Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Tinna lætur ekkert stöðva sig: „Allar áskoranir kenna manni eitthvað nýtt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tinna Hrafnsdóttir, leikkona og leikstjóri, er með mörg járn í eldinum um þessar mundir. Hún birtist á skjám landsmanna í þáttaröðinni Ráðherranum þar sem hún fer með hlutverk Svanhvítar, dyggrar sjálfstæðiskonu, og svo leikur hún líka á móti nokkrum af helstu stórstjörnum Norðurlandanna í danskri sögulegri kvikmynd um Margréti fyrstu Danadrottingu sem verður frumsýnd á næsta ári. Tinna lætur sér þó ekki nægja að leika, Skjálfti, fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd, er nú í eftirvinnslu og nýverið hlaut Tinna þróunarstyrk fyrir sex þátta sjónvarpsseríu.

„Þetta er persónudrifið fjölskyldudrama sem segir sögu þriggja kynslóða. Okkur langaði að leggja áherslu á sterka persónusköpun, flókin fjölskyldutengsl og átök sem um leið endurspegla á ákveðinn hátt þjóðarsál okkar Íslendinga,“ segir Tinna um sjónvarpsseríuna Heima er best sem hún er með í þróun. Um er að ræða sex þátta seríu sem Tinna og Ottó Geir Borg handritshöfundur hafa verið að skrifa og vinna að í nokkur ár.

Tinna segir hugmyndina að seríunni hafa kviknað út frá öllum frásögnunum sem hún hefur heyrt í gegnum tíðina af fjölskyldum sem standa í stríði eða talast jafnvel ekki lengur við vegna ósættis út af erfðamálum, fjölskyldufyrirtækjum, húseignum eða öðrum veraldlegum hlutum.

„Þannig átök geta oft verið bæði grimm og afhjúpandi,“ segir hún, „því tilfinningatengsl sem fólk myndar við hluti sem því er gert að eiga saman eða deila sín á milli geta endurspeglað flókna þætti í sálarlífi þess, vonir og vonbrigði, og þá sérstaklega hjá fólki sem tengist blóðböndum og ætti frekar að standa saman en að vera í átökum hvert við annað. Okkur langaði að segja sögu af þannig fólki, án þess þó að dæma nokkurn,“ segir hún með áherslu, „heldur miklu frekar sýna mennskuna og grátbroslegu hliðina á því.“

„Tilfinningatengsl sem fólk myndar við hluti sem því er gert að eiga saman eða deila sín á milli geta endurspeglað flókna þætti í sálarlífi þess.“

Tinna og Ottó hafa unnið að seríunni í nokkur ár, eins og áður sagði. „Við Ottó erum bæði á kafi í öðrum verkefnum þannig að þetta verkefni hefur fengið að malla svolítið og þroskast með okkur samhliða því,“ útskýrir hún. „Núna er ég hins vegar komin með tvo reynslumikla framleiðendur sem stukku strax um borð og munu stíga með okkur næstu skref,“ segir hún og eftirvæntingin leynir sér ekki.

Skjálfti í eftirvinnslu

- Auglýsing -

Heima er best er ekki eina verkefnið þar sem Tinna spreytir sig á í handritaskrifum og leikstjórn um þessar mundir því fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd, Skjálfti, er komin í eftirvinnslu. „Við erum að nálgast læst klipp,“ upplýsir hún. „Eftir það tekur við hljóðvinnsla, tónlist og litgreining.“

Kvikmyndin byggir á bókinni Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur rithöfund og segir af ungri konu, Sögu, sem vaknar upp minnislaus á spítala eftir slæmt flogakast. Þar sem hún vinnur í að ná áttum og tökum á lífi sínu fara gamlar minningar sem hún bældi niður sem barn að gera vart við sig og afhjúpa sársaukafullar staðreyndir um fortíð hennar og hana sjálfa. Bókinni var vel tekið af gagnrýnendum og almenningi á sínum tíma, hlaut Íslensku bóksalaverðlaunin og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV. Því er óhætt að segja að myndarinnar sé beðið með eftirvæntingu.

Aðspurð segir Tinna að í ljósi aðstæðna hafi gengið vonum framar að koma sögunni á hvíta tjaldið. „Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel, enda er ég umvafin reynslumiklu og góðu fólki, sem er algjört lykilatriði. Tökurnar á myndinni stóðu yfir í febrúar og mars á þessu ári þannig að undir það síðasta var ég reyndar orðin ansi kvíðin um að ná ekki að klára tökur út af COVID-19 faraldrinum sem brast þarna á,“ játar hún, „en við vorum svo ljónheppin að ná að klára rétt áður en allt skall í lás.“

- Auglýsing -

Stefnan er að frumsýna Skjálfta í byrjun næsta árs. „Eins og staðan er í dag fer það þó eftir ansi mörgu hvenær nákvæmlega,“ segir hún, „líka hvaða viðtökur hún kemur til með að fá á erlendum kvikmyndahátíðum.“

Öðruvísi áskorun

Talandi um það, er ekki búið að vera svolítið krefjandi að laga sig að þeim breyttu aðstæðum sem hafa skapast vegna COVID-19?

Þótt Tinna hafi verið önnum kafin við handritaskrif og leikstjórn er langt í frá að hún hafi sagt skilið við leikferilinn. Mynd / Hallur Karlsson

„Jú, þetta ástand er auðvitað mikil áskorun,“ svarar Tinna. „Kvikmyndagerð fylgja vissulega alltaf áskoranir, en þetta ástand er öðruvísi áskorun þar sem það þarf ekki mikið til að öllu verði skellt í lás aftur. En á meðan vélarnar halda áfram að rúlla og fólk hefur vinnu gerir maður það sem þarf til að aðlagast breyttum aðstæðum og reynir að hugsa í lausnum. Og það er mikill samhugur í fólki. Við viljum geta haldið áfram og vitum hvað þarf til þess og höfum staðið okkur rosalega vel hér á landi, til dæmis í að fylgja tilmælum yfirvalda. Bransinn er líka uppskera eftir því sem betur fer enda er nóg að gera í innlendum og erlendum verkefnum.“

Í því samhengi nefnir Tinna hversu mikilvægt sé að halda í bjartsýnina. „Auðvitað, maður á alltaf að vera bjartsýnn. Allar áskoranir kenna manni eitthvað nýtt og það er margt sem við getum lært af þessu öllu saman. Því ef haldið er rétt á spöðunum, líka af hálfu stjórnvalda, hefur bransinn tækifæri til að styrkja stoðir sínar enn frekar og blómstra sem aldrei fyrr.“

Hún segist vera sammála þeirri skoðun sem sumir halda á lofti að kvikmyndagerð geti leikið stórt hlutverk í efnahagslegri upprisu Íslands eftir að við náum tökum á COVID-19. „Já, ég er það, enda hefur margoft verið bent á að ef stjórnvöld hækka endurgreiðsluhlutfall framleiðslukostnaðar upp í 35 prósent þá muni það auka enn frekar fjárfestingu erlendra aðila,“ bendir hún á. „Fleiri verkefni yrðu tekin upp hér á landi sem væri mikilvæg búbót fyrir íslenskt efnahagslíf.“

Leikur á móti helstu stjörnum Norðurlanda

Þótt Tinna hafi verið önnum kafin við handritaskrif og leikstjórn er langt í frá að hún hafi sagt skilið við leikferilinn. Nýlega var tekin til sýninga á RÚV sjónvarpsþáttaserían Ráðherrann, sem fjallar um forsætisráðherra Íslands sem tekst á við andleg veikindi, og þar fer Tinna með hlutverk hinnar dyggu sjálfstæðiskonu Svanhvítar. Í sumar lék hún síðan í stórmyndinni Margrete den forste sem verður einnig gerð að sjónvarpsseríu, en þar er rakin saga Margrétar fyrstu Danadrottingar.

„Það var gefandi reynsla og virkilega gaman, enda fékk ég tækifæri til að leika á móti nokkrum af mínum uppáhaldsleikurum,“ segir hún og brosir, en með önnur hlutverk fara danski leikarinn Søren Malling úr sjónvarpsþáttunum vinsælu Borgen og Forbrydelsen og danska leikkonan Trine Dyrholm sem leikur aðalhlutverkið, sjálfa Margréti drottningu, en hún er mörgum Íslendingum að góðu kunn úr kvikmyndinni The Royal Affair.

„Lífið er núna svo það er engin ástæða til að bíða með neitt.“

„Það er því margt spennandi búið að vera í gangi og enn fleira á döfinni,“ segir Tinna glaðlega. „Annars á eftirvinnslan á Skjálfta hug minn allan um þessar mundir, þótt ég sé samhliða því að þróa og leggja grunn að fleiri verkefnum. Lífið er núna svo það er engin ástæða til að bíða með neitt.“

Mynd / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -