Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Þögul fyrirlitning

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Þegar við rugluðum saman reytum, ég og seinni maðurinn minn, höfðum við bæði verið í sárum í nokkur ár eftir makamissi. Börnin mín tvö tóku sambandi okkar vel en ekki er hægt að segja það sama um dóttur mannsins míns.

Þegar ég missti manninn minn skyndilega voru börnin okkar aðeins fimm og átta ára gömul. Við tók erfiður tími en ég reyndi mitt besta til að vera sterk fyrir þau. Það eldra, sonurinn, átti sérlega erfitt, enda skildi hann betur hvað hafði gerst. Ég fékk mikinn stuðning frá ættingjum mínum sem gerðu líf okkar svo miklu auðveldara. Pabbi og mamma buðu mér og börnunum til Kanaríeyja um jólin og systur mínar, makar þeirra og börn slógust í hópinn. Það hafði verið mikill kvíði í gangi í aðdraganda þessara fyrstu jóla án mannsins míns og pabba barnanna. Ég segi kannski ekki að jólin úti hafi verið sérlega auðveld en það var samt óskaplega gott fyrir okkur öll að skipta um umhverfi þar sem fátt minnti á íslensku jólin.

Tengdaforeldrar mínir höfðu viljað fá okkur norður til sín en ég var löglega afsökuð þar sem búið var að taka ákvörðunina um að fara út. Ég er viss um að það hefði orðið afar erfitt þar, á æskuheimili mannsins míns, þar sem við höfðum varið saman nokkrum hátíðum hjá foreldrum hans og hefði alltaf kosið að fara til útlanda. Þau voru skilningsrík og sögðu að ferðin myndi örugglega gera okkur gott. Við fórum til þeirra næstu jól á eftir og áttum góðan tíma saman.

Sorgin sameinaði

Rúmum tveimur árum eftir lát mannsins míns kynntist ég Óla í gegnum gamla skólasystur mína. Óli hafði misst konu sína nokkrum árum áður og þau höfðu eignast saman dóttur sem var orðin tíu ára, eða jafngömul syni mínum.

Sorgin sameinaði okkur Óla. Í upphafi vorum við bara vinir og töluðum endalaust saman í síma á kvöldin. Vináttan dýpkaði smám saman og breyttist í ást og innan við hálfu ári eftir að við kynntumst flutti ég til Óla. Eftir á að hyggja voru það mistök hjá okkur að selja ekki bara báðar íbúðirnar og kaupa stærri, eða jafnvel hús, saman. Ég leigði mína íbúð út þegar ég flutti til Óla en álagið við að fá mig og börnin reyndist dóttur hans afar erfitt. Hún hafði stjórnað öllu á heimilinu eftir að mamma hennar dó og fengið allt sem hún vildi. Óli gat aldrei sagt nei við hana og getur ekki enn. Svo kom ég þarna inn á heimilið og breytti öllu, eða eyðilagði allt, að hennar mati. Hún var til dæmis afar ósátt við að mega ekki sofa lengur uppí hjá pabba sínum. Óli hafði margoft reynt að fá hana til að sofa í eigin rúmi eða fært hana sofandi þangað en alltaf kom hún aftur.

„Í upphafi vorum við bara vinir og töluðum endalaust saman í síma á kvöldin.“

- Auglýsing -

Ýmsar breytingar urðu eftir að við fluttum inn, eðlilega. Við keyptum ný rúm, bæði fyrir okkur Óla og einnig börnin. Einnig nýtt sófasett í stofuna. Óli vildi endilega breyta meira til. Smám saman varð heimilið sameiginlegt heimili okkar Óla og barna okkar. Stjúpdóttir mín var iðulega höfð með í ráðum til að gera henni breytingarnar auðveldari en hún sneri oftast upp á sig og sagðist ekki vilja skipta sér af þessari „eyðileggingu“.

Óvinur númer eitt, tvö og þrjú

Við ákváðum að við skyldum ala börnin upp sameiginlega, eins og þau væru öll okkar. Þetta þýddi að ég gat ekki orðið ígildi vinkonu, heldur varð gribban í augum hennar, sú sem sagði nei. Ég held að þetta hafi verið óhjákvæmilegt því Óli gat ekki neitað henni um neitt og það hefði skapað ýmis leiðindi og jafnvel öfund hjá börnunum mínum.

- Auglýsing -

Þrátt fyrir ungan aldur hafði stelpan dýran smekk og fannst gaman að vera í merkjafatnaði. Úlpan hennar kostaði til dæmis meira en helmingi meira en úlpur barnanna minna til samans, svo dæmi sé tekið. Eftir að ég kom til sögunnar fékk hún ekki lengur þau föt sem hún heimtaði, bara innan skynsamlegra marka og þegar hana vantaði. Dísæta morgunkornið sem hún var vön að fá beið inni í skáp til helganna og eitthvað hollara var snætt á virkum dögum.

Það var auðvitað erfitt að þurfa að segja svona oft nei við stjúpdóttur mína og reyna að hafa aga á henni. Hún leit á mig frá upphafi sem keppinaut um hylli föður síns. Óli er ekki veiklyndur maður en hann hafði reynt frá andláti konu sinnar að bæta dótturinni upp móðurmissinn með því að reyna að uppfylla allar óskir hennar. Hann áttaði sig ekki á því að hún varð ekki þakklát, miklu frekar heimtufrek en hún kunni vel þá list að vefja föður sínum um fingur sér.

Ég reyndi mitt besta að nálgast stelpuna, var góð við hana, höfðaði til skynsemi hennar, reyndi að nota húmor á hana þegar hún fékk frekjuköst en alveg sama hvað ég gerði, ekkert virtist virka. Ég var óvinur hennar númer eitt, tvö og þrjú. Væntanlega hefði hún þurft einstaklega ljúfa og móðurlega stjúpu sem hefði umvafið hana á allan hátt, já, og látið allt eftir henni. Ég er ekki þannig, ég er meira blátt áfram og nenni engum dramatískum flækjum, ég vil tala strax um vandamálin áður en þau verða stór og óviðráðanleg. Kannski leit hún á það sem að ég væri að rífast við hana, hún brást mjög oft illa við ef ég vildi fá eitthvað á hreint.

Einhverra hluta vegna náðu hún og sonur minn, jafnaldri hennar, vel saman og þau eru enn í dag góðir vinir. Hún var kurteisari við mig þegar hann var nærstaddur og líka pabbi hennar og flestir aðrir en sýndi mér fyrirlitningu og dónaskap þegar við vorum tvær einar. Eftir því sem hún eltist beitti hún meira þögninni á mig og fyrirlitningaraugnaráði. Ég var í fyrstu vongóð um að mér tækist að ná vináttu hennar en sú von dvínaði jafnt og þétt.

Slæm mistök

Þrátt fyrir þessa erfiðleika blómstraði ástin á milli okkar Óla og lífið var yndislegt. Það liðu þrjú eða fjögur ár þar til við seldum báðar íbúðirnar okkar og keyptum rúmgott og fallegt raðhús í sama hverfi. Það hittist svo á að við fluttum þegar dóttir Óla var úti á landi, hún hafði fengið vinnu við barnapössun hjá frænku sinni í einn mánuð. Líklega þótti henni gott að sleppa við að aðstoða við flutningana en hún var þó búin að pakka öllu niður í herberginu sínu.

Heilmikið dót var úti í bílskúr, flest í rykugum, ómerktum kössum. Ég hafði sjálf fleygt öllu óþarfadóti, eða gefið öllu heldur, áður en ég flutti til Óla svo ég átti enga kassa í skúrnum. Óli sagðist ekki hafa snert kassana í mörg ár svo þar gæti ekkert verið sem okkur vantaði. Þeim var því fleygt án þess að kíkt væri ofan í þá sem voru algjör mistök. Við komumst að því nokkrum mánuðum seinna. Í kössunum höfðu verið ýmsir hlutir sem tilheyrðu mömmu hennar, handavinna, skartgripir og fatnaður sem Óli hafði pakkað niður og svo gleymt. Þetta voru hlutir sem dóttirin hefði að sjálfsögðu átt að fá, að minnsta kosti ákveða hvað yrði um. Hún sagði pabba sínum að hún hefði fyrir einhverjum árum laumast út í bílskúr og handleikið þessa hluti, sem voru nánast það eina sem minnti á mömmu hennar, sagði hún. Hún hafði verið svo viss um að kassarnir færu með okkur á nýja heimilið að henni hefði ekki dottið í hug að minnast á það.

„Óli sagðist ekki hafa snert kassana í mörg ár svo þar gæti ekkert verið sem okkur vantaði. Þeim var því fleygt án þess að kíkt væri ofan í þá sem voru algjör mistök.“

Hún kenndi mér alfarið um þetta og sakaði mig um að vilja afmá allt sem minnti á mömmu hennar. Þótt Óli segði henni að ég hefði hvergi komið nærri vildi hún ekki hlusta á það. Það var eins og hún vildi fá enn eina ástæðuna til að hatast við mig. Ég skil hana vel að hafa orðið sár, þetta voru óbætanleg mistök. Í hennar sporum hefði ég líka orðið mjög sár en líklega ekki jafnhatursfull og hún var gagnvart mér. Ég ásakaði mig nú samt heillengi fyrir að hafa ekki gægst í kassana. Ég hélt satt að segja að þegar konan hans Óla dó hefði hann gengið frá dótinu hennar, ekki grunaði mig að hluti af því væri enn í kössum. Hann hafði alla vega steingleymt því.

Þögul fyrirlitning

Eftir flutningana ríkti hálfgert stríðsástand um hríð en eftir það hef ég frekar mætt þögulli fyrirlitningu sem hefur staðið yfir í rúm tuttugu ár. Lífið með Óla hefur verið yndislegt en hann er mesta gæðablóð sem ég hef kynnst.

Dóttir hans flutti ung að heiman, eða 16 ára, og heim til kærastans sem nú er maðurinn hennar. Þau eiga tvö börn og mér til mikillar furðu hafa ungu hjónin stundum beðið okkur Óla um að passa … Þau kalla það að afi passi en vita fullvel að Óli gerir ekkert nema spilla þeim, ég sé um allt hitt … og líka að spilla þeim.

Stelpuskottið hefur engu gleymt og ég er reglulega minnt á að ég sé ekki æskileg og nærveru minnar ekki óskað. Eins og til dæmis þá plata þau Óla stundum til að koma með sér út að borða og þá er ég ekki velkomin. Ég læt það ekki svekkja mig, ekki lengur, og þar sem ég veit hvað hann nýtur þess að vera með dóttur sinni hef ég hvatt hann til að fara.

Mér fannst óþægilegt að sitja við háborðið í brúðkaupinu hennar, vitandi að hún hefði frekar viljað að ég væri heima. Ég sá líka á augnaráði margra gestanna, brúðgumans megin, að hún hefur ekki talað fallega um mig. Fólk hefur reynt að segja mér frá því að hún beri mér ekki fallega söguna en ég hef aldrei kært mig um að vita það svo ég hef stoppað þetta af.

Í mörg ár hefur ríkt eins og þögult samkomulag á milli mín og stjúpdóttur minnar. Hún fyrirlítur mig og ég læt mér það lynda. Ég get ekkert annað. Samt vildi ég gjarnan heyra hennar hlið á málum og vita hvað ég gerði henni, nú þegar hún er orðin fullorðin manneskja.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -