir/ www.pixabay.com

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -