Ugla Stefanía, formaður Trans Íslands, fer ekki leynt með þá skoðun að þeir þingmenn, sem hafa sett sig upp á móti frumvörpum sem miða að því að að tryggja rétt barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og verja þau gegn ónauðsynlegum skurðaðgerðum, séu að hennar mati, að stimpla sig inn sem fólk sem setji sig upp á móti miklum umbótum í mannréttindamálum.
„Mér finnst þessi málflutningur einfaldlega vera fólki til skammar, því það er bókstaflega að segja að það sé í lagi að framkvæma óþörf og óafturkræf inngrip á ungbörnum sem geta ekki veitt samþykki fyrir þeim, aðgerðir sem geta leitt til alvarlegs heilsufarsvanda og fylgikvilla,“ segir hán og vísar þar í aðgerðir sem framkvæmdar eru á börnum sem eru intersex, eða með ódæmigerð kyneinkenni, til að laga kyneinkenni þeirra að væntingum um dæmigert útlit og form kvenna og karla. „Hvernig einhver getur barist fyrir slíku er ofar mínum skilningi. Fólk sem það gerir ber sannarlega ekki hag barna fyrir brjósti.“
Hræðsluáróður
Ugla segir síðan rangt að nær engin umræða hafi átt sér stað um þessi mál hérlendis, eins og einhverjir þingmenn héldu fram máli sínu til stuðnings, eða að um sé að ræða „blinda pólitík“, eins og það var orðað, þar sem ríkisstjórnin hafi hvorki tekið mark á vísindum né lækningum þegar hún lagði fram frumvörpun þrjú.
„Þvert á móti hefur heilmikil umræða átt sér stað um réttindamál trans fólks og hinsegin fólks sem hefur verið öllum aðgengileg. Ég held þetta snúist meira um það að fólk sé litað af mjög fjandsamlegum og hatrömmum umræðum um trans málefni, eins og þær hafa verið annars staðar, til dæmis í Bretlandi, sem á sér langa og erfiða sögu þegar kemur að réttindamálum hinsegin fólks. Sögu sem ætti ekki að vera öðrum til eftirbreytni. Ég ætla bara rétt að vona að slík viðhorf nái ekki fótfestu hérlendis, enda eiga þau ekkert erindi í réttlátu lýðræðissamfélagi sem kennir sig við jafnrétti og sanngirni,“ segir hán.
„Ég held að vandamálið sé bara miklu frekar að þetta fólk er ekki tilbúið að meðtaka svörin þegar kemur að þessum málum og vilji frekar trúa misvísandi áróðri og afturhaldssemi.“
„Svo finnst mér líka að fólkið sem hefur hvað hæst um að ekki megi ræða hlutina sé í raun ekki tilbúið að ræða við fólkið sem á í hlut. Og þetta fólk sem er hvað mest á móti þessum breytingum, er oftast nær fólk sem er í engum tengslum við trans fólk eða intersex fólk eða baráttusamtök þess. Því það má svo sannarlega ræða hlutina. Ég held að vandamálið sé bara miklu frekar að þetta fólk er ekki tilbúið að meðtaka svörin þegar kemur að þessum málum og vilji frekar trúa misvísandi áróðri og afturhaldssemi.“
Hán segist hvetja fólk því til að spyrja sig í fullri einlægni hvern eigi að taka alvarlega í þessum efnum: trans fólk, intersex fólk, nútímarannsóknir, sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins, hinsegin samtök, femínísk samtök og mannréttindasamtök almennt — eða fólk sem er lítið sem ekkert inn í þessum málum. „Þessar lagabreytingar byggja nefnilega á staðreyndum, vísindum, sanngirni, jafnrétti og skynsemi,“ bendir hán á, „en ekki hræðsluáróðri, afturhaldssemi eða öfugsnúningi.“