Fátt er skemmtilegra og jólalegra en að spóka sig um á fallegum jólamörkuðum.
Einn þekktasti jólamarkaðurinn er í Nuremberg í Þýskalandi (sjá mynd hér að ofan) þrátt fyrir að vera hvorki sá stærsti né elsti en umgjörðin er mjög falleg. Hann byrjaði árið 1628 og var upphaflega miðstöð viðskipta með handgerðar viðarstyttur. Markaðurinn er þekktur fyrir matinn sem þar er í boði og á kvöldin er hann lýstur upp með hundruðum ljósa, ásamt því sem hljómsveitir spila allt milli himins og jarðar.
_______________________________________________________________
Vín
The Christkindlmarkt er á torginu fyrir framan ráðhúsið í Vín og er einn elsti jólamarkaður Evrópu, enda 700 ára gamall. Hann er opnaður um miðjan nóvember sem er hentugt fyrir þá sem vilja sleppa við ösina þegar nær dregur jólum. Garðurinn í kringum markaðinn er lýstur upp með jólaljósum sem setur ævintýralegan blæ á svæðið.
_______________________________________________________________
Köln
Jólamarkaðir í Köln í Þýskalandi draga að sér milljónir gesta víða úr heiminum fyrir hver jól. Sá vinsælasti í borginni er „Am Com“ sem er á torginu fyrir framan tveggja turna kirkjuna.
_______________________________________________________________
Dresden
Jólamarkaðurinn í Dresden í Þýskalandi á rætur sínar að rekja til ársins 1434 og er sá elsti í Evrópu. Heimamenn eru sérstaklega stoltir af Striezelmarkt sem er nefndur eftir ávaxtakökunni Striezel eða Stollen. Hápunktur markaðarins er The Stollen Festival sem haldið er annan sunnudag í desember.
_______________________________________________________________
Brussel
Markaðurinn er á hinu glæsilega Grand Place-torgi í Brussel og er þekktur fyrir frábæran mat, jólaglögg og belgískt konfekt. Jólaljósin lýsa upp kofana sem standa fyrir mismunandi Evrópulönd og þar er hægt að fá allt milli himins og jarðar.
_______________________________________________________________
München
Í desember beinast öll spjót að Marienplatz sem er í hjarta gamla bæjarins í München í Þýskalandi en þar er stærsti jólamarkaður borgarinnar. Hann opnar föstudaginn fyrir fyrsta í aðventu þegar þúsundir manna koma saman á torginu þegar kveikt er á 30 metra háu jólatrénu. Yfir 140 básar eru á torginu og hægt að kaupa fullt af flottum, handgerðum munum.
_______________________________________________________________
Prag
Tékkar taka jólin alvarlega og mikið er um að vera í höfuðborginni Prag á aðventunni. Jólamarkaðirnir eru þó frekar lágstemmdir og fjölskylduvænir, staðsettir víða um borgina en sá stærsti er á Old Town Square-torginu.
_______________________________________________________________
Tallinn
Jólamarkaðurinn í Tallin í Eistlandi er ungur að árum, enda ekki opnaður fyrr en árið 1991. Markaðurinn er afar rómantískur og þar er notalegt andrúmsloft en hann er staðsettur á Raekoja Plats-torginu í gamla bænum. Fyrir þá sem þrá snjóinn er næstum bókað að fá hann þarna.
_______________________________________________________________
Berlín
Í Berlín er meiri nútímabragur yfir jólamörkuðunum en annars staðar í Þýskalandi og þeir eru staðsettir um alla borgina. Sá vinsælasti og mest heimsótti er í kringum Kaiser Wilhelm Gedächtniskirche og flott að sjá alla básana í kringum kirkjuna. Kirkjan varð fyrir árás í síðari heimsstyrjöldinni og rústir hennar standa enn til minningar um stríðið.
_______________________________________________________________
Kaupmannahöfn
Tívolíið í Kaupmannahöfn í Danmörku er elsti skemmtigarður í Evrópu. Þar er jólamarkaður ár hvert með hundruðum jólatrjáa og yfir hálfa milljón jólaljósa sem lýsa upp garðinn. Tjörninni er breytt í skautasvell og gestir geta leigt skauta. Yfir 60 litríkir básar eru á staðnum og hægt að fá fjölbreyttar vörur.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir