Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Trúir ekki á neitt yfirnáttúrulegt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Malene Sölvsten sló í gegn í Danmörku með fyrstu bók sinni um Hvísl hrafnanna og nú er þriðja bókin komin. Hún segist ekki trúa á neitt yfirnáttúrlegt þótt slíkt leiki stórt hlutverk í sögum hennar.

Hvísl hrafnanna sló í gegn.

Nú er þriðja bókin um Önnu og félaga hennar í Ravnsted komin út í Danmörku og önnur bókin í bókaflokknum nýkomin út á íslensku. Malene var einn gesta á bókmenntahátíðinni Mýrinni á dögunum. Hún er yfir sig hrifin af Íslandi sem hún hefur fram að þessu aðallega kynnst í gegnum Snorra Eddu sem, eins og lesendur hennar vita, er stór hluti af innblæstri hennar til að skapa þann heim sem Hvísl hrafnanna skilar til okkar. Malene hefur skrifað frá því að hún man eftir sér en hún segist aldrei hafa stefnt að því að verða rithöfundur í fullu starfi. Skrifin hafi bara verið fyrir hana sjálfa og seinni árin sem hvíld frá ábyrgðarfullu og krefjandi starfi í danska fjármálaráðuneytinu. Hún var sem sé starfandi hagfræðingur þar á meðan hún skrifaði fyrstu bókina.

Hvísl hrafnanna, 2. bók.

„Ég ætlaði að verða myndlistarmaður,“ segir hún og hlær. „Ég var alltaf teiknandi, málandi og skrifandi sem barn og sá fyrir mér að vinna fyrir mér með myndlistinni þegar ég yrði fullorðin. Ég sótti þrisvar um í myndlistarskóla sem unglingur en fékk alltaf höfnun og það endaði með því að ég fór í ljósmæðranám. Eftir að hafa stundað það í eitt ár, meðal annars verið í starfsnámi á stórum spítala í Kaupmannahöfn og tekið á móti barni eftir að hafa vakað í 48 tíma sá ég að þetta starf var allt of mikið álag fyrir mig, hætti í náminu og fór í hagfræði. Ég lagði áherslu á efnahagsmál þróunarlandanna í náminu og ætlaði að vinna fyrir þau, láta gott af mér leiða, skilurðu, en þegar ég útskrifaðist var efnahagskreppan skollin á og slík störf ekki í boði þannig að þegar mér bauðst starf í fjármálaráðuneytinu þáði ég það auðvitað. Þar vann ég í tvö og hálft ár í samskiptadeildinni, stjórnaði alls konar herferðum fyrir ríkisstjórnina og lærði alveg óskaplega mikið.“

„Ég var alltaf teiknandi, málandi og skrifandi sem barn og sá fyrir mér að vinna fyrir mér með myndlistinni þegar ég yrði fullorðin.“

Hún vann að fyrstu bókinni í leynum í tvö ár áður en henni var nánast þröngvað til að senda handritið til útgefanda eftir að móðir hennar hafði komist að leyndarmálinu fyrir slysni.

„Ég sendi handritið til Gyldendal eftir að mamma suðaði í mér,“ segir hún og grettir sig. „Ég átti svo sem ekki von á að það yrði gefið út en ég viðurkenni að þegar liðnir voru fjórir mánuðir án þess að ég fengi nokkurt svar var ég orðin dálítið pirruð. Þeir gætu nú að minnsta kosti sent höfnunarbréf. Það væru nú lágmarksmannasiðir.“

Það kom henni því algjörlega í opna skjöldu þegar svarbréfið barst loksins og þar bauð Gyldendal henni ekki bara útgáfusamning um fyrstu bókina heldur þriggja bóka samning.

Ýtarlegra viðtal við Malene má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

„Ég var algjörlega sannfærð um að þetta væru mistök,“ segir hún einlæg. „Þeir hlytu að hafa ruglað mér saman við einhvern annan höfund. Ég var skjálfandi á beinunum þegar ég fór í fyrsta viðtalið hjá ritstjóranum mínum, hrædd um að hún uppgötvaði mistökin og fleygði mér á dyr. Það var ekki fyrr en hún nefndi nafnið á einum karakternum í bókinni sem ég fór að anda léttar. Bókin varð síðan metsölubók, sem ég held ekki að neinn hafi búist við, og nú er ég rithöfundur í fullu starfi.“

- Auglýsing -

Malene veit ekki hvað hún ætlar að skrifa næst en hún er með þrjú verkefni í vinnslu.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -