„Við erum bara eins og annað fólk og líf okkar snýst ekki að öllu leyti um það að vera trans. Ef samfélagið væri opnara og það væri sjálfsagðara að vera trans myndi í raun rosa lítill hluti lífs okkar snúast um það,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður samtakanna Trans Ísland.
Ugla hefur undanfarið gagnrýnt harðlega stofnun nýs félags á Íslandi, LGB teymisins, sem hán segir beita sér gegn réttindum trans fólks. Hán játar að vissulega geti verið þreytandi að uppfræða í sífellu og reyna að leiðrétta rangfærslur og fordóma. Hins vegar sé gefandi að sjá þá framför sem á sér stað í samfélaginu hvað varði réttindi og stöðu trans fólks.
„Jú, vissulega. Ég þarf stundum að taka mér góðar pásur og er það lánsöm að eiga góða vini og fjölskyldu sem ég get leitað til eða varið tíma með til að komast aðeins út úr þessu öllu saman,“ viðurkennir Ugla í fullri hreinskini, þegar ég spyr hvort það geti ekki verið þreytandi að standa endalaust í því að uppfræða og reyna að leiðrétta rangfærslur og fordóma.
„Við erum bara eins og annað fólk og líf okkar snýst ekki að öllu leyti um það að vera trans.“
„Fólk gleymir því, held ég, oft að trans fólk er líka bara fólk sem hefur mismunandi áhugamál, er í námi, er að vinna eða er að sinna ástríðu sinni. Við erum bara eins og annað fólk og líf okkar snýst ekki að öllu leyti um það að vera trans. Ef samfélagið væri opnara og það væri sjálfsagðara að vera trans myndi í raun rosa lítill hluti lífs okkar snúast um það. Það er aðallega út af samfélaginu sjálfu sem stór hluti okkar lífs þarf að snúast um það, því við þurfum að standa í því að vera sífellt að berjast gegn fordómum og skilningsleysi.“
Vafasöm samtök
Tilefni samtals okkar er stofnun nýs félags, hins svokallaða LGB teymis sem hefur vakið umtal. Forsvarsfólk þess hefur snúið baki við hinsegin samfélaginu á Íslandi og talar fyrir því að þessi nýi vettvangur verði fyrst og fremst fyrir sam- og tvíkyneigða en ekki trans fólk og hefur sá málflutningur valdið titringi meðal hinsegin fólks. Ugla er í hópi þeirra sem hefur gagnrýnt stofnun félagsins harðlega. Hán segir nákvæmlega ekkert að því að skapa sérstakan vettvang fyrir homma, lesbíur og tvíkynhneigða til að ræða sín mál en ef sá vettvangur snúist um að útiloka trans fólk, sem getur líka vel verið samkynhneigt og tvíkynhneigt eins og aðrir, þá sé það allt annar handleggur.
„Í mínum huga er það að segjast vilja stofna sérstakan vettvang fyrir samkyn- og tvíkynhneigða lítið annað en yfirhylming yfir raunverulega stefnu hópsins sem er að mála trans fólk í neikvæðu ljósi, rétt eins og fyrirmynd félagsins, bresku samtökin LGB Alliance gera. Það sést nú bara á færslunum sem Íslandsdeildin hefur verið að deila á samfélagsmiðlum undanfarið,“ bendir Ugla á. „Fyrir þau sem þekkja ekki til LGB Alliance, þá eru það skilgreind haturssamtök í Bretlandi sem beita sér gegn réttindum trans fólks.“
Ugla segir að rökin sem sé slengt fram í málflutningi LGB Alliance komi oftar en ekki beint úr búðum íhaldssamra afla sem hafa í gegnum tíðina beitt sér gegn réttindum hinsegin fólks, kvenna og ýmissa minnihlutahópa. „Enda hefur forsvarsfólk samtakanna í Bretlandi keppst við að verja samherja sína, sem oft og tíðum eru hópar eða einstaklingar sem hafa gagngert beitt sér gegn réttindum hinsegin fólks, eins og til dæmis einum hjúskaparlögum og ættleiðingum hinsegin fólks,“ nefnir hán. „Einn af stofnendum samtakann hélt því til dæmis fram nú á dögunum að það væri bara ekkert fordómafullt að vera á móti samkynja hjónaböndum.”
Segir höfund Harry Potter-bókanna ala á hatri
Ugla segir að hugmyndafræði LGB Alliance sem Íslandsdeildin virðist vera að tileinka sér sé, þegar betur er að gáð, fjandsamleg stórum hluta hinsegin samfélagsins. Boðskapurinn sé meðal annars sá að einungis séu til tvö líffræðileg kyn, þ.e. karlar og konur. Tilveru kynsegin fólks, þ.e. fólks sem skilgreini sig hvorki sem karl né konu, sé þar með afneitað og tilvist intersex fólks, fólks með ódæmigerð kyneinkenni, ekki tekin með í spilið. Einn hættulegasti angi boðskaparins sé síðan að kynda undir að þessir hópar og trans fólk fái ekki aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.
„Þetta er í raun sami málflutningur og J.K. Rowling, höfundur Harry Potter-bókanna, hefur haldið uppi á samfélagsmiðlum,“ bendir Ugla á og vísar þar til þeirra ummæla Rowling að í raun séu kynin bara tvö, sem hefur leitt til þess að rithöfundurinn hefur verið sökuð um hatur í garð trans fólks.
„Rowling hefur meðal annars fært rök fyrir því að trans konur eigi ekki að fá aðgengi að kvennaskýlum eða þjónustu sem er beint að konum. Hún segir að sem þolandi kynferðisofbeldis vilji hún ekki að fólk í „karlmannslíkama“ nýti sér sömu þjónustu og hún. Það þýði að hver sem er geti þóst vera kona til að fá aðgengi að þessari þjónustu,“ nefnir Ugla sem dæmi. „Sem þolandi kynferðisofbeldis fengi ég þar af leiðandi ekki aðgengi að slíkri þjónustu ef Rowling hefði eitthvað um það að segja.
„Rowling hefur meðal annars fært rök fyrir því að trans konur eigi ekki að fá aðgengi að kvennaskýlum. Hún segir að sem þolandi kynferðisofbeldis vilji hún ekki að fólk í „karlmannslíkama“ nýti sér sömu þjónustu og hún.“
Slíkt sýnir bara að hún hefur mjög fordómafullar hugmyndir um trans konur, útlit þeirra og sömuleiðis hvernig þjónusta í kvennaskýlum virkar. Það gengur nefnilega bara enginn inn í kvennaskýli og fær þar aðgengi án þess að fara fyrst í viðtal hjá fagfólki. Fyrir utan það hefur trans fólk nýtt sér slíka þjónustu í marga áratugi án vandkvæða og það er gríðarlega mikilvægt að það hafi áfram aðgengi að henni þar sem trans fólk á í aukinni hættu að verða fyrir kynferðisofbeldi. Þess vegna þakka ég fyrir að fagaðilar skuli vita betur og haldi áfram að veita trans fólki þessa nauðsynlegu þjónustu.“
Skaðlegur málflutningur
Ugla segir að það sé þyngra en tárum taki að sjá rithöfund sem njóti vinsælda um allan heim vegna bóka sem hafi verið skrifaðar með unga lesendur í huga, nota rödd sína og áhrif til þess að berjast gegn heilbrigðisþjónustu og réttindabaráttu sem snýst meðal annars um að auka lífsgæði og vellíðan ungmenna í samfélaginu. Ekki sé síður sorglegt að sjá hinsegin fólk beita sér gegn öðru hinsegin fólki, eins og í tilfelli LGB teymisins, þar sem hinsegin fólk eigi þegar undir högg að sækja. Sé einhver í vafa um það, hafi til dæmis nýverið birst tveir umdeildir pistlar eftir íslenskan sálfræðing á Vísi þar sem staðhæft var að trans fólk væri með raskanir og brenglanir af ýmsu tagi.
„Það hættulega við málflutning af þessu tagi er að fólk sem veit kannski lítið um þessi mál getur hugsanlega tekið þessu sem góðu og gildu þótt þetta standist ekki skoðun og það séu engar vísindalegar sannanir fyrir því sem er haldið fram. Þar af leiðandi getur svona málflutningur smitað út frá sér í samfélagið, meðal annars út í heilbrigðiskerfið þangað sem trans fólk sækir ýmsa þjónustu,“ segir Ugla, þótt hán telji að flest heilbrigðisstarfsfólk sé sem betur fer nógu upplýst til að sjá í gegnum „vitleysuna“.
„Engu að síður er alltaf hætta á að einhver láti svona málflutning hafa áhrif á sig og eins og staðan er mætir trans fólk nógu miklu mótlæti. Svona skrif eru ekki á bætandi.“
Efast um siðferðisvitund umræddra aðila
Ugla segir ekki skipta máli hvort viðkomandi er heimsþekktur rithöfundur, eins og J.K. Rowling, sálfræðingur eða eitthvað annað, fólk sem setji fram svona skoðanir og noti starfstitil sinn til að gefa þeim aukið vægi ýti undir frekari fordóma í samfélaginu, skilningsleysi og mismunun gagnvart trans fólki. En hver er eiginlega munurinn á því að einhver tjái skoðanir sínar undir eigin nafni eða geri það og láti starfstitil fylgja? Ugla er fljót til svars.
„Það að koma til dæmis fram sem sálfræðingur og setja fram meiðandi, misvísandi og fordómafullan áróður er grafalvarlegt og að mínu mati gróft brot í starfi. Sálfræðingar hafa mikil áhrif í samfélaginu og mér finnst fullkomið ábyrgðarleysi að nota starfstitil sinn til að koma fordómafullum og meiðandi skoðunum á framfæri.
Þetta fólk lætur starfstitilinnn fylgja því það veit að aðrir eru þá líklegri til að trúa og taka undir með því, enda er auðveldara að afskrifa eitthvað sem fordómafullt raus þegar það kemur frá einhverjum karli út í bæ frekar en einhverjum sem titlar sig sem sálfræðing. Þar liggur hundurinn grafinn og ég set stórt spurningarmerki við siðferðisvitund fólks sem gerir slíkt.“
Segir íslenska fjölmiðla seka um að birta falsfréttir
Ugla segir að ábyrgð þessara aðila sé mikil og sömuleiðis fjölmiðla sem birta gagnrýnislaust svona málflutning. Það sé ekkert annað en gróft ábyrgðarleysi. „Það er hættuleg þróun að fjölmiðlar gefi út efni sem er algjör vitleysa og áróður enda eru skrif af þessu tagi lítið annað en falsfréttir klæddar í búning skoðana. Við höfum séð hvernig falsfréttir og áróður hafa haft áhrif á kosningarbaráttur erlendis. Það er því rétt hægt að ímynda sér hvaða áhrif þær hafa á viðkvæma samfélagshópa sem eru oft ekki í stöðu til þess að berjast gegn þeim og þurfa í sífellu að vera að leiðrétta og fræða. Það er nefnilega miklu auðveldara að henda fram misvísandi áróðri en það er að leiðrétta hann. Það getur tekið mörg ár og jafnvel áratugi.
Nú veit ég að sálfræðingurinn umræddi sendi fyrri pistilinn sinn á alla helstu fjölmiðla landsins og fékk hvergi birtingu nema á Vísi. Í pistli hans og fleiri greinum af þessu tagi er ítrekað talað um „kynskipti“, orð sem hefur lengi verið fordæmt sem villandi og meiðandi, meðal annars í ályktum frá Trans Íslandi sem Blaðamannafélag Íslands birti 2007. Enda er þetta sambærilegt við orðið „kynvillingur“ og ég efast stórlega um að grein sem innihéldi þá orðnotkun fengi birtingu í nokkrum fjölmiðli á Íslandi. Þess vegna finnst mér að það þurfi að staldra við og skoða hvers vegna fjölmiðlum þykir réttlætanlegt að birta svona greinar og á hvaða forsendum.
„Að mínu mati verða fjölmiðlar sem deila svona falsfréttum og áróðri í raun að fara að taka alvarlega til í sinni ritstjórnarstefnu og hætta að láta auglýsingatekjur frá smellum vega ofar siðferðiskennd.“
Að mínu mati verða fjölmiðlar sem deila svona falsfréttum og áróðri í raun að fara að taka alvarlega til í sinni ritstjórnarstefnu og hætta að láta auglýsingatekjur frá smellum vega ofar siðferðiskennd og þeim neikvæðu afleiðingum sem þetta mun koma til með að hafa, í þessu tilfelli fyrir trans fólk. Fjölmiðlar eiga að vera miklu gagnrýnni á það sem þeir birta, annars eru þeir í beinni andstöðu við sitt hlutverk og ábyrgð gagnvart almenningi um réttmæta og áreiðanlega upplýsingaveitu.“
Lítið annað en hatursorðræða
Hérna gríp ég fram í fyrir Uglu og spyr hvort við séum þá á móti ekki komin út hættulega braut sem samfélag ef við ætlum að fara að skerða málfrelsi þeirra sem eru á öndverðri skoðun við okkur sjálf? Hvað með tjáningafrelsið?
„Fólk verður nú að geta sætt gagnrýni fyrir skrif sín,“ segir hán yfirvegað, „það er hluti af opinberri umræðu. Að bera fyrir sig að það sé verið að skerða málfrelsi fólk með því að gagnrýna það er auðvitað fáránlegt og ekkert annað en lélegt yfirklór. Auðvitað eigum við að láta í okkur heyra þegar svona misvísandi áróðri og bulli er slengt fram í opinberri umræðu og látið eins og það eigi við einhver rök að styðjast. Það getur ekki verið annað en nýting á málfrelsi að gagnrýna slík skrif og fordæma þau.“
Ugla segir að út frá sínum bæjardyrum séð sé svona málfutningur lítið annað en hatursorðræða, þar sem tilgangurinn sé að kasta rýrð á raunveruleika trans fólks og ala á mjög fjandsamlegum og fordómafullum skoðunum. „Fólk verður að átta sig á því að orð hafa afleiðingar og þessi skrif munu aðallega hafa neikvæð áhrif á til dæmis líf trans ungmenna á Íslandi, mörg hver sem upplifa nú þegar mikið skilningsleysi og fordóma. Tilgangur sálfræðingsins umrædda er til dæmis að smána og rógbera trans fólk og upplifun þess og er því lítið annað en hatursorðræða.“
Þá komum við einmitt að öðrum mikilvægum punkti, hvenær verður eitthvað að hatursorðræðu? Hvar eru mörkin milli tjáningarfrelsis og hatursorðræðu?
„Samkvæmt skilgreiningum er talað um að orð verði hatursorðræða þegar þau eru orðin það fjandsamleg og smættandi að það komi til með að ýta undir frekari fordóma og mismunun gagnvart minnihlutahópum. Svona skrif snúast í raun ekkert um tjáningarfrelsi heldur meira bara um að koma einhverjum fordómafullum og meiðandi skoðunum á framfæri,“ svarar hán.
„Tjáningarfrelsi er eitthvað sem við búum öll við á Íslandi og samfélagsmiðlar gefa okkur svo sannarlega tækifæri til að koma skoðunum okkar á framfæri óhindrað. Það að fá ekki birta einhverjar fordómafulla grein hjá fjölmiðli telst því varla skerðing á tjáningarfrelsi, enda er fjölmiðlum ekki skylt að birta áróður og rugl á sínum vettvangi. Það væri hins vegar allt annað mál ef ríkisreknir fjölmiðlar færu að ritskoða gagnrýni á stjórnvöld og stjórnarhætti, en það er þar sem tjáningarfrelsi okkar þarf að vera varðveitt.
Mér finnst þessi umræða því oft afvegaleidd út í eitthvað mun alvarlegra, en eins og staðan er í dag þá er tjáningarfrelsi settar skorður þegar farið er að nota orð til að meiða annað fólk, það flokkast undir hatursorðræðu. Og við verðum að geta tekið afleiðingunum ef við brjótum slík lög, enda er það alvarlegt mál.“
„Ef þú gerir mistök þá er það ekkert mál“
Nú taka samt sem áður einhverjir undir með J.K. Rowling, LGB Alliance og skoðanasystkinum þeirra, þó ekki nema að því leyti að þeim finnst umræðan um málefni hinsegin fólks komin út í tóma vitleysu. Sumir segjast vera orðnir ringlaðir á öllum þessu nýju hugtökum, hán, kynsegin og þar fram eftir götum og að „þið“ verðið raunverulega ekki í rónni fyrr en allri umræðu um „lífræðilegu kynin“ karl og kona hafi verið eytt. Hvað segir Ugla við því, skilur hán hvað átt er við?
„Í mínum huga snýst þetta aldrei um að fólk þurfi að kunna skil á öllum hugtökum eða geta lesið upp einhverjar orðabókaskilgreiningar,“ svarar hán af stillingu. „Auðvitað snýst þetta bara um gagnkvæma virðingu og að við getum tekið fólki eins og það er. Ég skil alveg að það getur verið svolítið yfirþyrmandi að vera óviss um hvernig á að nota hugtök eða hvaða fornöfn á að nota, en á móti geturðu reynt að ímynda þér hvernig er að vera trans og mæta fordómum, mismunun og skilningsleysi sem enn er við lýði í samfélaginu. Það allra minnsta sem við getum gert er að leggja okkur aðeins fram og reyna okkar besta að nota rétt hugtök og fornöfn. Það kostar okkur ekkert, en getur virkilega haft mjög jákvæð áhrif á fólkið í kringum okkur. Þetta er ekki það flókið ef við bara tökum okkur aðeins tíma og setjumst niður og hugsum um þetta.“
„Auðvitað snýst þetta bara um gagnkvæma virðingu og að við getum tekið fólki eins og það er.“
Ugla segir að gagnstætt því sem einnhverjir kunni að telja sé flest trans fólk yfirleitt til í að ræða þessi mál á jafningagrundvelli. „Trans fólk veit strax hvort fólk er að spyrja af einlægni eða ekki. Ef þú gerir mistök þá er það ekkert mál. Þá er einfaldast og best að biðjast bara afsökunar og gera betur næst. Trans fólk er meðvitað um að þetta getur verið svolítið snúið, en ég held að við verðum öll að gera okkar besta og leggja okkur fram að koma fram við annað fólk af virðingu. Það þýðir að við þurfum kannski aðeins að hugsa áður en við notum fornöfn eða nöfn til að byrja með, en þetta kemur allt saman mjög fljótt. Við þurfum bara að reyna,“ segir hán og brosir.
Alls ekki á móti hugtökunum karl og kona
Ugla segir marmiðið síðan aldrei hafa verið að afmá líffræðilegt kyn fólks eða umræðuna um það enda sé trans fólk eflaust mun meðvitaðra um sín líkamlegu einkenni en annað fólk, sérstaklega þegar kemur að kyni. Trans fólk vilji hinsvegar vekja athygli á því að kyn, hvort sem rætt er um það á félagslegum eða líffræðilegum nótum, sé mun flóknara en svo að allar konur séu svona og að allir karlar séu hinsegin. Trans fólk vilji einfaldlega fá að vera hluti af umræðu sem snerti það, en ekki útilokað frá þeirri umræðu. Enda séu sögur þess og reynsla mun marktækari en úreltar skoðanir einhverra rithöfunda, sálfræðinga eða annarra sem eru í engum tengslum við veruleika trans fólks.
Spurð hvort trans fólk verði enn fyrir fordómum á Íslandi segir Ugla ekki nokkurn vafa leika á því. „Hatursorðræða og fordómar lifa afskaplega góðu lífi hér, sömuleiðis aðkast og ofbeldi. Það þarf nú lítið annað en að skoða kommentakerfi á vefmiðlum landsins til að finna ansi svæsnar og fordómafullar umræður um trans fólk,“ nefnir hán en tekur fram að Ísland standi samt framarlega þegar kemur að þessum málum og að margt hafi breyst til hins betra á undanförnum áratugum. Það þýði þó ekki að fólki verði ekki enn fyrir mismunun á ýmsum sviðum.
„Sem dæmi lendir trans fólk enn á alls konar veggjum innan heilbrigðiskerfisins,“ bendir hán á. „Núna er ekki starfandi á BUGL sérstakt transteymi sem aðstoðar trans ungmenni og forsjáraðila þeirra, en ég veit að það er mikill vilji innan BUGL og hjá heilbrigðisyfirvöldum að standa betur að þeirri þjónustu og ég vona að það leysist úr vandamálum þar sem allra fyrst.
Trans fólk sem býr úti á landi lendir síðan oft í miklum vandræðum við að leita sér þjónustu eins og ég þekki sjálf. Það er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk fái nægilega fræðslu til að geta beint fólki á rétta staði og standi ekki í vegi fyrir því.
Svo þarf líka að huga að trans fólki sem er hælisleitendur og flóttafólk, en sá hópur hefur verið mjög ósýnilegur hérlendis og eins má leggja miklu meira púður í að kanna stöðu trans fólks yfirleitt á Íslandi, svo við getum lagst í aðgerðir til að bæta stöðu þess.“
Hán bætir við að það sé líka bara ótrúlega mikilvægt að við gerum öll það sem við getum til að sporna gegn fordómum. „Hvort sem það er að deila góðum greinum á samfélagsmiðlum, styðja við samtök eins og Samtökin ’78 og Trans Ísland sem beita sér fyrir bættum hag trans fólks eða mótmæla fordómafulla frændanum á jólahlaðborðinu. Margt smátt gerir eitt stórt.“
Gefandi barátta
Við erum farin að nálgast lokin á þessu spjalli okkar og aftur komum við að spurningunni hvort það geti ekki á köflum verið þreytandi að standa endalaust í því að leiðrétta alls konar rangfærslur og fordóma. Ugla brosir og játar að vissulega séu verkefnin mörg og stundum taki á að vera í eldlínunni.
„En ég hef gagngert sett mig í þetta hlutverk og er mjög meðvituð um það. Ég hef því tekið það á mig að standa í þessu og vera manneskjan sem svarar, fræðir og berst fyrir bættum hag trans fólks.
Það eru alls konar leiðir til þess og þó að ég sé kannski sýnilegri en margt annað fólk þá er ótrúlega stór hópur fólks sem beitir sér fyrir þessu og ég er því svo sannarlega ekki ein,“ minnir hán á.
„Ég hef gagngert sett mig í þetta hlutverk og er mjög meðvituð um það. Ég hef því tekið það á mig að standa í þessu.“
Hán segir að það sé auðvitað líka mjög gefandi að standa í svona baráttu og sjá framför eiga sér stað. Það haldi sér gangandi. „Það gefur mér líka mikið að fylgjast með yngri kynslóðinni sem ég hef óbilandi trú á og sæki innblástur í á hverjum degi,“ segir hán. „Framtíðin er björt og ég hlakka svo til að sjá þá framför sem mun eiga sér stað á næstu áratugum.“
Mynd / Sharon Kilgannon / Instagram