Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Þurftum að berjast fyrir okkar alla daga“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég var alin upp í mikilli fátækt. Mamma mín var ein með okkur þrjú systkinin en pabbi hafði lítinn áhuga á að hjálpa til eða var kannski ekki aflögufær, ég veit það ekki. Við systkinin áttum hvorki flott föt né fínt dót eins og hinir krakkarnir og við fengum sannarlega að finna fyrir því.

 

Við bjuggum í lítilli tveggja herbergja íbúð og það segir sig sjálft að þetta var ekki mikið pláss fyrir eina fullorðna manneskju og þrjú börn. Mamma leigði þessa íbúð af kunningja afa og íbúðin þurfti endurnýjunar við. Hún hafði verið lengi í leigu og allar innréttingar voru farnar að láta á sjá. Íbúðin var ódýr fyrir vikið en dag nokkurn fékk mamma leyfi hjá eigandanum til að taka húsnæðið í gegn. Við unnum öll eins og berserkir og bróðir hennar mömmu sem er smiður hjálpaði.

Íbúðin var máluð, nýir skápar settir í svefnherbergið og bróðir mömmu smíðaði fallegt og sniðugt fatahengi í forstofuna. Þegar eigandinn kom að skoða var auðséð að hann var ánægður með verkið og þess vegna kom það okkur mjög á óvart nokkrum vikum seinna þegar bréf barst frá honum með tilkynningu um að hann hygðist hækka leiguna umtalsvert. Mamma gat ekki borgað svona háa leigu og við urðum því að flytja.

Aftur var heppnin með okkur því við fengum íbúð í góðu hverfi og þótt leigan væri há gerði það ekkert til því Félagsmálastofnun hafði fallist á að borga hluta hennar. Sú íbúð var einnig mun stærri en hin þannig að við hlökkuðum mikið til að flytja inn. En Adam var ekki lengi í Paradís. Við vorum komin í rótgróið miðstéttarhverfi þar sem allir höfðu nóg að bíta og brenna og fátækt þótti ekki ásættanleg í þessum hópi. Sú staðreynd að við urðum að fara sparlega með peninga var nóg til að nágrannar okkar dæmdu okkur pakk og við systkinin fengum sannarlega að heyra háðsglósurnar og hnjóðsyrðin.

Lögð í einelti

Systir mín var opinská og kát lítil stelpa. Hún hafði aldrei verið í vandræðum með að eignast vini og bjóst því ekki við öðru en góðu þegar hún fór í fyrsta sinn út að leika sér fyrir framan nýja húsið. Foreldrarnir voru greinilega búnir að tala við börnin sín því viðtökurnar voru andstyggilegar. Krakkarnir hreyttu í hana ónotum, hrintu henni út á götuna og köstuðu í hana drullu. Hún kom grátandi inn og var alveg miður sín það sem eftir var dagsins. Eldri bróðir minn reiddist þessu illa og rauk út til að kenna krökkunum lexíu. Hann hafði það upp úr krafsinu að einn pabbinn kom grenjandi og öskrandi út og sló bróður minn, sem þá var þrettán ára, í andlitið.

- Auglýsing -

Mamma fór og reyndi að tala við þetta fólk en henni var tilkynnt að enginn vildi fá félagsmálapakk í hverfið sitt og við skyldum pilla okkur burtu sem fyrst. Þarna byggi aðeins sómakært fólk. Mér fannst hegðunin ekki bera vott um mikla sómatilfinningu en ellefu ára gutti má sín lítils þegar hinir fullorðnu eru annars vegar. Systir mín var ekki sú eina sem lögð var í einelti þarna í hverfinu. Ég og bróðir minn þurftum að berjast fyrir okkar alla daga og vorum hvergi óhultir. Við vorum sakaðir um að stela úr hverfisbúðinni þótt við gætum sannað að við hefðum hvergi nálægt henni komið þann dag sem stuldurinn átti sér stað. Við vorum líka sagðir hafa kveikt í ruslatunnum og margt fleira en ekkert af þessu var satt.

Námið í skólanum gekk þokkalega en við gátum alltaf átt von á því að á okkur yrði ráðist. Fötunum okkar var hent í klósettið, töskurnar okkar skemmdar og við lamin. Umsjónarkennari minn og systur minnar var góður maður sem var tilbúinn að láta reyna á manngildi okkar áður en hann dæmdi okkur. Hann sýndi okkur mikla hlýju og kom bróður mínum nokkrum sinnum til hjálpar þegar hann lenti í vandræðum.

„Mamma fór og reyndi að tala við þetta fólk en henni var tilkynnt að enginn vildi fá félagsmálapakk í hverfið sitt og við skyldum pilla okkur burtu sem fyrst.“

Systir mín átti erfitt með að sætta sig við óvinsældir sínar því hún hafði alltaf átt svo auðvelt með að eignast vini. Til þess að ganga í augun á krökkunum tók hún því upp á alls konar hlutum. Meðal annars stökk hún ofan af háum vegg við skólalóðina og sneri sig illa þegar hún kom niður og í annað sinn þvoði hún hárið á sér upp úr drullupolli á planinu heima vegna þess að einhver krakkinn hafði manað hana til þess. Það var eins og hún áliti það skárra að vera fræg að endemum en að enginn tæki eftir henni eða vildi við hana tala.

- Auglýsing -

Persónuleiki barnanna breytist

Mömmu leið óskaplega illa yfir þessu og hún ræddi nokkrum sinnum við Félagsmálastofnun um að finna okkur annað húsnæði. Þar á bæ vildu menn ekki hlusta á umkvartanir sem þessar og töldu að krakkarnir myndu fljótt jafna sig og taka okkur í sátt. Það var eins og enginn áttaði sig á að krakkarnir voru ekki vandamálið heldur sú innræting sem fór fram af hálfu fullorðna fólksins. Foreldrarnir vildu okkur burtu og þeir beittu börnunum sínum eins og vopnum í þeirri baráttu. Starfsmenn Félagsmálastofnunar höfðu þó rétt fyrir sér að einu leyti því þegar frá leið vorum við að mestu látin afskiptalaus.

Systir mín hætti að reyna að ganga fram af öllum og lokaði sig af. Þessi glaða litla stelpa varð einræn og í raun þunglynd. Það eina sem hún virtist hafa áhuga á var að teikna myndir og hún bjó til heilu myndasögublöðin þar sem hún og vinkona hennar úr gamla hverfinu, Nína, voru í aðalhlutverki. Ég var alltaf hræddur og kvíðinn. Á hverjum degi gat ég átt von á því að á mig yrði ráðist, annaðhvort á leið í skólann eða á heimleiðinni. Ég forðaðist ákveðin hús því þar bjuggu óvinir sem gátu stokkið á mig fyrirvaralaust og fór því langar og skrýtnar krókaleiðir heim til mín. Þetta breyttist ekkert þótt árásirnar minnkuðu.

„Ég veit að börn sem lenda í svæsnu einelti bíða þess aldrei bætur. Óverðskuldað ofbeldi og stöðugur ótti setur mark á sálina sem aldrei hverfur að fullu.“

Bróðir minn var harður af sér og sterkur og það leið ekki á löngu þar til jafnvel hörðustu naglarnir hættu að þora í hann. Til þess að komast af ræktaði hann með sér þessa eiginleika og ég vil meina að sú grimmd sem hann mátti þola hafi drepið eitthvað í sál hans. Hann leiddist fljótlega út í vímuefnaneyslu og hefur barist við fíknina allt sitt líf. Stundum gengur honum vel og stundum illa. Lengst hefur honum tekist að vera edrú í sex ár og vonandi tekst honum einhvern tímann að yfirvinna sjúkdóminn að fullu.

Lélegt sjálfsmat og mikil andleg vanlíðan

Við yngri systkinin höfum bjargað okkur ágætlega. Systir mín fór í listaskóla og er mjög skapandi. Það háir henni hins vegar hversu lélegt sjálfsmat hún hefur og henni gengur illa að koma sjálfri sér og verkum sínum á framfæri þess vegna. Ég starfa við ákveðna iðn sem ég lærði og er ekkert sérlega ánægður í starfi. Ég hafði engan áhuga á þessari grein þegar ég fór í námið en vildi læra eitthvað. Ég vissi ekki hvað ég vildi og taldi mig ekki geta farið í langskólanám því mér hafði verið talin trú um að ég hefði ekki þær gáfur sem þyrfti til bóknáms af fyrrum bekkjarfélögum mínum. Þegar ég lít til baka sé ég að einkunnir mínar voru í góðu meðallagi og svo sannarlega var það ekki þess vegna sem þeir töldu mig heimskan. Að þeirra mati gat félagsmálapakkið auðvitað ekki verið góðum gáfum gætt.

Ég veit að börn sem lenda í svæsnu einelti bíða þess aldrei bætur. Óverðskuldað ofbeldi og stöðugur ótti setur mark á sálina sem aldrei hverfur að fullu. Fordómar gagnvart þeim sem eiga erfitt uppdráttar fjárhagslega í þessu samfélagi eru miklir og stór hópur fólks trúir því að fátækt stafi af leti og ómennsku. Mamma mín var hvorki löt né drykkfelld, hún var einfaldlega verkakona sem stóð uppi ein með þrjú börn. Við systkinin vorum hvorki betri né verri en önnur börn við höfðum bara minna handa á milli og fyrir það þurftum við að gjalda.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -