Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Tónlist, tíska og hjólabretti- hin heilaga þrenning

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinar Fjeldsted hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann á og rekur þrjú fyrirtæki. Steinar er mikill áhugamaður um hjólabretti en fyrir ári stofnaði hann Hjólabrettaskóla Reykjavíkur sem hlotið hefur frábærar viðtökur. Þar að auki á hann og rekur fataverslun sem og veftímarit sem fjallar um íslenska tónlist. Fljótt á litið virðast þetta vera fyrirtæki með ólíkar áherslur en Steinar segir þetta allt tengjast og mynda hina heilögu þrenningu.

Steinar hefur verið á hjólabretti frá því að hann var um átta ára gamall, eða í 34 ár, sem verður að teljast ansi gott. „Ég hef verið viðloðandi senuna frá því snemma á tíunda áratugnum en árið 1996 stofnaði ég til dæmis BFR (Brettafélag Reykjavíkur) svo afar fátt sé nefnt.  Ég var beðinn um að vera með námskeið hjá BFH (Brettafélagi Hafnarfjarðar) árið 2015 og það gekk gríðarlega vel. Það var svo fyrir um ári sem ég stofnaði Hjólabrettaskólann og hlutirnir hafa gerst hratt síðan þá. Nú erum við með skólann í innanhússaðstöðunni hjá Jaðar íþróttafélaginu sem er staðsett í Dugguvogi 8 í Reykjavík. Nýlega lönduðum við styrk hjá prótíndrykknum Hámark og Kókómjólk svo það eru afar spennandi tímar fram undan.“

Steinar er afar ánægður með þær viðtökur sem skólinn hefur fengið og segir þær hafa farið fram úr hans björtustu vonum. „Það er greinilegt að þjóðin hefur gaman af hjólabrettum en mikill fjöldi fólks sækir hvert námskeið. Á þessum þremur árum sem ég hef starfrækt námskeið hef ég búið til það sem ég vill kalla hið fullkomna prógramm. Á námskeiðinu er aldrei dauður tími og hver þátttakandi fær heilmikið út úr því. Sumir koma aftur og aftur og það er virkilega gaman að sjá framfarir. Hjólabretti er svo miklu meira en bara spýta á hjólum en þessi íþrótt ýtir mjög mikið undir sjálfstæði, kennir viðkomandi að treysta á sjálfan sig og eigin getu. Svo er þetta alveg eins og í lífinu, maður dettur milljón sinnum bara á því að reyna eitt trikk, en ef maður stendur ekki upp aftur og reynir þá nær maður því aldrei. Einu sinni kom faðir með strákinn sinn á námskeið en strákurinn var með staurfót og búinn að prófa allar íþróttir sem til eru en ekkert gekk upp. Hjólabretti var síðasta úrræðið. Eftir um þrjú námskeið var drengurinn farinn að renna sér eins og vindurinn með mjög gott jafnvægi sem ekki hafði sést áður. Faðirinn og drengurinn voru í skýjunum sem og ég.“

Elsti þátttakandinn 74 ára

Nýlega hófust fullorðinsnámskeið í Hjólabrettaskólanum sem hafa ekki síður hlotið góðar viðtökur. Steinar fullyrðir að það sé aldrei of seint að byrja og að hjá þeim séu engin aldurstakmörk. „Hjólabretti er fyrir alla og alla aldurshópa. Það er ekkert betra en að renna sér og hafa gaman. Hjólabretti ýtir undir lífshamingju og það má segja að maður verði nett háður þessu, það er eins og þegar lappirnar snerta gripinn gleymist öll heimsins vandamál og hrein skemmtun taki völdin. Það er ótrúlegt hvað eldri kynslóðin hefur gaman af þessu en það er allskonar fólk á öllum aldri sem sækir námskeiðin. Sumir koma aftur og aftur líkt og á krakkanámskeiðunum. Hjólabretti er nefnilega virkilega góð hreyfing þar sem notast er við alla vöðva líkamans, jafnvel vöðva sem maður vissi ekki að væru til. Svo þetta er ekki aðeins hrikalega skemmtilegt heldur líka krefjandi. Elsti þátttakandi sem hefur komið til okkar var 74 ára maður sem kom á námskeið hjá okkur um daginn. Hann hafði lengi dreymt um að prófa, var virkilega flottur og sannaði það að aldur er enginn fyrirstaða.“

Steinar hefur búið víða um heim, þar af nánast hálfa ævina í Bandaríkjunum. Aðstöðuna til hjólabrettaiðkunar á Íslandi segir hann ekkert í líkingu við það sem finna megi í nágrannalöndum okkar og í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það séu íslenskir skeitarar á heimsmælikvarða. „Hjólabrettasenan á Íslandi er virkilega góð og við eigum mjög efnilega iðkendur. Sumir hafa verið að fara erlendis að keppa og náð mjög góðum árangri. Það er ekki hægt renna sér í rigningu eða slæmu veðri, þess vegna segir það sig sjálft að innanhússaðstaða er nauðsynleg fyrir okkur sem búum á Íslandi. Ég vona innilega að Reykjavíkurborg fari að taka til dæmis Malmö og Danmörku til fyrirmyndar og leggja alvörufjárhæðir í góða aðstöðu. Hjólabretti hafa oft verið litin hornauga hér á landi en það viðhorf virðist vera að breytast. Árið 2020 verður í fyrsta sinn keppt í hjólabrettum á Ólympíuleikunum og við höfum alla burði til að senda fulltrúa frá Íslandi.“

- Auglýsing -

Tónlist ávallt skipað stóran sess

Margir muna eftir Steinari úr rapphljómsveitinni Quarashi, en hann var einn af stofnendum sveitarinnar og meðlimur hennar til starfsloka. Tónlist er honum afar hugleikin og hefur ávallt skipað stóran sess í lífi hans. Það var svo eitt kvöldið sem hann sat og ræddi við konuna sína um íslenska tónlist og þá litlu umfjöllum sem hún fengi, miðað við þá grósku sem væri að eiga sér stað. Það var þá sem hugmyndin að Albumm.is kviknaði. „Okkur datt í hug að búa til tónlistarblað í anda Undirtóna (90´s íslenskt tónlistarblað) sem þróaðist svo yfir í  online music magazine,“ útskýrir hann. „Albumm.is fór í loftið 23. október 2014 og síðan þá höfum við kappkostað við að fjalla um íslenska tónlist og grasrótarmenningu á Íslandi. Albumm er stærsti einkarekni miðill landsins sem telst helvíti gott og við erum afar stolt af honum. Fyrir um tveimur árum hófum við samstarf við Visir.is sem hefur gengið gríðarlega vel. Hugmyndin er í rauninni að vekja athygli á Íslenskri tónlist og skiptir engu hvort um ræðir nýgræðinga, underground eða stórstjörnur, en af nægu er að taka. Við leggjum mikinn metnað í þessa vinnu og viljum vera með puttan á púlsinum, margar fréttir rata inn á vefinn á hverjum degi.“

Aðspurður hvort þessi áhugamál, tónlist og hjólabretti fari vel saman segir Steinar það svo sannarlega vera. „Margt tónlistarfólk er einnig á hjólabretti og öfugt,  má þar til dæmis nefna nefna Krumma Björgvins, Sindra, oft kenndur við Sin Fang og Teit Magnússon. Sjálfur kynntist ég mikið af tónlist í gegnum hjólabrettamyndir en segja má að tónlist, tíska og hjólabretti sé hin heilaga þrenning.“

- Auglýsing -

Þrátt fyrir að hafa mörg járn í eldinum tók Steinar að sér enn eitt verkefnið fyrir stuttu, þegar hann opnaði hjólabrettabúðina Skuggi Reykjavík. Verslunin selur hátískufatnað fyrir hjólabrettaunnendur og fleiri, og því má segja að hin heilaga þrenning sé fullkomnuð. „Það er óhætt að segja að það sé margt spennandi fram undan hjá mér. Við hjá Albumm.is erum að undurbúa netta sprengju í haust sem verður gaman að geta sagt frá, ekki alveg strax þó. Svo erum við að vinna að því að stækka Hjólabrettaskólann og alla starfsemina á bak við hann. Komandi vetur verður fullur af ýmiskonar námskeiðum og miklu stuði,“ segir Steinar Fjeldsted að lokum.

Viðtalið birtist fyrst í 33.tbl Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Hákon Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -